Stjórnmálaskólinn við Austurvöll

14. des. 2010

Blaðagrein eftir Ragnar Önundarson varaformann stjórna Lífeyrissjóðs verzlunarmanna og Framtakssjóðs Íslands slhf. sem birtist í Morgunblaðinu 11.12. síðastliðinn.

Mesta bölið sem að þjóðinni steðjar er ekki lengur „hrunið“.  Það olli að vísu krappri efnahagslægð, banka- og gjaldeyriskreppu. Eftir hrun tóku stjórnvöld málið heljartökum, sem aðrar þjóðir eru nú að átta sig á að voru einstök, óhefðbundin og framúrskarandi.

Blaðagrein eftir Ragnar Önundarson varaformann stjórna Lífeyrissjóðs verzlunarmanna og Framtakssjóðs Íslands slhf. sem birtist í Morgunblaðinu 11.12. síðastliðinn.

Mesta bölið sem að þjóðinni steðjar er ekki lengur „hrunið“.  Það olli að vísu krappri efnahagslægð, banka- og gjaldeyriskreppu. Eftir hrun tóku stjórnvöld málið heljartökum, sem aðrar þjóðir eru nú að átta sig á að voru einstök, óhefðbundin og framúrskarandi. Hér á ég sérstaklega við Neyðarlögin og það hvernig starfsmenn Seðlabanka og Fjármálaeftirlits lögðu nótt við dag þegar nýjum bönkum var komið á laggirnar á rústum þeirra föllnu. Þeim tókst að verja bæði greiðslu- og lánsfjármiðlunina, sem var með ólíkindum. Falli þessi miðlun niður fer efnahagslíf niður á allt annað og verra stig, sem erfitt er að hefja sig upp af. Nú er búið að verka bankana að mestu, þeir eru að verka stærstu fyrirtækin og framundan er verkun skulda smærri fyrirtækja og heimila. Stjórnvöld, bankar og lífeyrissjóðir hafa gert samkomulag um niðurfellingu óinnheimtanlegra lána. Það flýtir uppgjöri mála og leiðir því til viðsnúnings fyrr en ella.

Bloggað í hel

Lífeyrissjóðirnir hafa staðið eins og klettur í hafrótinu. Vegna hins öfluga kerfisbundna sparnaðar hjá þeim og erlendra eigna er landið að koma standandi niður úr hildarleiknum. Ísland setti neyðarlög sem skákuðu eitruðum lánum erlendra risabanka til hliðar, einmitt og nákvæmlega í ljósi neyðarréttar fullvalda ríkis til að gæta hagsmuna sinna. Á Írlandi var tekið allt öðru vísi á málum, vegna aðildar landsins að ESB. Ráðamenn voru ekki sjálfráðir gerða sinna og segir það sitt um áhrif aðildar á fullveldi ríkja. Lífeyrissjóðirnir eru nú að endurreisa fyrirtæki og með því að tryggja sjóðfélögum sínum ávöxtun, sem útrásarpúkar, með vasana fulla af illa fengnu fé, höfðu ætlað sjálfum sér. Það er sérkennilegt að hópur manna ætlar að blogga sig í hel yfir þessu og beinir neikvæðni sinni að fólki sem á hana síst skilið. Það er síðan skelfilegt að jafnvel þingmenn skuli ala á þessari neikvæðni til að slá sér upp í fjölmiðlum. Þeir rífa jafnóðum niður það sem aðrir byggja upp. Spyrja verður hverjum þeir eru að þjóna? Nærtækt er að það séu einmitt útrásarpúkar, sem keyptu sálir þessarra þingmanna fyrir prófkjör. Það eru a.m.k. þessir sömu púkar, sem þessa dagana komast ekki að kjötkötlunum fyrir sjóðum almennings.

Mesta bölið

Mesta bölið sem við búum við núna er upplausnin á Alþingi. Í síðustu tveimur kosningum hefur orðið hátt í 50% endurnýjun þingmanna. Helmingur þeirra eru m.ö.o. byrjendur. Minnisstæð er eldhúsdagsumræðan s.l. vor. Forystumenn flokka tala við slík tækifæri, en leyfa síðan nýliðum að spreyta sig. Viðvaningar úr öllum flokkum vitnuðu hálfklökkir um að þeir hefðu orðið fyrir vonbrigðum. Virðing Alþingis var það sem þeim kom saman um að vantaði. Hún var það sem þau þráðu öll, hvar í flokki sem þau stóðu. Engu þeirra datt í hug að þau sjálf væru vandamálið og ekkert þeirra vissi hvernig virðing verður til. Áður var fólk kosið til þingsetu af því að við þurftum á því að halda þar. Nú er fólk kosið til þingsetu af því að það þarf á því að halda að vera þar. Pétur Stefánsson skrifaði frábæra grein nýlega í Mbl. og leiddi líkur að því að prófkjörin séu afl eyðileggingar. Alls konar liðléttingar og mútuþegar dilla sér á rófunni í gegnum þau og virðist fólk sem komið hefur fram í sjónvarpi eiga greiðari leið en aðrir. Sá sem hefur spurt spurninga í sjónvarpi freistast til að halda að hann hafi líka svörin. Þegar á þing er komið kemur í ljós að tunnan er tóm og það bylur hátt í henni. Það er grafið undan virðingu þingsins í ræðustól þess.

Hugsjónahrun

Allra verst eru þeir staddir sem tekið höfðu tröllatrú á svonefnda „nýfrjálshyggju“. Hvað eiga þeir að tala um og við hvað eiga þeir að tengja sig núna eftir að hugsjónir þeirra hrundu? Það hefur verið neyðarástand í tvö ár, en þessir viðvaningar stunda samt málþóf og nudda sér utan í hvert uppspunamálið á fætur öðru, vegna málefnaskorts. Lífeyrissjóðir almennings og þeir sem þeim stjórna eru í þeirra huga ímynd hins illa. Framtakssjóðurinn í eigu lífeyrissjóða er skammaður fyrir það sem Landsbankinn átti að gera betur. Þeir sem stýra sjóðnum eru taldir „hægt og bítandi að leggja undir sig íslenskt viðskiptalíf í krafti annarra manna peninga“ sagði einn nýliðinn.  Hann nefndi að „margir þeirra lífeyrissjóða sem standa að Framtakssjóðnum hafa þurft að skerða lífeyrisréttindi sjóðsfélaga sinna. Stjórnendur sjóðanna ætli þrátt fyrir það að ávaxta fé í áhættusömum rekstri“. Það er til einn íslenskur lífeyrissjóður sem eingöngu kaupir skuldabréf og eru þau yfirgnæfandi með ábyrgð ríkisins. Hvernig færi um endurreisn atvinnulífsins ef allir lífeyrissjóðir landsins fylgdu þeirri stefnu? Ætli þingmaðurinn sem hélt hinum tilvitnuðu orðum fram telji ríkisábyrgðir vænlegastar til vaxtar í viðskiptalífinu? Er það stefna flokks hans? Útrásarpúkarnir eru með vasana fulla af illa fengnu fé. Er það ekki líka „annarra manna fé“? Er rétt að færa þeim fyrirtækin á silfurfati ?

Margoft hefur komið fram að hrunið olli lífeyrissjóðum áföllum, um 340 milljörðum en ekki 800 eins og fullyrt hefur verið gegn betri vitund. Töpin voru aðeins brotabrot af því sem tapaðist í bönkum og verðbréfasjóðum þeirra, e.t.v. 5% af heildartapinu. Stjórnun lífeyrissjóða var ekki fullkomin, það skal fúslega viðurkennt. Fullyrða má þó að sú stjórnun var heiðarleg og bar höfuð og herðar yfir það sem gerðist, þegar fjárglæframenn tóku banka og sparifé almennings til eigin nota. Mútuþegar á þingi hafa ekki enn játað af hverju þeir horfðu aðgerðalausir á og óskýrt er af hverju forystumenn flokka lögðust í ferðalög til að sannfæra lánveitendur um að allt væri í himnalagi.

Ábyrgð og framfarir

ASÍ, SA og aðildarfélög þeirra tryggja jafnvægi, ábyrgð og framfarir í atvinnulífinu með aðild að stjórnum lífeyrissjóða. Þetta er orðin kjölfesta þjóðfélagsins, á meðan þingheimur dinglar sér. Viðvaningurinn mun hafa sagt hættuna af fjárfestingum í atvinnulífinu þá „að ávöxtun lífeyrissjóðanna verður lakari og það kemur niður á lífeyrisréttindum í framtíðinni. Ég hef líkt þessu við að pissa í skóinn sinn – manni verður hlýtt stutta stund en síðan kemur ofkælingin“ sagði þingstaulinn. Þetta er galið. Ávöxtunin verður þvert á móti mun betri, með dreifingu áhættunnar og skráningu hlutabréfa á markaði. Ég á von á að árangurinn skili sér fljótt og munu þá svartagallsrausarar vitaskuld finna sér önnur rök. Þetta allra síðasta, með ofkælinguna og orsakir hennar, þekkir ungliðinn af eigin raun, hann hefur reynsluna, standandi í pontu hins háa Alþingis.