Að gera áætlun fyrir efri árin áður en þú ferð á lífeyri

15. nóv. 2010

Danir eru oft skipulagðir þegar kemur að fjármálum og fjárhagsáætlunum fyrir heimilið.  Grein sem birt var á vefnum www.penge.dk kemur inn á mikilvægi þess að útbúa áætlun fyrir efri ár í góðum tíma áður en lífeyristaka hefst.

Af frændum okkar Dönum:

Danir eru oft skipulagðir þegar kemur að fjármálum og fjárhagsáætlunum fyrir heimilið.  Grein sem birt var á vefnum www.penge.dk kemur inn á mikilvægi þess að útbúa áætlun fyrir efri ár í góðum tíma áður en lífeyristaka hefst.  Áætluninni er ætlað að hjálpa til við að ná þeim tekjum sem óskað er á lífeyrisaldri, en með henni gerir viðkomandi sér betur grein fyrir hvað betur megi fara og hvar þurfi að bæta í til að ná þeim lífeyristekjum og sparnaði sem óskað er.  Góð útkoma á áætlun sem þessari byggir að sjálfsögðu á því að viðkomandi hafi góða yfirsýn yfir fjármál sín og lífeyrissparnað.  Byrja þarf að hugsa um þessi mál strax í upphafi vinnualdurs.

Ábending um mikilvægi þess að skoða málin í tíma:

Greinarhöfundur bendir á að þegar nær dregur lífeyrisaldri ættu allir að huga að áætlunum fyrir lífeyrisárin.  Byrja skal að huga að slíku að minnsta kosti tíu árum fyrir upphaf áætlaðrar lífeyristöku.  Gott er að leita sér ráðgjafar við slíka vinnu ef einstaklinginn skortir þekkingu á þessum málum.  Eftir að áætlun hefur verið útbúin þarf að fylgja henni eftir og endur skoða reglulega til að fylgjast með hvort markmiðin séu að nást og ná þá að gera breytingar ef svo er ekki.  Ýmislegt getur breyst á 10 árum, bæði í lífi viðkomandi og í lögum.

Góð áætlun byggir á tveimur þrepum. 

Fyrra þrepið snýr að draumum og óskum viðkomandi.  Þá þarf að taka tillit til m.a. eftirtalinna atriða og útbúa raunhæfa fjárhagsáætlun:

 • Hve lengi vilt þú og getur þú haldið áfram að vinna?
 • Viltu vinna þennan tíma í fullu starfi eða hlutastarfi?
 • Ef þú ert gift/ur, muntu hefja lífeyristöku á sama tíma og maki þinn?
 • Hvar og hvernig vilt þú búa?
 • Hvaða væntingar hefur þú til lífeyrisáranna?
 • Vilt þú ferðast?  Hversu mikið?
 • Verður þörf fyrir tvo bíla ef fleiri en einn eru í heimili?

Seinna þrepið snýr að fjármögnun áætlunarinnar.  Við mat á því hvernig best sé að fara að skal m.a. taka tillit til eftirfarandi atriða:

 • Hvernig er best að nýta lífeyrissparnað og annan sparnað?  Skiptir máli í hvaða röð gengið er á mismunandi sparnað upp á ávöxtun og skattalegt hagræði?
 • Hvernig er skattgreiðslum háttað af lífeyrisgreiðslum og sparnaði?
 • Á hversu mörg ár viltu dreifa útgreiðslum lífeyrissparnaðar og annars sparnaðar?
 • Hversu mikið virði liggur í fasteign/fasteignum ykkar?
 • Eigið þið von á arfi?

Að mörgu er að huga í áætlanagerð sem þessari en grundvallaratriði er að reyna að hafa áætlunina raunsæja, taka tillit til sem flestra atriða og gera sér grein fyrir óvissuþáttum.  Áætlanir standast sjaldan á krónutölu en líklegt er að þú verðir nær óskuðu takmarki með áætlun en með óvissu.


Upplýsingaefni á vef sjóðsins og öðrum vefsetrum, tengt efni greinarinnar:

Upplýsingar um ævilangan lífeyri hjá Lífeyrissjóði verzlunarmanna

Upplýsingar um séreignarsparnað Lífeyrissjóðs verzlunarmanna

Lífeyrisreiknivél sjóðsins

 

Áfram veginn, 2010 – Upplýsingarit Tryggingastofnunar um almannatryggingar fyrir eldri borgara

Reiknivél fyrir lífeyri á vef tryggingastofnunar

Gott að vita – Fræðsluvefur Landssamtaka lífeyrissjóða um lífeyrismál

Greinin er byggð á grein af vefnum, www.penge.dk/pension

Espen Sylvest. 2010. Lav en seniorplan, før du går på pension.  Penge & Privatøkonomi,11 tbl.