Ítarleg úttekt Capacent staðfestir traustan rekstur Lífeyrissjóðs verzlunarmanna

25. maí 2009

Vegna góðrar ávöxtunar undanfarin ár þarf ekki að skerða lífeyrisgreiðslur frá Lífeyrissjóði verzlunarmanna (LV) þrátt fyrir neikvæða afkomu árið 2008 og varúðarafskrift skuldabréfa innlendra fyrirtækja. Meginhluti eigna sjóðsins er bundinn í traustum eignum sem ætla má að gefi góða ávöxtun þegar til lengri tíma er litið.

Verkefni lífeyrissjóða er að umbreyta iðgjöldum í lífeyri á sem skilvirkastan hátt, meðal annars með því að halda kostnaði í lágmarki. Vinnubrögð stjórnenda LV standast fyllilega þær kröfur sem til þeirra eru gerðar og rekstrarkostnaðurinn er lægri en almennt gerist hjá sambærilegum sjóðum. Þetta er meðal þess sem fram kemur í úttekt sem stjórn sjóðsins fól Capacent ráðgjöf að vinna og kynnt var á ársfundi sjóðsins á Grand Hotel í dag, mánudaginn 25. maí 2009.

Vegna góðrar ávöxtunar undanfarin ár þarf ekki að skerða lífeyrisgreiðslur frá Lífeyrissjóði verzlunarmanna (LV) þrátt fyrir neikvæða afkomu árið 2008 og varúðarafskrift skuldabréfa innlendra fyrirtækja. Meginhluti eigna sjóðsins er bundinn í traustum eignum sem ætla má að gefi góða ávöxtun þegar til lengri tíma er litið.

Verkefni lífeyrissjóða er að umbreyta iðgjöldum í lífeyri á sem skilvirkastan hátt, meðal annars með því að halda kostnaði í lágmarki. Vinnubrögð stjórnenda LV standast fyllilega þær kröfur sem til þeirra eru gerðar og rekstrarkostnaðurinn er lægri en almennt gerist hjá sambærilegum sjóðum. Þetta er meðal þess sem fram kemur í úttekt sem stjórn sjóðsins fól Capacent ráðgjöf að vinna og kynnt var á ársfundi sjóðsins á Grand Hotel í dag, mánudaginn 25. maí 2009.

Í kjölfar gjöfulla ára hafa síðustu tvö ár verið einstaklega erfið á fjármálamörkuðum um allan heim og það hefur bitnað á lífeyrissjóðum. Í úttektinni kemur fram að þótt ávöxtun íslenskra lífeyrissjóða hafi verið neikvæð í kjölfar efnahagshrunsins árið 2008 var hún ekki eins afleit og búast hefði mátt við. Sjóðirnir búa enn að góðri ávöxtun og uppsöfnun eigna áranna og áratuganna þar á undan. Capacent bendir á að íslenska lífeyrissjóðakerfið sé hagkvæmt í samanburði við lífeyrissjóði annarra OECD ríkja.

Árið 2008 var raunávöxtun LV mínus 24% en heildareignir sjóðsins jukust verulega á árunum þar á undan. Fyrir vikið var raunávöxtun sjóðsins 2,35% síðustu 5 árin og 4,1% sé litið til síðustu 12 ára eða frá árinu 1997 þegar heildarlöggjöf um lífeyrissjóði var samþykkt. Frá sama tíma hafa lífeyrisréttindi hjá LV verið hækkuð um 21,1% umfram verðlagsbreytingar. Þessi raunávöxtun er betri en flestra annarra sjóða og ekki fjarri því sem skuldabréfasjóðir hafa skilað á sama tímabili. Í þessum tölum er tekið tillit til varúðarafskrifta vegna fyrirtækjaskuldabréfa lífeyrissjóða í samræmi við tilmæli Fjármálaeftirlitsins.

Í greinargerð Capacent segir að engin athugasemd sé gerð við vinnubrögð sjóðsins varðandi fjárfestingarstefnu, innri og ytri endurskoðun eða tryggingafræðilegt uppgjör hans. Reikningar LV eru endurskoðaðir af endurskoðunarfyrirtækinu Pricewaterhouse Coopers. Niðurstaða endurskoðunarinnar hefur, án undantekninga, verið sú að ársreikningurinn gefi glögga mynd af afkomu sjóðsins í samræmi við lög og settar verklagsreglur.

Niðurstöður úttektar Capacent á Lífeyrissjóði verzlunarmanna (pdf skrá, 451 kb, 16 síður).