Yfirlýsing vegna viðtals í Silfri Egils 8. mars 2009

8. mar. 2009

Vegna viðtals í Silfrinu í dag vill undirritaður koma eftirfarandi ábendingum á framfæri:

Í Silfri Egils, sunnudaginn  8. mars 2008, kaus viðmælandi Egils að blanda fjölskyldum forystumanna Lífeyrissjóðs verzlunarmanna á miður smekklegan hátt inn í málflutning sinn gegn stjórnendum og starfsemi lífeyrissjóðsins. Jafnframt voru settar fram margar fullyrðingar sem eru efnislega rangar og til þess fallnar að draga upp ranga mynd af því sem um var rætt. Því er alfarið vísað á bug að fjölskyldutengsl hafi haft áhrif á fjárfestingar sjóðsins t.d. í Kaupþingi en eiginkona undirritaðs hóf störf í Búnaðarbanka Íslands árið 1997, þ.e.a.s. þegar bankinn var enn í eigu ríkisins og eiginkona Gunnars Páls, stjórnarformanns lífeyrissjóðsins, var ráðin til almennra starfa í Kaupþingi áður en hann tók sæti í stjórn bankans. Að starf sonar undirritaðs sem sérfræðings í fyrirtækjaráðgjöf Kaupþings hafi áhrif á ákvarðanatökur starfsmanna á eignarstýringarsviði lífeyrissjóðsins varðandi einstakar fjárfestingar er fullkomlega fráleitt og á ekki við nokkur rök að styðjast.

Vegna viðtals í Silfrinu í dag vill undirritaður koma eftirfarandi ábendingum á framfæri:

Í Silfri Egils, sunnudaginn 8. mars 2008, kaus viðmælandi Egils að blanda fjölskyldum forystumanna Lífeyrissjóðs verzlunarmanna á miður smekklegan hátt inn í málflutning sinn gegn stjórnendum og starfsemi lífeyrissjóðsins. Jafnframt voru settar fram margar fullyrðingar sem eru efnislega rangar og til þess fallnar að draga upp ranga mynd af því sem um var rætt. Því er alfarið vísað á bug að fjölskyldutengsl hafi haft áhrif á fjárfestingar sjóðsins t.d. í Kaupþingi en eiginkona undirritaðs hóf störf í Búnaðarbanka Íslands árið 1997, þ.e.a.s. þegar bankinn var enn í eigu ríkisins og eiginkona Gunnars Páls, stjórnarformanns lífeyrissjóðsins, var ráðin til almennra starfa í Kaupþingi áður en hann tók sæti í stjórn bankans. Að starf sonar undirritaðs sem sérfræðings í fyrirtækjaráðgjöf Kaupþings hafi áhrif á ákvarðanatökur starfsmanna á eignarstýringarsviði lífeyrissjóðsins varðandi einstakar fjárfestingar er fullkomlega fráleitt og á ekki við nokkur rök að styðjast.

Þar sem verið er að gera eignarhlut Lífeyrissjóðs verzlunarmanna í Kaupþingi tortryggilegan vegna fyrrgreindra "meintra" tengsla ber að árétta að hann var svipaður eða minni en annarra stórra lífeyrissjóða. Þannig átti Lífeyrissjóður verzlunarmanna 2,64% í Kaupþingi samkvæmt hlutaskrá 9. október 2008 en Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins 3,38% og Gildi lífeyrissjóður 2,70% á sama tíma.

Lífeyrissjóðirnir lúta sem aðrar fjármálastofnanir eftirliti Fjármálaeftirlitsins. Ársreikningar lífeyrissjóðanna eru gerðir upp samkvæmt reglum og fyrirmælum FME. Hrun viðskiptabankanna í október 2008 og óvissa í íslensku efnahagsumhverfi í kjölfarið hefur haft í för með sér niðurfærslu á skuldabréfaeigninni og afskriftir á stórum hluta innlendrar hlutabréfaeignar sjóðsins. Fullyrðingar í viðtalinu um að slíkt hafi ekki verið framkvæmt í ársuppgjöri LV eru því rangar. Eftir sem áður er meginhluti eigna lífeyrissjóðsins í traustum verðbréfum sem munu halda verðgildi sínu og bera góða ávöxtun til framtíðar. Eins og áður hefur komið fram í opinberum upplýsingum frá lífeyrissjóðnum átti sjóðurinn ekki óveðtryggð skuldabréf/víxla nokkurra fyrirtækja sem verið hafa í fréttum að undanförnu t.d. Stoða, Landic Property, Nýsis, Milestone, Baugs, Teymis, 365, Kögunar, Mosaic Fashions og Atorku. Skuldabréf eftirtaldra útgefenda, í eigu sjóðsins, voru til varúðar færð niður að hluta og/eða öllu leyti; Exista, Fl Group, Samson og Eimskip. Ekki var talin ástæða til að færa varúðarafskriftir vegna skuldabréfa eftirtalinna útgefenda; Skipti (Síminn), Tryggingamiðstöðin, Landsvirkjun, RARIK, Alfesca, Bakkavör, Orkuveita Reykjavíkur og HB Grandi.

Vegna sterkrar stöðu lífeyrissjóðsins fyrir kreppuna og virkrar dreifingar eigna munu lífeyrisgreiðslur og réttindi haldast óbreyttar frá síðustu áramótum. Þetta eru góðar fréttir, ekki síst í ljósi þess að frá 1997 hafa lífeyrisréttindi sjóðfélaga verið hækkuð um 21,1% umfram verðlagsbreytingar. Að sjóðurinn hafi sýnt aðra hæstu ávöxtun meðal lífeyrissjóðanna síðustu árin er grundvöllurinn að hækkun réttindanna. Tryggingafræðileg staða sjóðsins um sl. áramót var neikvæð um 7,2% sem er innan þeirra marka sem lög mæla fyrir um og kom því ekki til lækkunar réttinda og lífeyris um síðustu áramót. Rekstrarkostnaður LV hefur ætíð verið með því lægsta sem gerist meðal lífeyrissjóða landsins og var til dæmis 0,06% í hlutfalli af eignum á árinu 2008.

Ranglega var fullyrt af viðmælanda í viðtalinu að bygging og rekstur íbúða fyrir aldraða rúmist innan fjárfestingaheimilda lífeyrissjóða samkvæmt lögum. Lífeyrissjóðir mega einungis eiga fasteignir að því marki sem þarf vegna reksturs þeirra. Fullyrðingar um annað eru rangar.

Meginniðurstöður ársreiknings eru lífeyrissjóðirnir skyldaðir að lögum að birta opinberlega. Lífeyrissjóður verzlunarmanna hefur birt auglýsingu um starfsemi sjóðsins árlega í áratugi. Framsetning upplýsinga í texta tölum og mynd var í ár með hliðstæðum hætti og undanfarin ár. Vangaveltur um að auglýsing sjóðsins hafi eitthvað með yfirstandandi stjórnarkosningu í VR að gera eiga sér enga stoð.

Það er miður að umfjöllun um svo mikilvæg málefni sem hér um ræðir og varða lífeyrisréttindi tugþúsunda sjóðfélaga, byggi ekki á traustari grunni en ummæli í framangreindu viðtali bera vitni. Vitanlega á gagnrýnin umræða um stefnu og störf stjórnenda Lífeyrissjóðs verzlunarmanna fullan rétt á sér. Sjóðfélagar sem hagsmuna eiga að gæta í lífeyrissjóðnum eiga á sama tíma kröfu til þess að til slíkrar umræðu sé vandað og að hún styðjist við rök og málefnalegar forsendur.

Þorgeir Eyjólfsson forstjóri

Lífeyrissjóðs verzlunarmanna