Um breytingar á lögum um lífeyrissjóði

23. jan. 2009

Í desember sl. samþykkti Alþingi nokkrar breytingar á lögum um lífeyrissjóði. Meðal breytinga sem varða sjóðfélaga beint er að reglur um útgreiðslu lífeyrissparnaðar hafa verið rýmkaðar og er nú hægt að taka sparnaðinn út í eingreiðslu frá 60 ára aldri í stað sjö ára áður. Þá er nú einnig heimilt að greiða sparnaðinn í eingreiðslu við fráfall sjóðfélaga.

Kynning á efni laga nr. 171/2009 til breytinga á lögum nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, með síðari breytingum sem tóku gildi 1. janúar 2009

Í desember sl. samþykkti Alþingi nokkrar breytingar á lögum um lífeyrissjóði. Meðal breytinga sem varða sjóðfélaga beint er að reglur um útgreiðslu lífeyrissparnaðar hafa verið rýmkaðar og er nú hægt að taka sparnaðinn út í eingreiðslu frá 60 ára aldri í stað sjö ára áður. Þá er nú einnig heimilt að greiða sparnaðinn í eingreiðslu við fráfall sjóðfélaga.

Meðal annarra breytingar eru:

  • reglur um endurgreiðslu lífeyrissparnaðar til erlendra ríkisborgara
  • heimildir til að rýmka reglur um töku ellilífeyris
  • rýmri reglur til að skipta lífeyrisréttindum á milli hjóna
  • breytingar á reglum um fjárfestingarheimildir lífeyrissjóða
  • ítarlegri reglur um hæfi stjórnarmanna og um innri endurskoðun
  • heimild til að senda út rafræn yfirlit til sjóðfélaga
  • tímabundnar breytingar á reglum um tryggingafræðilega úttekt

Uppsagnarfrestur vegna samninga um lífeyrissparnað í séreign

Uppsagnarfrestur vegna samninga um lífeyrissparnað í séreign er styttur úr sex mánuðum í tvo mánuði.

Útgreiðsla lífeyrissparnaðar í séreign

Nú er heimilt að greiða lífeyrissparnað í séreign út í eingreiðslu þegar rétthafi er orðinn 60 ára. Eldri regla um að henni skuli dreifa yfir tiltekinn tíma þar til sjóðfélagi hefur náð 67 ára aldri á því ekki lengur við.

Þá er nú einnig heimilt að greiða lífeyrissparnaðinn út í eingreiðslu við fráfall sjóðfélaga.

Varðandi útgreiðslu vegna örorku þá gilda eldri reglur áfram, þ.e. dreifa þarf greiðslum á sjö ár m.v. 100% orkutap og yfir lengri tíma ef orkutap er minna.

Upphaf töku ellilífeyris úr samtryggingardeild

Lífeyrissjóðir hafa nú meira svigrúm til að bjóða sjóðfélögum að hefja töku lífeyris fyrr eða síðar en almennar reglur kveða á um skv. samþykktum. Þannig er unnt að mæla fyrir um það í samþykktum að unnt sé að hefja töku ellilífeyris frá 60 ára aldri án tillits til þess hver almennur ellilífeyrisaldur er skv. samþykktum. Þá er afnumin takmörkun á því hve lengi er unnt að fresta töku ellilífeyris.

Rétt er að árétta að þetta ákvæði hefur ekki bein áhrif á Lífeyrissjóð verzlunarmanna þar sem það hefur ekki áhrif nema að samþykktum sjóðsins verði breytt.

Samningar hjóna um gagnkvæma skiptingu lífeyrisgreiðslna

Nú geta hjón gert samning um gagnkvæma skiptingu uppsafnaðra lífeyrisréttinda fram að 65 ára aldri.

Áður var miðað við að slíka samninga þyrfti að gera í síðasta lagi sjö árum áður en taka lífeyris gæti fyrst hafist.

Rafræn yfirlit

Nú er lífeyrissjóðum heimilt að senda yfirlit vegna iðgjaldsgreiðslna og lífeyrisréttinda með rafrænum hætti ef sjóðfélagi óskar þess.

Reglur er varða rekstur lífeyrissjóða

Innra eftirlit: Lögfest er ákvæði sem mælir fyrir um að stjórn lífeyrissjóðs skuli móta innra eftirlit lífeyrissjóðs og skjalfesta eftirlitsferla.

Þá er mælt fyrir um að sá aðili sem sinnir innra eftirliti (endurskoðunardeild eða sjálfstætt starfandi eftirlitsaðili) skuli jafnframt því að annast sérstakar úttektir á virkni innra eftirlits, gera tillögu til stjórnar um skipulagningu innri endurskoðunar en áður var þar mælt fyrir um að gera skyldi tillögu til stjórnar um skipulagningu innra eftirlits.

Hæfi stjórnarmanna: Til viðbótar gildandi ákvæðum um hæfisskilyrði stjórnarmanna er bætt ákvæði um að þeir skuli búa yfir nægilegri þekkingu og starfsreynslu til að geta gengt stöðu sinni á tilhlýðilegan hátt.

Hæfi starfsmanns sem sinnir eignastýringu: Til viðbótar þeim kröfum í lögum um að lífeyrissjóður skuli hafa í þjónustu sinni starfsmann sem hæfur er til að sinna eignastýringu verðbréfasafna sjóðsins á grundvelli menntunar sinnar og starfsreynslu er bætt við ákvæði um að starfsmaðurinn skuli hafa staðist próf í verðbréfaviðskiptum sbr. 53. gr. laga um verðbréfaviðskipti. Ákvæði þetta tekur gildi 1. janúar 2011.

Fjárfestingarheimildir lífeyrissjóða
Sveitarfélög:
Til viðbótar við heimild til fjárfestinga í skuldabréfum og víxlum sveitarfélaga er bætt við heimild til fjárfestinga í skuldabréfum og víxlum Lánasjóðs sveitarfélaga ohf. og skuldabréfum og víxlum sem tryggð eru með ábyrgð sveitarfélaga og Lánasjóðs sveitarfélaga ohf.

Óskráð verðbréf: Heimild til fjárfestinga í óskráðum verðbréfum er hækkuð úr 10% í 20%.

Takmörkun á útgefendaáhættu: Samanlögð eign sjóðsins í verðbréfum, öðrum en ríkistryggðum bréfum, útgefnum af sama aðila eða aðilum sem tilheyra sömu samstæðunni skal ekki vera meira en 10% af hreinni eign sjóðsins. Til viðbótar þessum takmörkunum er nú bætt inn ákvæði um að takmörkunin nái einnig til tengdra aðila, sbr. lög um fjármálafyrirtæki.

Takmarkanir á fjárfestingum í verðbréfasjóðum: Mælt er fyrir um að lífeyrissjóði eða einstakri deild hans sé óheimilt að hafa meira en 25% af hreinni eign sinni í verðbréfasjóðum innan sama rekstrarfélags.

Takmarkanir á gildissviði 36. gr. lsjl.: Við 36. gr. lsjl. bætist nýtt ákvæði sem mælir fyrir um að greinin nái ekki til séreignardeilda lífeyrissjóða. Í stað þess kemur inn ný grein, 36. a, sem þó tekur ekki gildi fyrr en 1. janúar 2010.

Nýjar fjárfestingarreglur fyrir lífeyrissparnað í séreign. Reglur þessar taka gildi 1. janúar 2010. Þær eru mun rýmri en gildandi ákvæði 36. gr. lsjl. Þá gilda þær fyrir alla vörsluaðila lífeyrissparnaðar, þ.e. fyrir banka, sparisjóði, verðbréfafyrirtæki og líftryggingarfélög, auk lífeyrissjóða.

Helstu takmarkanir lúta að takmörkun á fjárfestingum í óskráðum verðbréfum (20%), takmörkun áhættu á hvern útgefanda (20%), takmörkun á fjárfestingum í verðbréfa- og fjárfestingarsjóðum sem og fjárfestingum í verðbréfasjóðum innan sama rekstrarfélags (30%), banni við fjárfestingum í fjárfestingarsjóðum sem fjármagna sig með lántöku eða skortsölu , hámarki á hlutabréfaeign (70%) og takmörkunum á gerð afleiðusamninga (10%).

Fjárfestingar í samlagshlutafélögum: Lögfest er heimild fyrir lífeyrissjóði til að eiga allt að 20% af hlutafé í samlagshlutafélögum. Heimildin er tímabundinn og nær til ársloka 2013. Henni er fyrst og fremst ætlað að gera lífeyrissjóðum betur mögulegt að koma á fót fjárfestingarsjóði sem hefði það hlutverk að fjárfesta hlutabréfum og skuldabréfum innlendra fyrirtækja.

Forsendur tryggingafræðilegrar úttektar

Samkvæmt gildandi lögum má munur á milli hreinnar eignar lífeyrissjóðs til greiðslu lífeyris ásamt núvirði framtíðariðgjalda og væntanlegs lífeyris vegna þegar greiddra iðgjalda og framtíðariðgjalda að hámarki vera 10% vegna eins árs en 5% yfir fimm ára tímabil. Að öðrum kosti þarf að auka eða skerða réttindi. Þessi viðmið eru hækkuð með bráðabirgðaákvæði úr 10% í 15% og 5% í 10% vegna ársins 2009.