Greiðslujöfnun fasteignaveðlána

25. nóv. 2008

Á grundvelli nýrra laga geta lántakendur sjóðfélagalána sótt um greiðslujöfnun í þeim tilgangi að létta greiðslubyrðina tímabundið. Greiðslujöfnun felst í því að á gjalddögum lánsins er greitt samkvæmt greiðslujöfnunarvísitölu en ekki vísitölu neysluverðs. Þó greiðslubyrðin léttist tímabundið mun hún til lengri tíma litið hafa í för með sér aukinn heildarkostnað vaxta og verðbóta fyrir lántaka. Því er ekki sjálfgefið að lántaki kjósi greiðslujöfnun.

Umsóknareyðublað vegna greiðslujöfnunar er aðgengilegt á heimasíðunni og á skrifstofu sjóðsins. Sækja þarf um greiðslujöfnun eigi síðar en ellefu dögum fyrir gjalddaga. Lántakendur eru hvattir til að kynna sér vel upplýsingar um áhrif greiðslujöfnunar sem er að finna á heimasíðu sjóðsins og heimasíðu félagsmálaráðuneytisins.

Almennt um greiðslujöfnun

Samþykkt hefur verið frumvarp á Alþingi um breytingu á lögum um greiðslujöfnun fasteignaveðlána til einstaklinga. Allir viðskiptavinir Íbúðalánasjóðs, lífeyrissjóða og fjármálafyrirtækja sem eru með verðtryggð lán með fasteignaveði geta nú óskað eftir greiðslujöfnun lána sinna, þeim að kostnaðarlausu, telji þeir það þjóna hagsmunum sínum. Umsókn um slíka breytingu skal koma á framfæri við þá lánastofnun sem viðkomandi er í viðskiptum við og verður hún fólki að kostnaðarlausu. Sækja þarf um eigi síðar en 11 dögum fyrir gjalddaga eigi hún að koma til framkvæmda þá. Berist umsóknin eftir þann tíma skal greiðslujöfnun koma til framkvæmda á næsta gjalddaga þar á eftir.

Aðferðin við greiðslujöfnun felst í því að reiknuð verður ný vísitala, svonefnd greiðslujöfnunarvísitala. Ef afborganir samkvæmt þessari vísitölu reynast lægri en afborganir samkvæmt vísitölu neysluverðs er þeim hluta af afborgunum fasteignalánsins sem nemur mismuninum frestað þar til greiðslujöfnunarvísitalan hækkar á ný umfram vísitöl neysluverðs. Sá hluti afborgana sem frestast er færður á sérstakan jöfnunarreikning sem bætist við höfuðstól lánsins. Sé skuld á jöfnunarreikningi við lok upphaflegs lánstíma er lánstíminn lengdur.

Þegar afborganir af láninu, reiknaðar samkvæmt greiðslujöfnunarvísitölunni, verða hærri en afborganir reiknaðar samkvæmt vísitölu neysluverðs greiðist mismunurinn inn á jöfnunarreikninginn til lækkunar höfuðstóls lánsins.

Sérstök athygli skal vakin á því að greiðslujöfnun mun í raun leiða til aukins kostnaðar fyrir lántaka þegar upp er staðið í formi vaxta og verðbóta. Því er ekki sjálfgefið að lánshafar kjósi eða hafi hag af greiðslujöfnuninni þótt hún létti vissulega greiðslubyrði af láni tímabundið í niðursveiflu og geti þannig létt á efnahag heimilanna í landinu, einkum þeirra sem eru með greiðslubyrði sem er hátt hlutfall af ráðstöfunartekjum.


Nánari upplýsingar hjá Félagsmálaráðuneytinu


Umsókn um greiðslujöfnun