Tilkynning til sjóðfélaga í séreignardeild

4. nóv. 2008

Lífeyrissjóður verzlunarmanna vinnur nú að því að meta áhrif fjármálakreppunnar á séreignardeild sjóðsins. Þau áföll sem dunið hafa á íslenskum og erlendum fyrirtækjum munu, með svipuðum hætti og hjá öðrum lífeyrissjóðum, hafa neikvæð áhrif á ávöxtun eigna sjóðsins. Þar vega þungt afskriftir vegna hlutabréfaeignar í fjármálafyrirtækjum og eins má gera ráð fyrir því að hluti af skuldabréfum fjármálafyrirtækja muni tapast. Þá hefur þröng staða ýmissa innlendra fyrirtækja áhrif sem og lækkanir á erlendum fjármálamörkuðum. Eftir sem áður er stærstur hluti eigna séreignardeildar lífeyrissjóðsins í traustum verðbréfum sem munu halda verðgildi sínu og bera góða ávöxtun til framtíðar.

Áhrif fjármálakreppunnar á séreignardeild Lífeyrissjóðs verzlunarmanna

Lífeyrissjóður verzlunarmanna vinnur nú að því að meta áhrif fjármálakreppunnar á séreignardeild sjóðsins. Þau áföll sem dunið hafa á íslenskum og erlendum fyrirtækjum munu, með svipuðum hætti og hjá öðrum lífeyrissjóðum, hafa neikvæð áhrif á ávöxtun eigna sjóðsins. Þar vega þungt afskriftir vegna hlutabréfaeignar í fjármálafyrirtækjum og eins má gera ráð fyrir því að hluti af skuldabréfum fjármálafyrirtækja muni tapast. Þá hefur þröng staða ýmissa innlendra fyrirtækja áhrif sem og lækkanir á erlendum fjármálamörkuðum. Eftir sem áður er stærstur hluti eigna séreignardeildar lífeyrissjóðsins í traustum verðbréfum sem munu halda verðgildi sínu og bera góða ávöxtun til framtíðar.

Lækkun vegna fjármálakreppunnar 14,4%
Lífeyrissjóðurinn hefur í samráði við endurskoðendur sjóðsins endurmetið eignir séreignardeildar og er niðurstaða þess mats sú að lækka þarf gengi séreignardeildar um 14,4% vegna áfalla fjármálakreppunnar í október. Þannig nemur lækkun séreignardeildar frá áramótum 23,4% vegna óhagstæðrar þróunar á innlendum og erlendum fjármálamörkuðum. Um síðustu áramót nam 5 ára árleg meðalávöxtun séreignardeildar 15,8%.

Með tilliti til þess að ekki liggur endanlega fyrir að hvaða marki skuldabréfaeignin í bönkunum og öðrum tengdum félögum endurgreiðist verða þær eignir séreignardeildar endurmetnar þegar þær upplýsingar liggja fyrir. Framangreind lækkun á gengi séreignardeildarinnar gerir ráð fyrir niðurfærslu skuldabréfanna að verulegu leyti og því eru frekari lækkanir á inneignum sjóðfélaganna ólíklegar og ekki útilokað að einhver hluti lækkunarinnar geti gengið til baka.

Lífeyrissjóðurinn harmar þá stöðu sem skapast hefur og áréttar að áhersla er lögð á að tryggja sem best eignir séreignardeildar og leggja grunninn að góðri ávöxtun til framtíðar.

Ráðstöfun iðgjalda sem nú berast
Þau iðgjöld sem borist hafa frá og með 1. október verða ávöxtuð í traustum verðtryggðum innlánum sem njóta ríkisábyrgðar. Þegar aðstæður á fjármálamörkuðum skýrast verður sjóðfélögum gerð grein fyrir nánari útfærslu á fyrirkomulagi á ávöxtun séreignardeildar.

Nánari upplýsingar

  • Upplýsingar um verðmæti séreignarlífeyrissparnaðar hvers og eins sjóðfélaga er að finna á sjóðfélagavef.
  • Sjóðfélögum er velkomið að hafa samband við þjónustuver sjóðsins í síma 580 4000.