Eignir hækkuðu um 26 milljarða í 266 milljarða

26. sep. 2007

Fyrri árshelmingur 2007 einkenndist af verulegum hækkunum á innlendum hlutabréfamarkaði.

Fyrri árshelmingur 2007 einkenndist af verulegum hækkunum á innlendum hlutabréfamarkaði. Þannig hækkaði innlent hlutabréfasafn sjóðsins um 31,7% á tímabilinu en til samanburðar hækkaði Úrvalsvísitala Kauphallarinnar um 29,5%. Þessi þróun átti mestan þátt í að skila sjóðnum 8,8% nafnávöxtun á fyrri hluta ársins eða sem samsvarar 6,3% raunávöxtun á tímabilinu. Raunávöxtunin er ekki reiknuð á ársgrundvelli þar sem ólíklegt er að fjármunatekjur hlutabréfa verði jafn miklar á síðari helmingi ársins og hinum fyrri. Eignir sjóðsins hækkuðu um 26 milljarða frá áramótum og námu 266 milljörðum í lok júní sl.

Sjóðfélögum fjölgaði um rúm 4% á fyrstu 6 mánuðum ársins miðað við sama tímabil á fyrra ári og greiddu að meðaltali rúmlega 32 þúsund sjóðfélagar iðgjald til sjóðsins.

Iðgjaldagreiðslur námu 7 milljörðum sem er hækkun um 22% miðað við fyrri árshelming 2006.

Lífeyrisgreiðslur námu 2 milljörðum og hefur heildarfjárhæð lífeyris hækkað um rúm 22% og lífeyrisþegum fjölgað um 5% miðað við sama tímabil á fyrra ári.

Séreignardeildin: Frá áramótum hafa eignir séreignardeildar hækkað um 13% eða úr 5,6 milljörðum í 6,3 milljarða.