Breytingar á réttindakerfi sjóðsins um síðustu áramót

22. feb. 2006

Breytingin úr réttindakerfi jafnrar ávinnslu yfir í aldurstengda ávinnslu frá 1.1.2006 hefur engin áhrif á áunnin réttindi sjóðfélaga í árslok 2005.
  1. Breytingin úr réttindakerfi jafnrar ávinnslu yfir í aldurstengda ávinnslu frá 1.1.2006 hefur engin áhrif á áunnin réttindi sjóðfélaga í árslok 2005.
  2. Breytingin hefur áhrif á réttindamyndum iðgjalda vegna ársins 2006 og síðar.
  3. Sjóðfélögum sem eiga réttindi í sjóðnum í árslok 2005 er heimilt að greiða til hans iðgjöld að tilteknu hámarki með jafnri réttindaávinnslu til 70 ára aldurs. Undantekning er í þeim tilvikum að sjóðfélagi hafi greitt iðgjöld til sjóðsins fyrir 42 ára aldur í skemmri tíma en 5 ár. Í þeim tilvikum getur viðkomandi áunnið sér rétt í jafnri ávinnslu í jafn marga mánuði og nemur þeim mánaðarfjölda sem viðkomandi á réttindi í sjóðnum í árslok 2005.
  4. Iðgjald sjóðfélaga frá og með 2006 sem færist í jafna réttindaávinnslu, svokallað viðmiðunariðgjald, getur hæst orðið jafnhátt 10% iðgjaldi sjóðfélagans vegna ársins 2003 fært til verðlags í dag. Iðgjald umfram verðbætt viðmiðunariðgjald færist í aldurstengda ávinnslu. Dæmi: Verðbætt 10% viðmiðunariðgjald sjóðfélaga vegna 2003 er 200.000 kr. Iðgjald sjóðfélagans vegna 2006 er 300.000 kr. Í þessu tilviki færist 200.000 kr. iðgjald í jafna réttindaávinnslu vegna 2006 en iðgjald umfram það, þ.e. 100.000 kr. í aldurstengda ávinnslu.
  5. Sjóðurinn mun senda sjóðfélaganum upplýsingar um viðmiðunariðgjald hans vegna innan þriggja mánaða frá því að iðgjald sjóðfélaga, sem tilheyrir árinu 2006, berst sjóðnum.
  6. Leitast er við að haga breytingunum þannig að þær hafi sem minnst áhrif á sjóðfélagana þegar horft er til réttindaávinnslunnar yfir starfsævina. Var því valin mild leið breytinga frá jafnri ávinnslu réttinda til aldurstengdrar ávinnslu.