Breytingar á samþykktum - aldurstengd ávinnsla

29. des. 2005

Á sjóðfélagafundi 28. desember sl. voru kynntar breytingar á samþykktum lífeyrissjóðsins sem fjalla um upptöku aldurstengdrar ávinnslu réttinda frá 1.1.2006.

Hvers vegna:

Að undanförnu hafa lífeyrissjóðirnir almennt verið að færa sig yfir í réttindaávinnslukerfi sem felur í sér að iðgjöld skapa mismunandi mikil lífeyrisréttindi eftir því hvenær starfsævinnar þau eru greidd. Það er í svokallað aldursháð réttindakerfi. Iðgjöld sem greidd eru framan af starfsævinni skapa meiri réttindi en iðgjöld sem greidd eru síðar.

Útilokað er við þær kringumstæður að halda úti réttindakerfi jafnrar ávinnslu sem Lífeyrissjóður verzlunarmanna hefur boðið sjóðfélögum sínum á liðnum áratugum.
Ástæða þess er sú að hætta skapast á að einstaklingar notfæri sér kosti aldurstengdrar réttindaávinnslu á fyrri hluta starfsævinnar og færi sig síðan yfir í jafna réttindaávinnslu á seinni hluta starfsævinnar. Það fyrirkomulag gengur augljóslega ekki upp.

Blönduð ávinnsla réttinda:

Mikilvægt er að tryggja hagsmuni núverandi sjóðfélaga við breytinguna yfir í aldurstengt kerfi. Að þeir sjóðfélagar sem uppfylla tiltekin skilyrði geti haldið áfram að mynda réttindi í jafnri ávinnslu. Útfærsla breytingarinnar er með þeim hætti að þeir sem þegar hafa áunnið sér réttindi framan af í jafnri ávinnslu geta haldið því áfram upp að tilteknu hámarki. Þetta er afar þýðingarmikið atriði breytinganna. Þeir sem eru ungir hafa aftur á móti hag af því að ávinna sér réttindi miðað við aldurstengda ávinnslu. Þannig er leitast við að haga breytingunum að þær hafi sem minnst áhrif á sjóðfélagana þegar horft er til réttindaávinnslunnar yfir alla starfsævina. Því er hér valin leið til breytinga frá jafnri ávinnslu réttinda til aldurstengdrar ávinnslu sem horfir til beggja þessara þátta.

Það er þýðingarmikið atriði breytinganna, til að milda áhrif þeirra á þá sjóðfélaga sem ef til vill færast á milli lífeyrissjóða, að gert er ráð fyrir að stjórn sjóðsins sé heimilt að gera samkomulag við aðra lífeyrissjóði, sem hingað til hafa miðað við jafna ávinnslu eins og Lífeyrissjóður verzlunarmanna, um gagnkvæma viðurkenningu á heimild sjóðfélaga til þess að halda áfram iðgjaldsgreiðslum til jafnrar ávinnslu.

Eftirtaldir lífeyrissjóðir hafa nú þegar eða hyggjast breyta samþykktum sínum með hliðstæðum hætti og Lífeyrissjóður verzlunarmanna: Lífeyrissjóður Austurlands, Lífeyrissjóður Vestfirðinga, Gildi lífeyrissjóður, Lífeyrissjóður Vestmanneyinga, Lífeyrissjóður Vesturlands, Söfnunarsjóður lífeyrisréttinda og Lífeyrissjóður Suðurlands. Fleiri sjóðir eru einnig að huga að breytingum til hliðstæðrar áttar.

Meðfylgjandi eru greinargerð um breytingar á samþykktunum ásamt samþykktum með merktum breytingum.

Greinargerð með breytingum (pdf skrá, 41,5 kb, 9 síður).

Samþykktir (pdf skrá, 106 kb, 24 síður).