Stjórn sjóðsins hefur markað LV eftirfarandi hluthafastefnu

19. jan. 2007

Lífeyrissjóður verzlunarmanna er langtímafjárfestir sem hefur ásamt góðri arðsemi af hlutabréfaeign sinni það að markmiði að stuðla að vexti og viðgangi þeirra fyrirtækja sem sjóðurinn fjárfestir í.

Lífeyrissjóður verzlunarmanna er langtímafjárfestir sem hefur ásamt góðri arðsemi af hlutabréfaeign sinni það að markmiði að stuðla að vexti og viðgangi þeirra fyrirtækja sem sjóðurinn fjárfestir í.

Leiðbeinandi reglur SÞ um ábyrgar fjárfestingar
Lífeyrissjóðurinn varð fyrstur íslenskra stofnanafjárfesta aðili að reglum Sameinuðu þjóðanna (SÞ) um ábyrgar fjárfestingar. Gefnar voru út í apríl 2006 sex leiðbeinandi reglur sem voru unnar af fulltrúum 20 stofnanafjárfesta frá 12 löndum og þar á meðal stærstu lífeyrissjóða vestan hafs og í Evrópu. Í reglunum er fjallað um hvernig áhersla á Umhverfisleg og Félagsleg málefni auk góðra Stjórnarhátta fyrirtækja (UFS) getur stuðlað að bættum fjárfestingarárangri verðbréfasafna um leið og hagsmunir fjárfesta og markmið þjóðfélagsins í víðara samhengi geta farið saman.

Með aðild að reglunum mun sjóðurinn á komandi misserum leitast við í samstarfi við aðra þátttakendur að;

  • taka tillit til UFS málefna við mat á fjárfestingarkostum,
  • vera virkur eigandi hlutabréfa,
  • óska eftir að fyrirtæki geri grein fyrir stefnu sinni í málefnum UFS,
  • stuðla að framgangi reglna SÞ hjá fjárvörsluaðilum,
  • eiga samstarf um málefnin við aðra stofnanafjárfesta sem aðild eiga að reglunum,
  • upplýsa ásamt öðrum þátttakendum um árangur okkar við að hrinda reglunum í framkvæmd.

Umhverfismál
Sjóðurinn mun í vaxandi mæli hafa til hliðsjónar við fjárfestingar hvernig fyrirtækin horfa til umhverfisþátta við rekstur sinn þ.e.;

  • að fyrirtækin fari að lögum og reglum um umhverfismál,
  • að þau leitist við að draga úr umhverfisáhrifum við rekstur,
  • og þau geri hluthöfum reglulega grein fyrir stefnu sinni á sviði umhverfismála.

Félagsleg ábyrgð - Mannréttindi
Eftir því sem við verður komið verður horft til þess hvort fyrirtækin virði mannréttindi og eigi ekki aðild að barnaþrælkun. Þau verði við rekstur sinn hvött til að taka tillit til alþjóðlegra sáttmála, t.d. alþjóðasáttmála SÞ sem samanstendur af tíu grundvallaratriðum sem taka á mannréttindum, vinnumarkaðssamskiptum, félagslegu umhverfi og spillingu.

Stjórnarhættir fyrirtækja
Sjóðurinn mun horfa til þess við fjárfestingar hvort fyrirtækin fylgi góðum stjórnarháttum við rekstur (t.d. reglum OECD um stjórnarhætti) og gefi upplýsingar þar um í ársskýrslum. Horft verður til þess hvort innlend fyrirtæki fylgi leiðbeiningum Viðskiptaráðs Íslands, Kauphallar Íslands og Samtaka atvinnulífsins um stjórnarhætti fyrirtækja en frá 1. janúar 2005 ber útgefendum hlutabréfa í Kauphöll Íslands að fylgja leiðbeiningunum eða upplýsa um frávik frá leiðbeiningum um stjórnarhætti fyrirtækja.

Hluthafafundir
Sjóðurinn gegnir eigendaskyldum sínum með virkum hætti og kemur ábendingum um rekstur og stefnu fyrirtækja auk bættra stjórnarhátta sem sjóðurinn er hluthafi í á framfæri á hluthafafundum og/eða með beinum samskiptum við stjórnendur viðkomandi fyrirtækja. Sjóðurinn tekur afstöðu til mála á hluthafafundum með atkvæðum sínum og á hlutabréfamarkaði með aðgerðum sínum. Hann tekur þátt í stjórnum fyrirtækja þegar aðstæður og stærð eignarhlutar sjóðsins kallar á slíkt.

Reglur stjórnsýslulaga
Reglur stjórnsýslulaga um sérstakt hæfi gilda, eftir því sem við getur átt, um meðferð mála og ákvarðanatökur í stjórn sjóðsins í einstökum málum. Reglur stjórnsýslulaga um sérstakt hæfi gilda með sama hætti um þá sem sjóðurinn styður til stjórnarstarfa í einstökum fyrirtækjum.

Af ofangreindu leiðir að stjórnarmenn eða forstjóri taka ekki þátt í umræðum eða ákvörðunum á stjórnarfundum sjóðsins um málefni fyrirtækja þar sem þeir hafa hagsmuna að gæta sem starfsmenn, eigendur eða stjórnarmenn.