10 umbótatillögur um verðbréfamarkaðinn

5. des. 2014

Virkjum verðbréfamarkaðinn er meginstefið í tillögum og greinargerð sem Kauphöllin hefur nýlega gefið út í formi skýrslu undir heitinu „Aukin virkni og gagnsemi íslensks verðbréfamarkaðar.“ Meðal tillagnanna er að taka upp skattafrádrátt einstaklinga til hlutabréfakaupa og að rýmka heimildir lífeyrissjóða til fjárfestinga á MTF (markaðstorg fjármálagjörninga, eins og First North).

Virkjum verðbréfamarkaðinn er meginstefið í tillögum og greinargerð sem Kauphöllin hefur nýlega gefið út í formi skýrslu undir heitinu „Aukin virkni og gagnsemi íslensks verðbréfamarkaðar.“ Meðal tillagnanna er að taka upp skattafrádrátt einstaklinga til hlutabréfakaupa og að rýmka heimildir lífeyrissjóða til fjárfestinga á MTF (markaðstorg fjármálagjörninga, eins og First North).

 Kauphöllin (Nasdaq Iceland) hefur gefið út skýrslu um hvernig megi auka virkni og gagnsemi íslensks verðbréfamarkaðar. Í skýrslunni eru lagðar fram tillögur til umbóta sem eru til þess fallnar annarsvegar að auðvelda fyrirtækjum leiðina á markað sem og veru þar, og hinsvegar að glæða áhuga fjárfesta á verðbréfamarkaði. Tillögurnar eru afrakstur samtals Kauphallarinnar við breiðan hóp markaðsaðila á síðastliðnum mánuðum og endurspegla hvar sé helst úrbóta þörf.

Alls eru tillögurnar tíu talsins og þeim fylgja tímasettar aðgerðir eða verkefni sem Kauphöllin hyggst framkvæma í samstarfi við hagsmunaaðila.

Í skýrslunni segir meðal annars: „Sennilega eru fá mál brýnni fyrir íslenskan þjóðarhag en afnám gjaldeyrishafta. Ljóst er að þau draga verulega úr möguleikum íslensks verðbréfamarkaðar til að styðja fyrirtæki til vaxtar. Hættan er sú að við óbreytt ástand munum við missa mörg þeirra fyrirtækja úr landi sem hafa mesta vaxtarmöguleika.“

Tíu tillögur eru lagðar fram og með þeim tímasettar áætlanir um aðgerðir. Tillögurnar eru meðal annars að rýmka undanþágu frá birtingu lýsinga, að auka gagnsæi varðandi túlkun Kauphallarinnar á eigin reglum og viðurlagabeitingum, að auka heimildir lífeyris- og verðbréfasjóða til verðbréfalána, að rýmka heimildir lífeyrissjóða til fjárfestinga á MTF og að taka upp skattafrádrátt fyrir einstaklinga til hlutabréfakaupa.

Í skýrslunni er nánar gerð grein fyrir hverri tillögu fyrir sig. Um rýmkun heimilda lífeyrissjóða til fjárfestinga á MTF segir m.a.: „Í ákvæðum laga um lífeyrissjóði er kveðið á um  fjárfestingarstefnu lífeyrissjóða og hvaða heimildir þeir hafa til að ávaxta fé sjóðsfélaga . Að baki  lagasetningunni hvíla ríkir verndarhagsmunir en ætlunin er að takmarka áhættumiklar fjárfestingar lífeyrissjóða og vernda fjárhagslega hagsmuni  sjóðsfélaga . Á sama tíma er lífeyrissjóðunum ætlað að ná sem bestri ávöxtun á fé sjóðsfélaga sinna . Það er því ástæða til að gæta þess að takmarkanir á fjárfestingarheimildum lífeyrissjóða séu ekki of hamlandi og að þær séu í eðlilegu jafnvægi við þá verndarhagsmuni sem hvíla að baki lagasetningunni. Fundargestir Kauphallarinnar beindu sjónum að heimildum lífeyrissjóða til fjárfestinga.“

Um skattafrádrátt til einstaklinga segir m.a.: „Að mati Kauphallarinnar eru tillögur starfshóps sem fjármála- og efnahagsráðherra skipaði um skattaívilnanir vegna kaupa á hlutabréfum í litlum fyrirtækjum í vexti skref í rétta átt. Þó er rétt að geta sérstaklega þess sem ekki kom nógu skýrt fram í tillögum starfshópsins að í leiðbeinandi reglum  Eftirlitsstofnunar ETFTA um skattaívilnanir til einstaklinga vegna kaupa á hlutabréfum í litlum fyrirtækjum í vexti er lögð áhersla á mikilvægi markaðstorga fjármálagerninga (MTF), eins og First North, í þessum efnum. Skattaívilnanir ættu því að lágmarki að ná til fjárfestinga í félögum sem skráð eru á MTF og uppfylla skilyrði að öðru leyti.“

Í kynningu á skýrslunni á vef Kauphallarinnar segir frá því að sambærilegar skýrslur um umbætur á umgjörð verðbréfamarkaða hafi verið unnar á hinum Norðurlöndunum. Haft er eftir Páli Harðarsyni forstjóra Kauphallarinnar að miklar vonir séu bundnar við grósku í nýsköpun og vöxt smærri smærri fyrirtækja sem megin drifkraft hagvaxtar á komandi árum, en takmarkaður aðgangur margra smærri fyrirtækja að fjármagni flæki málið. „Víða í Evrópu er uppi svipuð staða.  Við skýrslugerðina höfðum við það í huga að draga fram álit breiðs hóps markaðsaðila á því hvernig mætti bæta bæði fjármögnunarumhverfi smærri fyrirtækja sem og bæta önnur þau atriði sem yrðu íslenskum verðbréfamarkaði, fyrirtækjum og fjárfestum til hagsbóta. Nú er bara að bretta upp ermar og láta verkin tala.”