Miklir hagsmunir sjóðfélaga í afnámi gjaldeyrishafta

1. des. 2014

Verði íslensku lífeyrissjóðirnir áfram lokaðir inni í gjaldeyrishöftum og geti ekki aukið við fjárfestingar sínar erlendis, er það ávísun á hagfræðilegt stórslys, sem hafa mun neikvæð áhrif á hag allra landsmanna í framtíðinni. Með hóflegri einföldun er þetta samandregin meginniðurstaða Dr. Ásgeirs Jónssonar dósents við hagfræðideild Háskóla Íslands og Dr. Hersis Sigurgeirssonar dósents við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands í bókinni "Áhættudreifing eða einangrun? – Um tengsl lífeyrissparnaðar, greiðslujafnaðar og erlendra fjárfestinga" sem nýlega kom út á vegum Landssamtaka lífeyrissjóða. Hér fer á eftir samantekt þeirra um helstu niðurstöður, en bókin í heild er aðgengileg á rafrænu formi á vef Landssamtakanna.

Verði íslensku lífeyrissjóðirnir áfram lokaðir inni í gjaldeyrishöftum og geti ekki aukið við fjárfestingar sínar erlendis, er það ávísun á hagfræðilegt stórslys, sem hafa mun neikvæð áhrif á hag allra landsmanna í framtíðinni. Með hóflegri einföldun er þetta samandregin meginniðurstaða Dr. Ásgeirs Jónssonar dósents við hagfræðideild Háskóla Íslands og Dr. Hersis Sigurgeirssonar dósents við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands í bókinni "Áhættudreifing eða einangrun? – Um tengsl lífeyrissparnaðar, greiðslujafnaðar og erlendra fjárfestinga" sem nýlega kom út á vegum Landssamtaka lífeyrissjóða. Hér fer á eftir samantekt þeirra um helstu niðurstöður, en bókin í heild er aðgengileg á rafrænu formi á vef Landssamtakanna.

Helstu niðurstöður og tillögur

Allt frá því að Ísland varð að sjálfstæðu myntsvæði eftir fullveldi árið 1918 hefur landið glímt við ójafnvægi í greiðslujöfnuði og á gjaldeyrismarkaði. Sá órói hefur smitast inn í efnahagslífið með óstöðugleika og verið orsök bæði hafta og sífelldra gengisfellinga. Árið 1931 brugðust Íslendingar við bankahruni og fjármagnsflótta með fjármagns-höftum er stóðu í 62 ár. Og nú eru rúmlega 6 ár liðin frá því að fjármagnshöft voru aftur tekin upp til þess að bregðast við nákvæmlega sömu vandamálum og fyrri haftasetningu var ætlað. Margt bendir líka til þess að höftin verði viðvarandi hérlendis í einu eða öðru formi á næstu árum.

Nú stefnir hraðbyri að því að íslenskar lífeyriseignir verði 180-200% af landsframleiðslu og augljóst að fjárfestingarstefna lífeyrissjóðanna hefur mikil áhrif á hagkerfi landsins. Jafnvel þótt frjáls fjármagnsviðskipti verði aftur leyfð til og frá íslenska myntsvæðinu munu fjárfestingar sjóðanna ávallt að þurfa að miðast við þjóðhagslegar aðstæður.

Á hinn bóginn er það óumdeilt að erlendar fjárfestingar og alþjóðleg eignadreifing eru lykilskilyrðin fyrir því að sjóðasöfnunarkerfi geti skilað hlutverki sínu með fullnægjandi hætti og tryggt að öldrun þjóðarinnar valdi ekki verulegum ruðningsáhrifum í efnahagslífinu. Það er því engum blöðum um það að fletta að líta verður á lífeyrissparnað í samhengi við annan sparnað í landinu, stöðugleika á greiðslujöfnuði og í hagkerfi landsins.

Í ljósi þessarar stöðu, sem er megin umfjöllunarefni þessarar bókar, er það niðurstaða höfunda að setja fram þrjár tillögur er snúa að erlendum fjárfestingum lífeyrissjóðanna á næstu árum.

  1. Tryggt verði að hlutfall erlendra eigna lífeyrissjóðanna af heildareignum – nú um 22% – lækki ekki frekar. Það verði gert með því að fjórðungi af hreinu innflæði til sjóðanna verði ávallt ráðstafað til erlendra fjárfestinga. Hreint innflæði til sjóðanna er nú um 40 milljarðar á ári. Það felur í sér að íslensku lífeyrissjóðirnir fái um 10 milljarða heimild, eða undanþágu frá fjármagnshöftunum, til erlendra fjárfestinga á hverju ári. Þetta verði lágmarksheimild óháð stöðu greiðslujafnaðar og er ætlað að minnka áhættu framtíðarlífeyrisþega og varna neikvæðum áhrifum vegna öldrunar þjóðarinnar á næstu árum.
  2. Unnið verði að því að auka hlutfall erlendra eigna lífeyrissjóðanna eftir því sem svigrúm gefst til í greiðslujöfnuði á næstu árum með það að markmiði að sem stærstur hluti af hreinu innflæði til sjóðanna verði fjárfestur erlendis. Þannig verði komið í veg fyrir að fyrirsjáanleg uppsöfnun lífeyrissparnaðar valdi ruðningsáhrifum á annan sparnað í landinu og skapi hættu á eignabólu. Í því skyni er hér lagt til að þeim viðskiptaafgangi sem er umfram 5% af landsframleiðslu verði ráðstafað til þess að hækka hlutfall erlendra eigna lífeyrissjóðanna.
  3. Litið verði á erlenda fjárfestingu lífeyrissparnaðar sem þjóðhagsvarúðartæki til þess að hlutleysa áhrif mikils fjármagnsinnflæðis á greiðslujöfnuðinn. Þannig verði komið í veg fyrir að innflutningur erlends sparnaðar valdi þenslu á innanlandsmarkaði og rýri samkeppnisstöðu atvinnuvega eins og svo oft hefur verið raunin. Slík hlutleysing er einnig megin forsendan fyrir því að landið haldi jákvæðum viðskiptajöfnuði til framtíðar. Hér er því lagt til að Íslendingar fari kínversku leiðina varðandi greiðslujöfnuð í þeim skilningi að þeir sækist eftir erlendri fjárfestingu en landið verði samt sem áður hreinn fjármagnsútflytjandi og með varanlegan viðskiptaafgang.

Með kínversku leiðinni eru fjórar flugur slegnar í einu höggi: Sú fyrsta er að Íslendingar njóti minni áhættu við ávöxtun lífeyrissparnaðar og komið er í veg fyrir kynslóðamisvægi við útgreiðslu lífeyris. Önnur er sú að þjóðhagsvarúð verði efld þannig að erlent fjármagnsinnstreymi valdi ekki fjármála- og eignabólu hérlendis. Þriðja er að áherslan verði á útflutningsdrifinn hagvöxt og samkeppnishæfni og komið í veg fyrir að erlent fjármagnsinnflæði ofhiti hagkerfið. Og loks sú fjórða að Íslendingar geti notið þess þekkingarflutnings sem fylgir erlendri fjárfestingu án þess að innlendur sparnaður verði fyrir ruðningsáhrifum.

Í þessu sambandi er vert að minnast þess að erlendar fjárfestingar lífeyrissjóðanna á árunum 1998–2008 voru það afl sem helst vann gegn vaxandi ójafnvægi í bæði fjármálakerfi og efnahagsmálum sem gríðarlega mikið fjármagnsinnstreymi skapaði á þessum tíma. Þær erlendu eignir sem var safnað upp á þessum tíma eru nú ein helsta stoðin undir íslenska lífeyriskerfinu.

Ofangreindar þrjár tillögur snúa að tilhögun lífeyrissparnaðar hérlendis. Þeim er fyrst og fremst ætlað að tryggja öryggi framtíðarlífeyrisþega, sjálfbæran hagvöxt og stöðugleika, óháð því hvort, hvenær og undir hvaða forsendum höft verða afnumin hérlendis.

Ef aftur á móti er litið til íslenskra efnahagsmála almennt vilja höfundar árétta skaðsemi fjármagnshafta fyrir atvinnulíf og lífskjör almennings til framtíðar. Það er þeirra skoðun að opin fjármagnsviðskipti séu lykilþáttur í því að Íslendingar taki sömu efnahagslegum framförum og aðrar vestrænar þjóðir og nái sama árangri í framleiðni og nýsköpun. Stöðugleiki byggður á höftum er einfaldlega of dýru verði keyptur. Og raunar, ef litið er til sögunnar, verður ekki séð að fjármagnshöft hafi dugað til þess að tryggja efnahagslegan stöðugleika; höftin hafi þvert á móti aukið á ójafnvægið í hagkerfinu og valdið mjög alvarlegri missetningu fjármagns á hinum fyrri haftatíma. Í ljósi þessa er það eindregin tillaga höfunda að afnám hafta verði hafið þegar í stað.