Eiga lífeyrissjóðirnir of mikið af atvinnulífinu á Íslandi?

11. nóv. 2014

Þannig spurði Helgi Magnússon í framsöguerindi sínu á hádegisverðarfundi Félags viðskipa- og hagfræðinga í dag, 11. nóvember. Erindi Helga fer hér á eftir.

Góðir fundarmenn.

Ég byrja á að rifja upp það sem allir hér inni vita en brýnt er að halda til haga og rifja upp öðru hvoru því minni fólks er oft æði stutt.

Þegar kemur að umræðu um íslensku lífeyrissjóðina þá virðist það stundum gleymast að þeir stóðu nánast einir eftir af öllum fjármálafyrirtækjum landsins þegar Íslendingar gengu í gengum hrunið fyrir 6 árum.

Stóru bankarnir 3 urðu gjaldþrota, sparisjóðakerfið hrundi nánast allt saman til grunna. Minni fjármálafyrirtæki urðu ýmist gjaldþrota eða fóru mjög illa. Vátryggingafélögin fóru á hliðina. Já, og sjálfur Seðlabanki Ísland tapaði öllu eigin fé sínu, 300 milljörðum króna, og varð í þeim skilningi gjaldþrota, þó ekki sé unnt að orða það þannig vegna tengsla seðlabanka við ríkissjóð sem ber ábyrgð á honum og kemur honum til hjálpar. En Seðlabankinn varð gjaldþrota upp á 300 milljarða – þó dæmi séu  um það að áhrifamenn í samfélaginu vilji ekki kannast við þá dapurlegu staðreynd!

Lífeyrissjóðirnir fengu högg, urðu fyrir tjóni í hruninu sem nam rúmum 20% af heildareignum þeirra. Hér hrundi allt bankakerfið en lífeyrissjóðirnir töpuðu fimmtungi eigna sinna. Víðast hvar á Vesturlöndum varð fjármálakreppa, þó bankakerfin hryndu ekki eins og hér en engu að síður var algengt að lífeyrissjóðir og aðrir söfnunarsjóðir í þeim löndum töpuðu svipaðri prósentu og lífeyrissjóðirnir á Íslandi. Við fórum ekki verr út úr þessu stóra hruni hér en gerðist í löndum sem urðu fyrir miklu minni áföllum en Íslendingar.  Þannig má geta þess að stærsti lífeyrissjóður Vesturlanda, Calpers í Kaliforníu, rýrnaði um 27% árið 2008 og norski olíusjóðurinn um 23%.

Þessi staðreynd er varnarsigur út af fyrir sig, þó ég vilji ekki gera lítið úr fimmtungstjóni íslensku lífeyrissjóðanna.

Á árunum eftir hrunið 2008 voru ekki miklir fjármunir tiltækir til fjárfestinga hjá öðrum en lífeyrissjóðunum. Einkafjárfestar hurfu að stórum hluta við áföllin og athyglin beindist því mikið að lífeyrissjóðunum sem voru beðnir að koma að flestum fjárfestingum sem eitthvað kvað að.

Það þarf því ekki að koma á óvart að þeir hafi orðið fyrirferðarmiklir í þeim fyrirtækjum sem þeim gáfust tækifæri til að fjárfesta í.

Vert er að hafa í huga að íslenskir lífeyrissjóðir áttu mikið í fyrirtækjum á markaði áður en áföllin dundu yfir. En það beindist lítil athygli að því enda voru aðrir sem virtust skipta öllu máli. Svonefndir útrásarvíkingar áttu sviðið og allt snérist um þá. Flest sem þeir tóku sér fyrir hendur þótti spennandi og flott og athygli fjölmiðla og almennings beindist að þeim og þeirra verkum. Lífeyrissjóðir voru þarna á ferðinni en hafa vafalaust þótt púkalegir og óspennandi fjárfestar saman borið við hina sem hæst flugu.

En þegar flestir voru horfnir af sviðinu nema lífeyrissjóðirnir, þá beindist athyglin að þeim á ný. Þeir voru kallaðir til þátttöku í fjárfestingum. Margir vildu peningana þeirra og enn fleiri vildu bara peninga sjóðanna en engin afskipti þeirra af fjárfestingum sínum. En það er önnur saga.

Íslenskir lífeyrissjóðir eru öflugir og líta vel út í alþjóðlegum samanburði. Eignir þeirra nema nú meira en 2.800 milljörðum króna sem telst vera 141% af þjóðarframleiðslu Íslands. Einungis Hollendingar geta státað af hærra hlutfalli sem var um síðustu áramót 155%. Lengi var horft til þess að lífeyrissjóðakerfin í Hollandi og Sviss væru þau öflugustu í heimi og mældust með hæsta hlutfall af þjóðarframleiðslu. Nú eru Íslendingar rétt á eftir Hollendingum en Sviss er með 114% hlutfall og höfum við því farið fram úr þeim. Talsvert er svo í þá þjóð sem situr í 4. sæti í þessum samanburði en það eru Finnar með 80%.

Af 2.800 milljarða eignum íslensku lífeyrissjóðanna eru einungis 600 milljarðar erlendar eignir, eða 21% af heildareignum, en 2.200 milljarðar hér heima. Sjóðunum hefur ekki verið heimilað að fara með neinar fjárfestingar til útlanda frá því gjaldeyrishöftin voru sett á.  Það þarf því engan að undra þó lífeyrissjóðirnir vaki yfir þeim fjárfestingarkostum sem gefast á Íslandi ef þeir á annað borð eru taldir arðsamir og innan þeirra marka sem lífeyrissjóðirnir setja sér varðandi áhættu og öryggi. Ekki má gleyma því að höfuðskylda lífeyrissjóða er að varðveita og ávaxta lífeyrissparnað sjóðsfélaganna á sem hagfelldastan hátt þannig að lífeyrir þeirra verði sem mestur þegar þar að kemur.

Lífeyrissjóðirnir stofnuðu Framtakssjóð Íslands nokkru eftir hrun. Ýmsir urðu til að gagnrýna þá ráðstöfun en ég er sannfærður um að sjóðurinn gerði íslensku atvinnulífi mikið gagn og hjálpaði mikið til við að koma nokkrum fyrirtækjum á réttan kjöl eftir áföllin og að flýta endurreisn Kauphallarinnar. Nægir í því sambandi að nefna Icelandair Group sem dæmi. Félagið gekk vel en allir helstu hluthafar félagsins höfðu misst hluti sína í hendur banka sem voru í miklum vandræðum með að halda á stórum eignarhlutum. Framtakssjóðurinn gegndi lykilhlutverki við að leiða málið til farsælla lykta. Auk þess hefur Framtakssjóðurinn skilað ríkulegum arði frá stofnun.

En eiga lífeyrissjóðirnir of mikið í íslensku atvinnulífi núna? 

Víst eru þeir fyrirferðarmiklir á Kauphöll Íslands. Þeir eiga stóran hlut í flestum þeirra 15 íslensku félaga sem skráð eru á Kauphöllinni.

Í nýlegu yfirliti kemur fram að íslenskir lífeyrissjóðir eiga beint á bilinu 24% til 54% í þessum félögum.  Um 24% til 28% í Granda, Marel, Össuri og Nýherja, 42 % til 45% í Icelandair, Högum, Fjarskiptum, Reginn og TM, 54% í N-1, 38% í VÍS, 35% í Sjóvá og 36% í Eimskip. Þessi hlutföll eru á stöðugri hreyfingu og gætu hafa hnikast eitthvað. Eins væri væntanlega unnt að bæta við þetta óbeinni eignaraðild gegnum sjóði og vátryggingarfélög sem lífeyrissjóðirnir eiga í. En það er fremur langt sótt.

En myndin er í meginatriðum svona varðandi félög á Kauphöll Íslands. Þessu til viðbótar eiga lífeyrissjóðirnir drjúga hluti í nokkrum stórum félögum ýmist beint eða í gegnum sjóði. Þá er ég að tala um Skipti, Fasteignafélögin Eik og Reiti, Skeljung, Kaupás, HS Orku og félög sem eru í eigu Framtakssjóðs Íslands, þ.e. Advania, Promens, Invent Farma og Icelandic.

En nú skulum við átta okkur á því hvar íslenskir lífeyrissjóðir eiga EKKERT eða lítið í íslenskum atvinnugreinum og stórum íslenskum fyrirtækjum:

 1. Þeir eiga ekkert annað í höfuðatvinnugrein þjóðarinnar, sjávarútvegi, en 26% í Granda og 5% í Vinnslustöðinni. Annað ekki!
 2. Þeir eiga ekkert í íslenskri ferðaþjónustu fyrir utan 44% eignarhlut í Icelandair Group. Þessi atvinnugrein vex mest allra og skilar nú orðið mestum gjaldeyristekjum inn í þjóðarbúið. Lífeyrissjóðirnir eiga ekkert í WOW air eða öðrum flugfélögum, hótelum, bílaleigum, rútufyrirtækjum, veitingastöðum, ferðaskrifstofum eða öðru í ferðaþjónustunni nema í gegnum Icelandair.
 3. Þeir eiga ekkert í stóru bönkunum.
 4. Þeir eiga ekkert í greiðslukortafyrirtækjunum. 
 5. Þeir eiga ekkert í stóriðjufyrirtækjunum.
 6. Þeir eiga ekkert í orkufyrirtækjunum, ef undanskilinn er þriðjungur í HS Orku gegnum Jarðvarma.
 7. Þeir eiga ekkert í íslenskum matvælaiðnaði, mjólkuriðnaði, kjötvinnslu, sælgætisframleiðslu eða drykkjarvöruiðnaði.
 8. Þeir eiga ekkert í íslenskum byggingariðnaði.
 9. Þeir eiga ekkert íslenskum verksmiðjuiðnaði, nema e.t.v. lítilsháttar í Hampiðjunni.
 10. Þeir eiga ekkert í íslenskum fjölmiðlum.
 11. Lífeyrissjóðirnir eiga í Högum, Kaupási, N-1 og Skeljungi en ekkert í öllum öðrum verslunum eða verslunarfélögum á Íslandi.
 12. Og loks nefni ég að íslenskir lífeyrissjóðir eiga ekkert í innviðum eins og samgöngumannvirkjum, vegum, höfnum, flugvöllum og heldur ekkert í heilbrigðis-eða menntakerfinu. Fjárfestingar í innviðum eru algengar meðal lífeyrissjóða erlendis en hafa ekki komið til hér á landi.

Góðir fundarmenn.

Þegar á allt er litið er ljóst að lífeyrissjóðirnir eiga ekki mikið í íslensku atvinnulífi þegar horft er á heildina.

Ég skoðaði Frjálsa verslun sem var að koma út en þar er birt yfirlit yfir 300 stærstu fyrirtæki landsins.

Af 50 stærstu fyrirtækjunum skv. lista blaðsins, eiga íslenskir lífeyrissjóðir eignarhluti í 20 fyrirtækjum með beinum eða óbeinum hætti. En hins vegar eiga þeir ekkert í 30 þessara fyrirtækja. Þar á meðal get ég nefnt stórfyrirtæki eins og Landsbanka, Íslandsbanka, Arionbanka, Alcoa Fjarðarál, Samherja, Samskip, Primera, Byko, Norðurál, Rio Tinto Alcan, Landsvirkjun, Actavis, Olís, Kaupfélag Skagfirðinga, Samkaup, Ístak, Ísfélag Vestmannaeyja, Ölgerðina, Vífilfell, WOW Air, Húsasmiðjuna, Síldarvinnsluna, Ísavía og Mjólkursamsöluna – svo einhver af stærri fyrirtækjunum séu nefnd.

Það dugar ekki að horfa einungis til þeirra fáu fyrirtækja sem skráð eru á markaði og draga þær ályktanir af eignarhaldi á þeim að lífeyrissjóðirnir eigi allt atvinnulífið á Íslandi.

Því fer fjarri eins og ljóst má vera af framansögðu.

Í kynningu vegna fundarins sem við erum stödd á segir:

“Íslenskir lífeyrissjóðir eru fyrirferðarmiklir á íslenskum fjármálamarkaði sem helstu eigendur skráðra verðbréfa bæði beint og óbeint OG HEFUR VERIÐ GAGNRÝNT HVERSU UMSVIFAMIKLIR ÞEIR ERU.”

Svo er spurt hvort áhrif þeirra séu of mikil á litlum markaði og HVAÐ SÉ TIL RÁÐA.

Ég spyr nú bara: Hver er vandinn? Í hverju felst gagnrýnin? Hverjir gagnrýna?  

Lífeyrissjóðirnir eru hlutfallslega fyrirferðarmiklir vegna þess að aðrir eru ekki eins öflugir á þessum markaði og æskilegt væri. Lífeyrissjóðirnir eru ekki fyrir neinum. Þeir eru ekki að taka rými frá neinum. Þeir hafa t.d. ekki verið í keppni  við einkafjárfesta um kaup á hlutabréfum í mikilvægum fyrirtækjum. Það komast allir að sem vilja, alla vega standa lífeyrissjóðirnir ekki í vegi annarra fjárfesta.

Vandinn er sá að okkur vantar einkafjárfesta inn á markaðinn. Ég tel að það væri mjög farsælt ef mun meira færi fyrir einkafjárfestum í þessum 15 fyrirtækjum sem skráð eru á Kauphöll Íslands. Reynslan sýnir að það getur verið mjög farsælt að öflugir einkafjárfestar komi að fyrirtækjum og styðji þau fram á veginn í góðu samstarfi við fagfjárfesta, lífeyrissjóði, aðra söfnunarsjóði og vátryggingarfélög.

Ég vildi sjá mun meiri fjárfestingar einkaaðila í þessum fyrirtækjum. Það yrði öllum til góðs. En þeir eru því miður ekki fyrirferðarmiklir sem stendur – og ekki er við lífeyrissjóðina að sakast í þeim efnum. Þeir eru ekki fyrir neinum.

Spurt er “Hvað er til ráða?” Ég vil snúa spurningunni þannig að spurt sé: Hvernig er unnt að fjölga fyrirtækjum sem fara á markað þannig að almenningur, einkafjárfestar og sjóðir hafi um fleiri kosti að velja. Það er afar mikilvægt að fjölga kostum ekki síst í ljósi þess að landsmenn búa við gjaldeyrishöft sem þrengja fjárfestingarkostina niður í það sem kann að standa til boða á Íslandi. Við eigum ekki kost á að fjárfesta í öðrum hagkerfum heimsins en hinu íslenska – sem hefur reynst svona og svona. Stundum vel og stundum illa og almennt ekki á vísan að róa.

Góðir fundarmenn.

Þið sjáið á upptalningu minni hér á undan að heilar atvinnugreinar hafa ekki opnað á fjárfestingar almennings eða fagfjárfesta. Æskilegt er að breyting verði þar á. Einnig er mikilvægt að vænlegum fyrirtækjum fjölgi á Kauphöll Íslands. Vonir standa til þess. Ljóst er að nokkur fyrirtæki stefna þangað á næstu misserum. En mörgum þykir að þessi framvinda gangi allt of hægt fyrir sig.

Þá tel ég að mjög æskilegt væri að samstaða næðist um það að opinberir aðilar væru tilbúnir til þess að setja einhver opinber fyrirtæki á markað. Það getur ekki gerst með öðrum hætti en þeim að stjórnvöld hefðu sannfæringu fyrir því að með þeim hætti væri verið að ráðstafa opinberum eignum á skynsamlegan hátt þannig að viðunandi og sanngjarnt verð fengist fyrir eignirnar og að gæslumenn opinberra hagsmuna teldu að mikilvægara væri að greiða niður skuldir ríkis eða sveitarfélaga, eða verja hluta andvirðis til mikilvægra þátta í starfssemi hins opinbera sem nægir fjármunir fást annars ekki til, heldur en að halda eignum í opinberri sem þyrftu ekki nauðsynlega að vera það.

Hér er um afar viðkvæmt pólitískt viðfangsefni að ræða og öllum má vera ljóst að skoðanir eru mjög skiptar um stefnu í þessum málum.

Ég ætla að vitna hér í nýlega blaðagrein eftir Egil Ólafsson, blaðamann, þar sem fjallað er af yfirvegun um kosti og galla þeirrar hugmyndar að ríkið seldi Landsvirkjun:

Fyrst rekur hann vandræðaganginn vegna Landsspítalans og þá stöðu sem blasir við í heilbrigðisþjónustunni, m.a. vegna skorts á fjármunum. Svo segir hann: “ Verðum við að sætta okkur við að spítali verði ekki byggður á næstu 10-20 árum? Að mínu mati á ríkið að fjármagna nýjan spítala með því að selja lífeyrissjóðunum Landsvirkjun. Að sumra áliti eru það helgispjöll að nefna sölu á Landsvirkjun, því þar með sé ríkið að selja ”auðlindina” og hugsanlegar framtíðartekjur af henni. Ríkið hefur hins vegar ekki fengið mikinn arð af þessu fyrirtæki á liðnum árum þó ýmislegt bendi til að það kunni að breytast í framtíðinni ef vel er haldið á málum. Það væri vissulega ágætt ef ríkið ætti Landsvirkjun áfram, en þegar engir peningar eru til þarf stundum að gera fleira en gott þykir. Flestir ættu að geta verið sammála um að það sé skynsamlegra fyrir ríkið að binda peninga í sjúkrahúsi en virkjunum og stíflumannvirkjum. Landsvirkjun er í góðum höndum hjá lífeyrissjóðunum.”

Hér lýkur tilvitnun í Egil blaðamann.

Greinarhöfundur velur að tengja saman sölu á þessari verðmætu ríkiseign og ráðstöfun andvirðisins í nýjan Landsspítala.

Til þess að ná því markmiði þarf ekki að selja allt fyrirtækið. Ég hef áður lýst þeirri skoðun minni að það gæti verið heppilegt fyrir ríkið að selja MINNIHLUTA hlutafjár í Landsvirkjun til lífeyrissjóða og annarra fagfjárfesta. Fyrirtækið er svo mikils virði að fyrir 49% eignarhlut fengjust væntanlega fjármunir sem munaði um til skuldalækkunar hjá ríkissjóði eða til ráðstöfunar í mikilvæg verkefni. Ef ríkið ætti áfram meirihlutann, þá myndi það ráða fyrirtækinu og þar með stefnu í fjárfestingum, verðlagningarstefnu og umhverfisstefnu þannig að ekkert þyrfti að breytast til verri vegar. Ríkið losaði einungis um fjármuni til annarra þarfa eins og blaðamaðurinn lagði til. Ríkissjóður og aðrir hluthafar gætu gert með sér hluthafasamkomulag til að tryggja langtímahagsmuni fyrirtækisins og allra hluthafanna.

Rétt er að minna á það að lífeyrissjóðirnir eru í eigu fólksins í landinu – sama fólksins og á Ríkissjóð Íslands!

Ef einhver leið ætti að vera til að ná bærilegri pólitískri samstöðu um þetta mál, þá er það helst með þeim hætti að ríkið ætti meirihlutann og réði áfram för. Gæti þannig bæði átt kökuna og étið hana.

Ég tel að Landsbankinn gæti hentað mjög vel fyrir markaðinn. Verði hann skráður á Kauphöll Íslands, þá verður það risaskref til eflingar markaðarins þar sem almenningur, lífeyrissjóðir og aðrir fjárfestar fengju verðugt fjárfestingartækifæri til að glíma við. Stundum er nefnt að æskilegt væri að ríkið ætti áfram góðan hlut í bankanum, t.d. 20% í þessum stærsta banka landsins , til að tryggja ákveðna festu og jafnvægi gagnvart markaðsaðilum. Þetta hafa Norðmenn gert með góðum árangri en þar er norska ríkið langstærsti hluthafinn í DNB bankanum í ágætri sátt við hlutabréfamarkaðinn. Mér finnst að við gætum alveg tekið Norðmenn okkur til fyrirmyndar hvað varðar framtíðareignarhald á Landsbankanum.

Ég læt nægja að minnast hér á þessi tvö fyrirtæki í opinberri eigu sem ríkissjóður gæti selt. Margt annað kæmi einnig vel til greina. Sama gildir um öll þau vænlegu fyrirtæki í ýmsum greinum atvinnulífsins sem gætu átt fullt erindi á markað þannig að fjárfestingartækifæri almennings, lífeyrissjóða og annarra fagfjárfesta ykjust til muna. Á því er full þörf.

Að lokum vil ég nefna að nú eru starfandi 26 lífeyrissjóðir á Íslandi, skv. upplýsingum frá Landssamtökum lífeyrissjóða, en voru yfir 90 þegar mest var fyrir síðustu aldamót. Þeir eru afar mismunandi að stærð og formi. Mikilvægt er að fólk átti sig á þessu því mér virðist að allt of oft sé talað um lífeyrissjóðina eins og eina heild. Það eru þeir alls ekki. Hver og einn lífeyrissjóður er sjálfstæður, lýtur sjálfstæðri stjórn og stjórnun. Sumir sjóðanna eru mjög litlir og aðrir risastórir á íslenskan mælikvarða. Þannig eru eignir stærsta sjóðsins, LSR, á sjötta hundrað milljarðar, Lífeyrissjóður verslunarmanna er 500 milljarða sjóður og Gildi er trúlega nálægt 430 milljörðum eftir sameiningu við annan sjóð nú í lok þessa árs. Þessir þrír stærstu sjóðir eru því með helming allra eigna í íslenska lífeyrissjóðakerfinu.

Þegar kemur að fjárfestingum lífeyrissjóðanna í hlutafélögum er mikilvægt að gera sér grein fyrir því að hver og einn sjóður er minnihlutafjárfestir. Lögum samkvæmt er lífeyrissjóði ekki heimilt að eiga meira en 15% hlutafjár í hverju félagi. Það er því ekki um það að ræða að lífeyrissjóður taki stjórnina í þeim félögum sem hann fjárfestir í, þó hann geti vissulega haft áhrif sem ábyrgur og faglegur langtímafjárfestir. Hver og einn lífeyrissjóður tekur sjálfstæðar ákvarðanir um fjárfestingar sínar á grundvelli ákvarðana stjórnar og stjórnenda hvers sjóðs en ekki í samráði við aðra lífeyrissjóði. Milli lífeyrissjóðanna ríkir samkeppni um fjárfestingar sem veitir þeim heilbrigt aðhald.

Stjórnir lífeyrissjóðanna eru valdar með mjög mismunandi hætti. Launþegafélög innan ASÍ og atvinnurekendafélög inna SA velja í stjórnir 9 af sjóðunum. Ríki og sveitarfélög velja í stjórnir opinberu sjóðanna á móti launþegafélögum opinberra starfsmanna. Séreignarsjóðirnir velja stjórnir á aðalfundum og það er einnig gert hjá sumum öðrum sjóðum eins og hjá verkfræðingum og flugmönnum.

Þannig er um mismunandi fyrirkomulag að ræða við val á stjórnarmönnum íslensku lífeyrissjóðanna sem er sambærilegt við það sem tíðkast í nágrannalöndunum, skv. skýrslu sem Hagfræðistofnun HÍ tók saman fyrir nokkrum árum.

Yfir 150 stjórnarmenn eru í þessum 26 sjóðum og óhætt er að segja að þeir komi úr ólíkum áttum og að þeir veljist til starfa á vettvangi sjóðanna með mismunandi áherslur og stefnu. En eitt eiga stjórnarmenn alla vega sammerkt.  Það að þeir þurfa allir að standast hæfiskröfur og hæfispróf FME til að mega genga stjórnarstörfum.

Miklar kröfur eru einnig gerðar til lífeyrissjóðanna sjálfra. Þeir eru undir mjög ströngu eftirliti FME, Fjármálaráðuneytisins og Samkeppniseftirlitsins. Það gleymist oft þegar ómálefnaleg og ómakleg gagnrýni heyrist á lífeyrissjóði landsmanna. Þeir búa við mjög agað regluverk og mikið eftirlit.

Íslenskir lífeyrissjóðir eru kjölfesta í samfélagi okkar, þeir hafa gegnt mikilvægu hlutverki varðandi fjárfestingar og fjármögnun í þjóðfélaginu og þeir geta gegnt enn stærra hlutverki í framtíðinni og þá í góðu samstarfi við íslenskt atvinnulíf og stjórnvöld.

Tækifærin eru víða. Við þurfum að hafa vilja og kjark til að nýta þau.

Takk fyrir.