Um starfskjör stjórnenda í fyrirtækjum

15. sep. 2014

Mikil umræða hefur verið undanfarið um launamun á milli forstjóra og almennra starfsmanna fyrirtækja sem skráð eru í Kauphöllinni. Meðal annars hefur Alþýðusamband Íslands birt niðurstöður athugunar sinnar á þessum launamun. Af þessu tilefni vill Lífeyrissjóður verzlunarmanna koma eftirfarandi á framfæri.

Mikil umræða hefur verið undanfarið um launamun á milli forstjóra og almennra starfsmanna fyrirtækja sem skráð eru í Kauphöllinni. Meðal annars hefur Alþýðusamband Íslands birt niðurstöður athugunar sinnar á þessum launamun. Í ítarlegri gerð fréttar ASÍ af þessari athugun segir meðal annars:

„Launafólk varðar málið út frá tveimur hliðum. Annars vegar er eðlilegt að horfa til þess að tekjudreifing innan þeirra fyrirtækja sem við stöfum hjá sé sanngjörn og réttlát og allir starfsmenn njóti afraksturs vinnu sinnar og árangurs þegar vel gengur. Hins vegar er launafólk eigendur að stórum hlutum í mörgum helstu atvinnufyrirtækjum landsins í gegnum lífeyrissjóði sína.“

Þessi ábending hefur verið hent á lofti af fjölmiðlum og fleirum og gefið í skyn, jafnvel fullyrt, að lífeyrissjóðirnir ákveði þessi launakjör forstjóra fyrirtækjanna og hafi í hendi sér að breyta þeim og eigi að breyta þeim.

Af þessu tilefni vill Lífeyrissjóður verzlunarmanna koma eftirfarandi á framfæri.

Lífeyrissjóðirnir eru ekki einn aðili

Lífeyrissjóður verzlunarmanna er sjálfstæður lífeyrissjóður, óháður öðrum lífeyrissjóðum í landinu. Stjórnendur Lífeyrissjóðs verzlunarmanna ákveða einir og óháðir öðrum lífeyrissjóðum fjárfestingar sjóðsins. Sama gildir um aðra lífeyrissjóði í landinu. Það er því villandi, eins og borið hefur við, að ræða um „lífeyrissjóðina“ eins og þeir væru einn eigandi sem lúti einni stjórn.

Í sumum tilvikum eiga einstakir lífeyrissjóðir nægilega stóran hlut í fyrirtækjum, til að hafa fulltrúa í stjórn fyrirtækisins. Í margfalt fleiri tilvikum er ekki svo.

Þegar lífeyrissjóður hefur fulltrúa í stjórn fyrirtækis gilda landslög um hvernig sá skal starfa í stjórn. Af þeim lögum leiðir að viðkomandi lífeyrissjóður getur ekki gefið honum bein fyrirmæli um hvernig hann ver atkvæði sínu innan stjórnar. Í tilviki Lífeyrissjóðs verzlunarmanna er fulltrúum, sem sjóðurinn styður til setu í stjórnum fyrirtækja, gerð bréflega grein fyrir hver sé stefna sjóðsins varðandi starfskjör stjórnenda fyrirtækja sem sjóðurinn fjárfestir í (sjá hér síðar).

Þrír ólíkir flokkar lífeyrissjóða

Þá er rétt að benda á að lífeyrissjóðum á Íslandi má í aðalatriðum skipta í þrjá flokka eftir eðli þeirra og bakgrunni:

  • Lífeyrissjóðir opinberra starfsmanna (stjórnir skipaðar af ríkinu eða sveitarfélögum og stéttarfélögum opinberra starfsmanna)
  • Lífeyrissjóðir á almenna vinnumarkaðnum (stjórnir skipaðar af félögum/samtökum atvinnurekenda og félögum/samtökum launþega). Lífeyrissjóður verzlunarmanna flokkast hér.
  • Séreignarsjóðir (stjórnir kjörnar beint af sjóðfélögum á ársfundum).

Samkvæmt vef Landssamtaka lífeyrissjóða eru 26 sjóðir innan samtakanna. Þar af eru 9 sjóðir með stjórnir sem valdar eru af aðilum vinnumarkaðarins.

Stjórnarmönnum kunnugt um stefnu sjóðsins

Á Kauphöll Íslands eru nú 16 félög vegna hlutabréfaviðskipta. Lífeyrissjóður verzlunarmanna á engan hlut í þremur þeirra, Sjóvá, Hampiðjunni og Sláturfélagi Suðurlands. Í hinum félögunum á hann eignarhluti á bilinu 0,2% til 14,6%. Lífeyrissjóður verzlunarmanna hefur ekki stutt stjórnarmenn í eftirtöldum félögum sem hann á þó hlut í: Century, Grandi, Marel, Nýherji og Össur.

Við val á stjórnarmönnum sem njóta stuðnings Lífeyrissjóðs verzlunarmanna er þess ávallt gætt að þeir uppfylli almenn hæfisskilyrði og hafi reynslu, menntun og þekkingu sem ætla má að komi að gagni við stjórnarstörf í viðkomandi félagi. Umræddum stjórnarmönnum er öllum kunnugt um stefnu sjóðsins varðandi starfskjör stjórnenda í félögum sem sjóðurinn fjárfestir í, m.a. að þau taki mið af íslenskum veruleika.

Eignarhald lífeyrissjóða í skráðum félögum

Eftirfarandi er yfirlit yfir samanlagða eignarhluti lífeyrissjóða í þeim 13 félögum, skráðum í Kauphöllinni, sem yfirlit ASÍ nær til og um eignarhlut Lífeyrissjóðs verzlunarmanna sérstaklega.

 

Félag Eignarhlutur lífeyris-
sjóða samtals
Þ.a Lífeyrissjóður
verzlunarmanna
Eimskipafélag Íslands hf 35,65% 14,57%
Fjarskipti hf 41,2% 13,11%
HB Grandi hf 23,71% 9,53%
Hagar hf 43,52% 8,18%
Icelandair Group hf 43,08% 14,58%
Marel hf 26,84% 8,06%
N1 hf 54,57% 14,2%
Nýherji hf 25,62% 9,48%
Reginn hf 38,29% 13,61%
Sjóvá Almennar tryggingar hf 32,07% -
Tryggingamiðstöðin hf 44,41% 9,90%
Vátryggingafélag Íslands hf 25,93% 9,82%
Össur hf 24,16% 7,55%

Fjögur félög skera sig úr

Í yfirliti ASÍ eru fjögur félög sem skera sig úr hvað varðar launamun forstjóra og almennra starfsmanna. Þetta eru Össur hf., Eimskipafélag Íslands hf., Marel hf. og Hagar hf.

  • Össur hf. er að meirihluta í eigu danskra fjárfesta sem ráða alfarið starfskjörum stjórnenda. Starfsvettvangur fyrirtækisins er nánast eingöngu á erlendum vettvangi. Lífeyrissjóður verzlunarmanna hefur ekki haft mann í stjórn Össurar hf.
  • Eimskipafélag Íslands er að stórum hluta í eigu erlendra fjárfesta. Á vordögum 2012 keypti Lífeyrissjóður verzlunarmanna 14% hlut í félaginu, en hafði áður átt um hálft prósent. Haustið 2012 var almennt hlutafjárútboð í félaginu. Fyrir þann tíma var félagið að mestu í eigu hinna erlendu fjárfesta. Á þeim tíma (2010-2011) voru gerðir starfskjarasamningar við stjórnendur félagsins sem fólu í sér kauprétti þeirra á hlutafé í félaginu. Þau kjör stjórnendanna ollu mikilli ólgu í samfélaginu á haustmánuðum 2012. Þann 25. október birti Lífeyrissjóður verzlunarmanna tilkynningu á vef sínum um málið, í samræmi við hluthafastefnu sjóðsins. Þar sagði meðal annars: „Lífeyrissjóður verzlunarmanna hefur nú afl hlutafjáreignar til að hafa áhrif á skipan stjórnar Eimskips. Stjórn sjóðsins hefur ákveðið að beita áhrifum sínum til að hófs verði gætt varðandi kjör stjórnenda félagsins þannig að þau verði í góðu samræmi við íslenskan veruleika.“ Skömmu síðar sama dag var tilkynnt að stjórnendur Eimskips hefðu fallið frá áformum sínum um að virkja kaupréttarákvæði starfskjara sinna. Lífeyrissjóður verzlunarmanna hefur stutt mann til setu í stjórn Eimskipafélags Íslands hf.
  • Marel hf. fékk nýjan forstjóra á fyrra ári. Starfskjör hans eru allt önnur og mikið lægri en forvera hans. Starfsvettvangur og helstu starfsstöðvar fyrirtækisins eru dreifð um allan heim. Um 99% af tekjum fyrirtækisins verða til erlendis. Starfskjör stjórnenda taka meðal annars mið af því. Lífeyrissjóður verzlunarmanna hefur ekki haft mann í stjórn Marels hf.
  • Hagar hf. Launakjör forstjóra sveiflast í samræmi við ákvæði um árangurstengingu þeirra. Lífeyrissjóður verzlunarmanna hefur stutt mann í stjórn Haga hf. frá miðju ári 2014 en hafði ekki haft áhrif á val stjórnar félagsins fram að því.

Um lagaskilyrði

Lífeyrissjóður verzlunarmanna, sem og aðrir lífeyrissjóðir í landinu, starfar á grundvelli laga nr. 129/1997, lífeyrissjóðslaganna. Af sjálfu leiðir að um starfsemi hans gilda jafnframt önnur lög í landinu. Hvað fjárfestingarstarfsemi varðar má þar nefna lög um hlutafélög, samkeppnislög, lög um verðbréfaviðskipti og lög um kauphallir.

Í lögum um verðbréfaviðskipti er fjallað um það þegar einn aðili eða fleiri í samstarfi teljast hafa náð yfirráðum í félagi. Þegar rætt er um að lífeyrissjóðirnir eigi að móta starfskjarastefnu í fyrirtækjum, sem þeir eiga hluti í, er rétt að hafa ákvæði þessara laga í huga og að samstarf getur mögulega, ásamt fleiri þáttum, leitt af sér yfirtökuskyldu.

Samkeppniseftirlitið hefur tekið fram að það telur fjárfestingar lífeyrissjóða í fyrirtækjum vera visst áhyggjuefni í samkeppnisréttarlegu tilliti. Ekki hvað síst þegar um er að ræða fjárfestingar eins og sama lífeyrissjóðsins í tveimur eða fleiri fyrirtækjum sem starfa á fákeppnismarkaði. Í þessu sambandi getur stærð eignahluta skipt máli. Þá gæti samstarf/samráð lífeyrissjóða varðandi aðkomu að stjórnun félaga mögulega leitt til þess að litið væri á hlut fleiri en eins lífeyrissjóðs sameiginlega. Ekki skal fullyrt að samstarf/samráð vaðandi einstaka þætti, eins og starfskjarastefnu, réði þar eitt um. Hins vegar má leiða að því líkur að slíkt samstarf, og mögulega víðtækara samstarf, geti haft áhrif á mat samkeppnisyfirvalda á því hvort eignahlutur tveggja eða fleiri lífeyrissjóða teljist sem ein heild í samkeppnislegu tilliti.

Lífeyrissjóðslögin, nr. 129/1997, setja lífeyrissjóðum ströng skilyrði um fjárfestingar og eignarhald í fyrirtækjum. Lífeyrissjóðir mega fjárfesta í hlutafélögum skráðum í Kauphöllinni, mest 15% hlutafjár í hverju félagi.

Spurningunni um hvort lífeyrissjóðir eigi að hafa bein áhrif á starfskjör stjórnenda fyrirtækjanna verður því ekki svarað af lífeyrissjóðunum sameiginlega, hver og einn hefur sínar samþykktir og stefnu að fara eftir.

Samþykktir og stefna

Lífeyrissjóður verzlunarmanna hefur nokkrum sinnum áður birt tilkynningar og greinargerðir sem varða þessi mál og afstöðu sjóðsins varðandi starfskjör stjórnenda fyrirtækja sem sjóðurinn hefur fjárfest í. Sjá hér, hér og hér. Sú stefna hefur verið óbreytt undanfarin ár, en á liðnum vetri var aukið við hana og hún gerð nákvæmari eins og hér á eftir greinir.

Í samþykktum Lífeyrissjóðs verzlunarmanna eru ákvæði um fjárfestingarstefnu og hluthafastefnu. Jafnframt hefur ítarleg og formleg stefna verið samþykkt í stjórn sjóðsins, til viðbótar hefðbundinni fjárfestingarstefnu sjóðsins, varðandi starfskjör stjórnarmanna og stjórnenda fyrirtækja sem sjóðurinn er hluthafi í, sjá hér. Við þá stefnumótun hefur m.a. verið tekið mið af leiðbeiningum Viðskiptaráðs Íslands, Nasdaq OMX Iceland og Samtaka atvinnulífsins um stjórnarhætti fyrirtækja. Einnig er horft til leiðbeininga sem OECD hefur gefið út í þessu sambandi.