Fjölgun aldraðra er ekki vandamál lífeyrissjóðanna

22. ágú. 2014

Mikil umræða hófst í byrjun sumars um öldrun, vaxandi lífslíkur fólks og mikla fjölgun aldraðra, ekki aðeins hér á Íslandi heldur víða um heiminn, ekki síst í Evrópu. Ástæðan er að menn sjá fram á gríðarlega mikinn vöxt í útgjaldaþörf hins opinbera vegna lífeyrisgreiðslna og umönnunar. Gallinn er hins vegar sá, að í þessari annars þörfu umræðu hafa margir blandað hinum almennu lífeyrissjóðum á Íslandi í vanda, sem þeir eru lítt eða ekki hluti af.

Mikil umræða hófst í byrjun sumars um öldrun, vaxandi lífslíkur fólks og mikla fjölgun aldraðra, ekki aðeins hér á Íslandi heldur víða um heiminn, ekki síst í Evrópu. Ástæðan er að menn sjá fram á gríðarlega mikinn vöxt í útgjaldaþörf hins opinbera vegna lífeyrisgreiðslna og umönnunar. Gallinn er hins vegar sá, að í þessari annars þörfu umræðu hafa margir blandað hinum almennu lífeyrissjóðum á Íslandi í vanda, sem þeir eru lítt eða ekki hluti af.

Málið er langt í frá nýtt. Á árunum eftir síðari heimstyrjöldina fjölgaði fæðingum mjög. Í Bandaríkjunum var fljótt farið að kalla þessar kynslóðir sem komu í heiminn á árunum 1945-1955 „Baby Boomers.“ Um leið fjölgaði fæðingum víðast hvar um heiminn. Strax þá, fyrir 50-60 árum, var því fyrirsjáanlegt að nú, á okkar tímum, mundi öldruðum fjölga.

Langlífið kostar

Það sem hins vegar kom ekki strax fram og varð ekki vel ljóst fyrr en síðar, e.t.v. fyrst fyrir 20-30 árum, var hve mjög ævilíkurnar jukust samhliða fjölgun aldraðra. Reyndar má segja að það sé fyrst nú á síðasta áratug eða svo sem skýr mynd birtist af því hve lífslíkur hafa aukist að meðaltali.

Vandinn sem þessari þróun fylgir, og mönnum verður tíðrætt um, er einkum aukin byrði á skattgreiðendur vegna bæði lífeyris og umönnunar. Í Evrópu og einnig í ýmsum löndum utan hennar, hagar víðast hvar svo til að ellilífeyrir er greiddur að meginstefnu til í gegnum skattkerfið (svokallað gegnumstreymi). Það þýðir að skattgreiðendur á hverjum tíma bera þungann af lífeyrisgreiðslunum. Um leið og fólk eldist meira verða færri skattgreiðendur að standa undir vaxandi lífeyrisgreiðslum og sá vandi mun enn aukast með sífellt lengri meðalævi.

 Á Íslandi vandi hins opinbera

Hér á landi er þetta að nokkru leyti sambærilegt, með því að greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins eru bornar uppi af skattgreiðendum á hverjum tíma. Þá er hið opinbera (eftir atvikum ríki eða sveitarfélag) í ábyrgð fyrir lífeyrisskuldbindingum lífeyrissjóða opinberra starfsmanna. Nú þegar hvílir á hinu opinbera ábyrgð sem nemur um 500 milljörðum króna vegna þessa. Ekki þarf þó að greiða þetta allt strax því ábyrgðin fellur í gjalddaga á löngum tíma, nokkrum áratugum, eftir því sem sjóðfélagarnir eldast. Þarna er einkum um að ræða ábyrgð ríkisins vegna Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins og Lífeyrissjóðs hjúkrunarfræðinga, ábyrgðir sveitarfélaganna eru mun lægri fjárhæðir.

 Fjölgun aldraðra ekki áhyggjuefni

Hinir almennu lífeyrissjóðir, eins og Lífeyrissjóður verzlunarmanna, eru byggðir upp á annan hátt en opinberu sjóðirnir. Þeir eru án ábyrgðar launagreiðenda, sem þýðir að lífeyrisskuldbindingar almennu sjóðanna verða að ráðast einkum af iðgjöldum sjóðfélaga og þeirri ávöxtun sem tekst að ná á fé sjóðfélaganna hverju sinni. Þeir geta ekki sent reikninginn til skattgreiðenda, ef ekki kemur nóg í sjóðina.

Fjölgun aldraðra, miðað við aðra aldurshópa, er ekki áhyggjuefni fyrir almennu sjóðina, þar sem þeir byggjast alfarið á sjóðsöfnun. Hver og einn árgangur/kynslóð safnar í sjóð og myndar réttindi til ævilangs lífeyris. Þau réttindi ráðast einkum af iðgjöldum sjóðfélagans sjálfs og ávöxtun þeirra.Á þessari mynd sést vel að búast má við að meðalævi Íslendinga lengist um 4-5 ár fram til 2050. Heimild: Hagstofan.

Lengri ævi reynir á sjóðina

Hækkun meðalaldurs, þ.e. auknar ævilíkur, geta hins vegar þrengt að sjóðunum þar sem greiða þarf hverjum og einum sjóðfélaga lífeyri að meðaltali lengur með hverju árinu sem líður. Þannig hafa t.d. íslenskir karlar bætt við sig rúmlega tveimur árum í meðalævilengd frá árinu 2000. Samkvæmt vef Hagstofunnar var meðalævilengd þeirra 81,6 ár árið 2012, en meðalævilengd kvenna hafði aukist lítið eitt minna, var 84,3 ár 2012.

Þetta þýðir að lífeyrisþegar fá greiddan lífeyri, sem þeir hafa áunnið sér rétt til, að meðaltali um tveimur árum lengur nú heldur en fyrir hálfum öðrum áratug.

Lífeyrissjóður verzlunarmanna í góðri stöðu

Í þeirri umræðu sem hefur verið hér á landi undanfarna mánuði hafa margir, einkum stjórnmálamenn, gengið út frá að hækka verði lífeyrisaldur eða iðgjöld í almennu lífeyrissjóðina vegna þess hve lífslíkur eða meðalævilengd þjóðarinnar hafa aukist. Ekki er þó um bráðavanda að ræða. Sjóðirnir hafa lagfært stöðu sína og eru innan þeirra marka sem lög setja um tryggingafræðilega stöðu, en sumir sjóðir þurfa þó að bæta stöðu sína enn frekar.

Lífeyrissjóður verzlunarmanna stendur vel að þessu leyti. Tryggingafræðileg staða hans (sem er mælikvarði á getu sjóðsins til að standa við lífeyrisskuldbindingar) var jákvæð í lok árs 2013. Stjórn sjóðsins og stjórnendur hafa lagt áherslu á, að ef talið verður nauðsynlegt að breyta reglum um lífeyrisréttindi sjóðfélaga, þá verði þær breytingar gjörhugsaðar og vandað til verka að öllu leyti. Röskun verði sem minnst og hagsmuna sjóðfélaganna gætt vandlega.

Vaxandi verkefni stjórnvalda

Viðfangsefni stjórnvalda er ærið varðandi væntanlega fjölgun aldraðra. Sem fyrr segir þarf að bregðast við svo lífeyrir verði tryggður frá lífeyrissjóðum opinberra starfsmanna og Tryggingastofnun ríkisins. Ekki minna verkefni er framundan í félags- og heilbrigðismálum. Öldrun fylgir að heilsan lætur undan síga og óhjákvæmilega er kostnaður af umönnun, hvort sem eru beinar lækningar á sjúkrahúsum, umönnun á hjúkrunarheimilum eða heimahjúkrun að ógleymdum lyfjakostnaði. Þessi kostnaður greiðist af skattgreiðendum samkvæmt ákvörðunum stjórnmálamannanna, einkum Alþingis.


Hér má sjá hve 65 ára og eldri eru hátt hlutfall af fólki á vinnualdri, þ.e. 25-64 ára. Allt frá miðri 20. Öldinni hefur verið einn 65 ára eða eldri á hverja 4-5 vinnandi, eða um 20%. Um 2005 fór þetta hlutfall að taka hröðum breytingum og stefnir í að 2050 verði einn 65 ára og eldri á hverja tvo vinnandi, eða 50%. Heimild: Hagstofan.


Þetta viðfangsefni eykst enn frekar við að ævilíkur vaxa, þannig að við fjölgun aldraðra bætist að fólkið lifir lengur en áður. Hvernig á svo að leysa öll þessi mál? Um það er engin niðurstaða enn. Margt hefur verið nefnt, misjafnlega raunhæft. Að störfum er nefnd á vegum stjórnvalda um endurskoðun almannatryggingalaga, undir formennsku Péturs H. Blöndal alþingismanns. Hún kannar þessi mál og leitar leiða til framtíðar. Vænta má tillagna frá henni í haust.

Önnur nefnd starfar að þessum málum með aðild ríkisins, sveitarfélaganna og aðila vinnumarkaðarins.

 Hugmyndir um aðgerðir

Hér á eftir verða talin nokkur atriði, sem stjórnmálamenn og aðrir hafa nefnt að þurfi að gera á næstu árum til að tryggja fjármögnun lífeyris og umönnunar aldraðra. Vert er að leggja enn og aftur áherslu á það sem fram kom hér að framan að ekki á það sama við um almennu lífeyrissjóðina og opinbera lífeyrissjóði eða Tryggingastofnun.

Meðal þess sem nefnt hefur verið undanfarið að þurfi að gera á næstu árum og áratugum er eftirfarandi:

  1. Stórauka forvarnir sem felast í að bæta heilsu fólks og félagslegar aðstæður. Þetta er langtímaverkefni sem hægt er að byrja á strax og á ungum aldri fólks en tekur nokkur ár að byrja að skila árangri. Með árangri á þessu sviði dregur úr útgjaldaþörf við hjúkrun og læknaþjónustu. Þessu verkefni lýkur aldrei.
  2. Auka framboð á hjúkrunar- og dvalarrýmum fyrir aldraða. Umfang þessa ræðst meðal annars af árangri forvarna, en ljóst er að bæta þarf við á næstu tveimur áratugum sem nemur meira en 100 hjúkrunarrýmum á ári. Það er mikill kostnaður sem fellur á skattgreiðendur.
  3. Hækka lífeyrisaldur. Um þetta hafa enn ekki komið fram ákveðnar hugmyndir og því með öllu óljóst hver útfærslan yrði. Margir hafa lagt áherslu á, að ef talið verður nauðsynlegt að hækka lífeyrisaldur verði það gert í skrefum þannig að áætlunum og væntingum sjóðfélaga verið sem minnst raskað. Formaður landssamtaka aldraðra hefur tekið í sama streng sbr. hér
  4. Hækkun iðgjalda í lífeyrissjóði. Slík aðgerð er samningsatriði í kjarasamningum og hefur ekki verið tekin til umræðu á þeim vettvangi. Um þetta hafa heldur ekki komið fram ákveðnar hugmyndir og er því sömuleiðis með öllu óvíst að breyting verði á iðgjöldum, að minnsta kosti hvað varðar hina almennu lífeyrissjóði.

 Lagabreytingar þarf að vanda vel

Hver sem niðurstaðan verður hvað lífeyrissjóðina varðar er nánast víst að breytingar þurfa að gerast með því að breyta lögunum um lífeyrissjóði. Það gerist ekki í einu vetfangi, mun væntanlega fara í ítarlega umræðu á Alþingi, jafnvel á fleiri þingum en einu. Það þýðir að lífeyrissjóðirnir, aðilar vinnumarkaðarins og allur almenningur á þess kost að fylgjast með hugmyndum og tillögum um breytingar og getur gert athugasemdir sínar.

Hér á þessum vef verður gerð grein fyrir hugmyndum, tillögum og frumvörpum um breytingar á lífeyriskerfinu jafnóðum og fram koma.

 Ítarefni

Grein Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, alþingismanns og fv. heilbrigðisráðherra.

Kynning Péturs H. Blöndal, alþingismanns, á störfum lífeyrisnefndar.

Frétt á vef velferðarráðuneytis um skipun nefndar um endurskoðun almannatryggingalaga.

Vefflugan, vefrit Landssamtaka lífeyrissjóða.

 Til framtíðar, viðtalsþættir Þórhalls Jósepssonar á ÍNN:

  • 9. júní 2014
  • 16. júní 2014
  • 23. júní 2014
 Lifðu núna! Vefrit ætlað 55 ára og eldri.

 Áfram, fylgirit með laugardagsblaði Morgunblaðsins síðasta laugardag annan hvern mánuð.