Góð afkoma 2013, raunávöxtun 6,3%

22. feb. 2014

Afkoma Lífeyrissjóðs verzlunarmanna á árinu 2013 var afar góð. Á árinu 2013 stækkaði sjóðurinn um 52 milljarða króna og var hrein eign til greiðslu lífeyris í árslok 454 milljarðar króna. Þennan vöxt má m.a. þakka því að á árinu náðist 6,3% hrein raunávöxtun eigna sjóðsins.

Afkoma Lífeyrissjóðs verzlunarmanna á árinu 2013 var afar góð. Á árinu 2013 stækkaði sjóðurinn um 52 milljarða króna og var hrein eign til greiðslu lífeyris í árslok 454 milljarðar króna. Þennan vöxt má m.a. þakka því að á árinu náðist 6,3% hrein raunávöxtun eigna sjóðsins.


Tryggingafræðileg staða sjóðsins styrktist og var hún jákvæð sem nemur 0,9%. Tryggingafræðileg staða er mælikvarði á getu sjóðsins til að standa við skuldbindingar sínar gagnvart lífeyrisþegum í framtíðinni.

Fjárfestingartekjur voru 42,3 milljarðar.  Iðgjaldagreiðslur námu um 19 milljörðum króna. Greiðandi sjóðfélagar voru um 48 þúsund á árinu. Allir eignaflokkar sjóðsins skiluðu jákvæðri ávöxtun.

Samsetning eigna tók nokkrum breytingum á árinu, hlutdeild innlendra hlutabréfa hækkaði úr 12% í 16%, erlend verðbréf hækkuðu nokkuð í krónutölu, en hlutdeild þeirra lækkaði um eitt prósentustig, í 27% og skuldabréf og bankainnstæður lækkuðu úr 60% í 57% eigna.


Lífeyrissjóður verzlunarmanna greiddi um 12 þúsund lífeyrisþegum alls tæplega níu milljarða króna í lífeyri úr sameignardeild á árinu 2013. Þetta eru 13% hærri lífeyrisgreiðslur en árið á undan, en lífeyrisþegum fjölgaði um 7,5% á sama tíma.