Um eignarhald Lífeyrissjóðs verzlunarmanna í fyrirtækjum

6. feb. 2014

Eftirfarandi fréttatilkynning var send fjölmiðlum að kvöldi miðvikudags 5. febrúar.
Í tilefni af umræðu í fjölmiðlum undanfarna daga um eignarhald Lífeyrissjóðs verzlunarmanna í fyrirtækjum, einkanlega N-1, skal eftirfarandi áréttað.

Eftirfarandi fréttatilkynning var send fjölmiðlum að kvöldi miðvikudags 5. febrúar.
Í tilefni af umræðu í fjölmiðlum undanfarna daga um eignarhald Lífeyrissjóðs verzlunarmanna í fyrirtækjum, einkanlega N-1, skal eftirfarandi áréttað.

Lög um lífeyrissjóði, nr. 129/1997, setja lífeyrissjóðum ströng skilyrði um fjárfestingar og eignarhald í fyrirtækjum.  Lífeyrissjóðir mega fjárfesta í hlutafélögum skráðum í Kauphöllinni, mest 15% hlutafjár í hverju félagi.

Lífeyrissjóður verzlunarmanna hefur fjárfest í hlutafé allra þeirra fyrirtækja sem hafa verið skráð í Kauphöllinni eftir hrun. Í sumum þessara fyrirtækja hefur sjóðurinn stutt menn til að taka sæti í stjórn og hefur þeim verið gerð grein fyrir að Lífeyrissjóður verzlunarmanna styðji ekki að tekið verði upp kaupréttarkerfi  hlutabréfa, né kaupaukakerfi af öðru tagi án takmarkana og strangra skilyrða. Haft er að leiðarljósi að hófs verði jafnan gætt varðandi kjör stjórnenda hvers og eins félags þannig að þau verði í góðu samræmi við íslenskan veruleika.

Á þetta hefur reynt, en aðeins eitt dæmi er um að áhrif slíkrar stefnu hafi komið í opinbera umræðu, haustið 2012 vegna áforma um kauprétti stjórnenda Eimskips, þá frétt má lesa hér.

Ítarleg og formleg stefna, til viðbótar hefðbundinni fjárfestingarstefnu sjóðsins, hefur verið í mótun varðandi starfskjör stjórnarmanna og stjórnenda fyrirtækja sem sjóðurinn er hluthafi í. Við þá stefnumótun hefur m.a. verið tekið mið af leiðbeiningum Viðskiptaráðs Íslands, Nasdaq OMX Iceland og Samtaka atvinnulífsins um stjórnarhætti fyrirtækja. Einnig er horft til leiðbeininga sem OECD hefur gefið út í þessu sambandi. Þessi stefnumótun hefur verið í undirbúningi á síðustu mánuðum og verður lögð fyrir stjórn sjóðsins á næstunni.

Hvað N1 varðar ætti að vera ljóst, að Lífeyrissjóður verzlunarmanna fylgir sem fyrr stefnu sinni hvað starfskjör stjórnenda varðar, en hafa verður í huga að áhrif sjóðsins takmarkast við 10% hlutafjáreign, en félagið er í eigu nær 5.000 hluthafa.  Að undanförnu hafa birst í fjölmiðlum villandi upplýsingar um starfskjör forstjóra N-1. Fram til þessa hefur fjárfestingin í  félaginu reynst vera traust og gefa sjóðfélögum lífeyrissjóðsins góða ávöxtun fjár síns.