Lífeyrissjóður verzlunarmanna fær jafnlaunavottun VR

22. jan. 2014

Lífeyrissjóður verzlunarmanna hefur fengið jafnlaunavottun VR og er fyrstur lífeyrissjóða til að fá þá viðurkenningu. Jafnlaunavottunin er árangur markvissrar jafnréttis- og jafnlaunastefnu í starfi sjóðsins og staðfesting á því að karlar og konur fá í störfum sínum hjá sjóðnum sömu laun fyrir jafnverðmæt störf.

Lífeyrissjóður verzlunarmanna hefur fengið jafnlaunavottun VR og er fyrstur lífeyrissjóða til að fá þá viðurkenningu. Jafnlaunavottunin er árangur markvissrar jafnréttis- og jafnlaunastefnu í starfi sjóðsins og staðfesting á því að karlar og konur fá í störfum sínum hjá sjóðnum sömu laun fyrir jafnverðmæt störf.

Hjá Lífeyrissjóði verzlunarmanna starfa 35 manns.

Eftirfarandi er úr frétt VR um jafnlaunavottunina:

Jafnlaunavottun VR staðfestir að búið sé að kerfisbinda launaákvarðanir, koma upp jafnlaunakerfi samkvæmt kröfum ÍST85:2012 jafnlaunastaðals og að nú verði markvisst fylgst með því að starfsfólki sjóðsins sé ekki mismunað í launum eftir kyni. 

„Hjá Lífeyrissjóði verzlunarmanna vinnur samhentur hópur fólks sem leggur metnað í að vinna störf sín eins vel og unnt er hverju sinni. Sjóðurinn hefur þá stefnu að gæta jafnréttis milli karla og kvenna og stuðla þannig að jöfnum tækifærum óháð kynferði. Í því felst meðal annars að starfsmenn njóti sömu kjara fyrir sömu og jafnverðmæt störf. Það er ánægjulegt að hljóta Jafnlaunavottun VR sem staðfestir að sú stefna sem Lífeyrissjóður verzlunarmanna hefur unnið eftir er virk,“ segir Gerður Björk Guðjónsdóttir, mannauðsstjóri LV.

Öll fyrirtæki og stofnanir geta verið með

Ólafía B. Rafnsdóttir, formaður VR, segir ánægjulegt að sjá hve mikil fjölbreytni einkennir hóp vottaðra fyrirtækja og stofnana. Öll fyrirtæki og allar stofnanir á íslenskum vinnumarkaði geta sótt um Jafnlaunavottun, óháð stéttarfélagsaðild starfsmanna sinna. „Við fögnum því að fá Lífeyrissjóð verzlunarmanna í hópinn og ég hvet öll fyrirtæki og stofnanir til að beita sér með virkum hætti í baráttunni fyrir jafnrétti á vinnumarkaði.“ 

Nú hafa um tuttugu fyrirtæki og stofnanir fengið Jafnlaunavottun VR frá því henni var fyrst hleypt af stokkunum. Jafnlaunavottun VR er ætluð fyrirtækjum og stofnunum sem vilja sýna fram á að launastefna þeirra og mannauðsstjórnun mismuni ekki kynjunum. 

Á myndinni eru frá vinstri Valgarður I. Sverrisson, skrifstofustjóri LV, Bryndís Guðnadóttir, kjarasviði VR, Ólafía B. Rafnsdóttir, formaður VR, Guðmundur Þ. Þórhallsson, framkvæmdastjóri LV, og Gerður Björk Guðjónsdóttir, mannauðsstjóri LV.