Rekstur íslensku lífeyrissjóðanna hagkvæmur samkvæmt OECD

13. nóv. 2013

Rekstrarkostnaður íslensku lífeyrissjóðanna á árinu 2012 var einhver sá lægsti innan OECD (Efnahags- og framfarastofnunarinnar). Þetta má sjá í nýju yfirliti sem OECD hefur birt. Rekstrarkostnaður íslensku lífeyrissjóðanna nemur 0,2% af heildareignum, samkvæmt yfirlitinu. Aðeins Danmörk sýnir betri niðurstöður, eða 0,1% af heildareignum.

Rekstrarkostnaður íslensku lífeyrissjóðanna á árinu 2012 var einhver sá lægsti innan OECD (Efnahags- og framfarastofnunarinnar). Þetta má sjá í nýju yfirliti sem OECD hefur birt. Rekstrarkostnaður íslensku lífeyrissjóðanna nemur 0,2% af heildareignum, samkvæmt yfirlitinu. Aðeins Danmörk sýnir betri niðurstöður, eða 0,1% af heildareignum.

OECD birtir árlega í nóvember samanburð á ýmsum hagtölum um lífeyrissjóði í aðildarlöndum og samstarfslöndum stofnunarinnar. Samanburður rekstrarkostnaðarins nær til 30 ríkja, þar af hafa 8 ríki ekki skilað upplýsingum fyrir árið 2012.

Sem fyrr undanfarinn áratug er rekstur dönsku lífeyrissjóðanna hagstæðastur, kostnaðurinn nemur 0,1% af heildareignum. Næst koma fimm ríki, þar sem kostnaðurinn nemur 0,2%, þar á meðal er Ísland. Hin ríkin eru Holland, Portúgal, Lúxemborg og Þýskaland. Árið áður var rekstrarkostnaður íslensku sjóðanna 0,3% og hafði þá í áratug sveiflast á milli 0,2% og 0,3%.

Hæsta kostnaðarhlutfallið á árinu 2012 var á Spáni, 1,4% af heildareignum, þar næst komu Ungverjaland 1,2% og Mexíkó 0,9%.

Í yfirlitsskjalinu Yfirsýn (bls. 6) hér á vefnum má sjá að rekstrarkostnaður Lífeyrissjóðs verzlunarmanna á árinu 2012 var nokkuð hagkvæmari en meðaltal íslensku sjóðanna samkvæmt OECD, eða 0,16% af heildareignum.