Ný lög um neytendalán gilda um lífeyrissjóðslán

1. nóv. 2013

Ný lög um neytendalán hafa tekið gildi og falla öll lán til einstaklinga (og hjóna) undir þau, þar með talin sjóðfélagalán lífeyrissjóða. Samkvæmt lögunum er aukin upplýsingagjöf til lántakenda og auknar kröfur um mat á greiðslugetu þeirra.

Ný lög um neytendalán hafa tekið gildi og falla öll lán til einstaklinga (og hjóna) undir þau, þar með talin sjóðfélagalán lífeyrissjóða. Samkvæmt lögunum er aukin upplýsingagjöf til lántakenda og auknar kröfur um mat á greiðslugetu þeirra.

Lögin ná yfir öll neytendalán, en þau eru skilgreind sem lánssamningur á milli lánveitanda og neytanda, þ.e. einstaklings, þar sem neytandinn tekur lán ótengt atvinnustarfsemi. Hjón geta verið saman sem neytandi í þessum skilningi. Lánssamningur getur verið t.d. veðlán, skuldabréf, bílasamningur (kaupleiga), yfirdráttarheimild, raðgreiðslusamningur og smálán.

Sjóðfélagalán lífeyrissjóða, lífeyrissjóðslán, falla undir þessi lög.

Markmið aukin neytendavernd

Lögin eru byggð á tilskipun Evrópusambandsins og eru innleidd hér í samræmi við ákvæði EES samningsins. Markmið þeirra er að auka neytendavernd, tryggja samræmt lagaumhverfi innan Evrópska efnahagssvæðisins, stuðla að aukinni upplýsingagjöf um lánskjör og auðvelda neytendum samanburð á tilboðum um lán.

Í lögunum eru ákvæði um ríka upplýsingaskyldu lánveitenda og einnig lántaka. Neytendum ber að veita upplýsingar um fjárhagsstöðu sína og lánveitendum ber skylda til að upplýsa um allan kostnað og vexti við lán.

Neytendastofa annast eftirlit með ákvæðum laganna.

Leitið upplýsinga

Sjóðfélagar eru eindregið hvattir til að afla sér allra nauðsynlegra upplýsinga, ef þeir hyggjast taka lán. Sérfræðingar Lífeyrissjóðs verzlunarmanna eru tilbúnir að leiðbeina og veita upplýsingar varðandi ákvæði laga um neytendalán sem og um önnur atriði varðandi lán.

Nánari upplýsingar um hin nýju lög um neytendalán er að finna á:
vef Neytendastofu
vef Samtaka fjármálafyrirtækja 
vef Alþingis