Nokkur álitamál sem þarf að leysa

11. okt. 2013

Tjón íslenskra lífeyrissjóða í kjölfar efnahagshrunsins fyrir fimm árum var minna en meðaltals­tap lífeyrissjóða í OECD-ríkjunum. Sumir íslenskir lífeyrissjóðir á almennum vinnumarkaði urðu að bregðast við með því að skerða lífeyrisréttindi, sem vissulega er alltaf erfitt. Þeir sömu sjóðir höfðu hins vegar greitt sérstakan lífeyrisauka í góðærinu, sem nú varð óhjákvæmilega að taka til baka. Lífeyris­sjóðir með ábyrgð ríkis og sveitarfélaga þurftu eðli málsins samkvæmt ekki að skerða lífeyrisréttindin

Grein eftir Hrafn Magnússon, fyrrverandi framkvæmdastjóri Landssambands lífeyrissjóða. Greinin birtist í 8. útgáfu vefritsins Kjarnans.

Tjón íslenskra lífeyrissjóða í kjölfar efnahagshrunsins fyrir fimm árum var minna en meðaltals­tap lífeyrissjóða í OECD-ríkjunum. Sumir íslenskir lífeyrissjóðir á almennum vinnumarkaði urðu að bregðast við með því að skerða lífeyrisréttindi, sem vissulega er alltaf erfitt. Þeir sömu sjóðir höfðu hins vegar greitt sérstakan lífeyrisauka í góðærinu, sem nú varð óhjákvæmilega að taka til baka. Lífeyris­sjóðir með ábyrgð ríkis og sveitarfélaga þurftu eðli málsins samkvæmt ekki að skerða lífeyrisréttindin. Lífeyrissjóðir á almennum vinnumarkaði hafa hins vegar greitt verð­tryggðan lífeyri frá hruni. Hækkunin nemur tæplega 30% miðað við vísitölu neysluverðs, sem er í takt við hækkun launa yfir sama tímabil.

Íslenska lífeyriskerfið er því öflugt og traust, þrátt fyrir hrunið haustið 2008. Hrein eign lífeyrissjóða til greiðslu lífeyris náði því strax árið 2009 að verða meiri en hún var mest fyrir hrun og var í lok ágúst síðastliðins orðin 2.542 milljarðar króna.
Hrein eign íslenskra lífeyrissjóða nam um 140% af landsframleiðslu árið 2012. Einungis í Hollandi var hlutfallið hærra innan OECD. Í löndunum í sunnanverðri Evrópu er ástandið skelfilegt þegar litið er til lífeyrissjóðakerfanna. Eignir lífeyrissjóðanna á Ítalíu eru einungis um 5% af landsframleiðslunni og eignir grísku sjóðanna eru ekki mælanlegar í þessum samanburði.

Ástand lífeyrismála hér á landi er í góðu horfi þegar horft er til aðsteðjandi vandamála í lífeyriskerfum annarra landa í Evrópu. Þjóðirnar eru eldri, þ.e.a.s. hlutfall eldra fólks í saman­burði við þá vinnandi er hærra en hér á landi. Fólk fer fyrr út af vinnumarkaðinum, jafnvel fyrir 60 ára aldurinn, og þiggur þá oft ríflegar bætur frá almannatryggingum, sem eru að sliga efnahag marga ríkja. Fjöldamótmæli í Evrópu eru flest til komin vegna fyrirætlana stjórnvalda um að hækka eftirlaunaaldurinn, til dæmis upp í 67 ára. Fæðingartíðnin er líka lægri í Evrópu en hér á landi, sem hefur í för með sér að svokölluð eftirlaunakreppa er í augsýn erlendis ef ekkert verður að gert á næstu árum. Allt virðist því leggjast á eitt að gera lífeyrismálin erfiðari viðfangs hjá flestum löndum Evrópu en hér hjá okkur Íslendingum.
Vissulega eru ýmsar blikur á lofti hér á landi hvað varðar framtíð lífeyrissjóðakerfisins ef ekki verður við brugðist. Því er rétt að hafa varann á og stefna að viðunandi niðurstöðu í nokkrum álitamálum sem snerta lífeyrissjóðina og uppbyggingu lífeyriskerfisins.

Fyrsta álitamálið

Í fyrsta lagi þarf að koma í veg fyrir að lífeyrisgreiðslur sjóðanna skerði bætur almannatrygginga í þeim mæli sem nú tíðkast. Frítekjumarkið er of lágt, sem kemur einna harðast niður á tekjulitlum ellilífeyrisþegum. Þetta samspil lífeyris Tryggingastofnunar og lífeyrissjóða þarf að laga í eitt skipti fyrir öll, því núverandi ástand grefur undan vilja fólks til að greiða í lífeyrissjóði. Að vísu hafa lífeyrissjóðsgreiðslur ekki lengur áhrif á grunnlífeyri almannatrygginga, sem ber að fagna, en stjórnvöld hafa í gegnum tíðina gengið allt of langt í skerðingum bóta almannatrygginga.

Annað álitamálið

Í öðru lagi þarf að samræma eftir því sem kostur er lífeyris­réttindi opinberra starfsmanna og launþega á almennum vinnumarkaði. Halli á Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins, LSR, um síðustu áramót nam alls um 450 milljörðum króna, þ.e.a.s. heildarskuldbinding sjóðsins umfram eignir. Ef einungis er litið á áfallna stöðu nam hallinn alls 370 milljörðum króna. Þetta er grafalvarleg staða sem versnar með hverju ári sem líður ef ekki er gripið til viðeigandi ráðstafana. Hallinn á LSR og lífeyrissjóðum sveitarfélaga er áhyggjuefni fyrir alla þjóðina því með þessu ástandi er verið að velta skattbyrðinni yfir á komandi kynslóðir.

Þriðja álitamálið

Í þriðja lagi þarf að aflétta gjaldeyrishöftunum gagnvart erlendum fjárfestingum lífeyrissjóðanna. Fjárfestingar­umhverfi sjóðanna einkennist af gjaldeyrishöftum og fáum fjárfestingarkostum. Slík einsleitni er hættuleg til lengdar. Þegar best lét námu erlendar eignir sjóðanna um 33% af heildareignum en nú er þetta hlutfall komið niður í 22% af eignunum. Lífeyrissjóðunum er nauðsyn að dreifa áhættunni með því að fjárfesta erlendis. Íslenskur fjármálamarkaður er of lítill fyrir lífeyrissjóðina og reyndar eru umsvif sjóðanna orðin óþægilega mikil á vissum sviðum markaðarins. Hættan er líka sú að lífeyrissjóðirnir fjárfesti of mikið í ríkisskuldabréfum, sem mun hafa þau áhrif að lífeyriskerfið breytir smám saman um eðli og færist yfir í gegnumstreymiskerfi, þar sem komandi kynslóðir þurfa að taka á sig greiðslubyrðina af lánum hins opinbera. Hitt er líka áhyggjuefni, vegna þess hve einsleitur markaðurinn er og fjárfestingarkostir fáir, að lífeyrissjóðir leiti í áhættusamari innlendar fjárfestingar. Þegar kemur að því að létta af gjaldeyris­höftunum verður það væntanlega gert í áföngum gagnvart fjárfestum. Lífeyrissjóðirnir þurfa í því sambandi að vera fremstir í þeirri biðröð ef ekki á illa að fara.

Fjórða álitamálið

Í fjórða lagi þarf að huga að því að hugsanlega getur komið til greina að lækka tryggingafræðilegt vaxtaviðmið lífeyrissjóðanna, sem er nú 3,5% umfram vísitölu neysluverðs. Það mundi hafa í för með sér lækkun á lífeyrisréttindunum á almennum vinnumarkaði en þó minnst hjá eftirlaunaþegum. Með vaxtaviðmiði er átt við að sjóðirnir þurfa að meðaltali að skila 3,5% raunávöxtun til lengri tíma litið. Það er hins vegar misskilningur þegar talað er um að 3,5% sé ávöxtunarkrafa sem sjóðirnir krefjist og vilji ekki undir neinum kringumstæðum lána á lægri raunvöxtum. Það er rangt og reyndar fráleitt. Auðvitað verða lífeyrissjóðirnir að sætta sig við þá raunvexti sem eru í boði hverju sinni, þó svo að þeir séu lægri en ávöxtunarviðmiðið. Benda má til dæmis á það að hjá mörgum lífeyrissjóðum eru sjóðfélagalán nú með lægri raunvöxtum en sem nemur umræddu vaxtaviðmiði.
Ef litið er til síðustu tuttugu ára hefur raunávöxtun lífeyris­sjóðanna verið jákvæð í sextán ár en neikvæð í einungis fjögur ár. Af þessum sextán árum hefur raun­ávöxtun lífeyrissjóðanna verið umfram 3,5% alls tólf sinnum og í fyrra var til dæmis hrein raunávöxtunin sjóðanna samkvæmt upplýsingum Fjármálaeftirlitsins 7,3%. Okkur liggur því ekkert á að ákveða lækkun vaxtaviðmiðsins í einhverju fljótræði. Ef kemur til lækkunar á vaxtaviðmiðinu er hyggilegast að það verði gert í áföngum.

Fimmta álitamálið

Í fimmta lagi þarf að horfast í augu við þá staðreynd að lífslíkur landsmanna hafa aukist verulega á umliðnum árum og mun sú þróun halda áfram, þó svo að það hljóti að vera einhver takmörk á því hvað meðalævin geti lengst ef litið er til lengri tíma. Frá árinu 1990 hefur meðalævi 65 ára karla lengst um 2,4 ár (14%) og kvenna um 1,8 ár (9%). Þetta er gleðileg þróun en skapar hins vegar ákveðinn vanda hjá lífeyrissjóðunum, sem greiða ellilífeyri ævilangt. Vegna lengingar á meðalævi hafa lífeyrisskuldbindingar aukist um 10%. Við tryggingafræðilega útreikninga hefur þessi aukalega lífeyrisskuldbinding verið tekin inn í þrepum með nýjum dánar- og eftirlifanditöflum. Þannig tóku gildi um síðustu áramót nýjar töflur sem juku lífeyrisskuldbindinguna um 1% til 1,5%. Hér er reyndar um jákvætt vandamál að ræða, sem hefur þó neikvæð áhrif á tryggingafræðilega stöðu lífeyris­sjóðanna.

Sjötta álitamálið

Í sjötta og síðasta lagi þarf við mat á eigna- og áhættu­stýringu lífeyrissjóðanna að taka fullt tillit til pólitískrar áhættu og skiptir þá litlu hvaða flokkar eru í stjórn hverju sinni. Við áhættustýringu sjóðanna þarf að taka tillit til neikvæðra áhrifa sem óvissa um mögulegar stjórnvaldsaðgerðir kann að skapa. Undir þetta falla breytingar á lögum og/eða reglum um lífeyrissjóðina eða túlkun þeirra sem kunna að valda verulegum breytingum á starfseminni. Hér má einnig nefna hugmyndir um breytingar á skattalögum, hvort sem um er að ræða sérstakan eigna- eða fjármagnstekjuskatt á sjóðina. Undir þessa áhættu flokkast einnig tjón sem kann að verða vegna þrýstings frá stjórnvöldum eða öðrum aðilum sem geta haft neikvæð áhrif á starfsemi sjóðanna. Hér má t.d. nefna hugmyndir um að sjóðirnir fjárfesti í óarðbærum verkefnum á vegum hins opinbera, svo og að sjóðirnir gefi eftir innheimtanlegar kröfur.