Lífeyrisgreiðslur á árinu stefna í níu milljarða

6. sep. 2013

Lífeyrisgreiðslur Lífeyrissjóðs verzlunarmanna stefna í að verða allt að níu milljörðum króna á árinu miðað við greiðslur á fyrri helmingi ársins. Fyrstu sex mánuðina voru greiddir 4,2 milljarðar króna í lífeyri til tæplega 12 þúsund lífeyrisþega. Á sama tímabili síðasta árs voru lífeyrisgreiðslur 3,7 milljarðar til 11 þúsund lífeyrisþega.

Lífeyrisgreiðslur Lífeyrissjóðs verzlunarmanna stefna í að verða allt að níu milljörðum króna á árinu miðað við greiðslur á fyrri helmingi ársins. Fyrstu sex mánuðina voru greiddir 4,2 milljarðar króna í lífeyri til tæplega 12 þúsund lífeyrisþega. Á sama tímabili síðasta árs voru lífeyrisgreiðslur 3,7 milljarðar til 11 þúsund lífeyrisþega.

Sé gert ráð fyrir að síðari hluta ársins verði lífeyrisgreiðslur sambærilegar við fyrri hlutann fer heildarfjárhæðin nálægt níu milljörðum. Á fyrri árshelmingi voru lífeyrisgreiðslurnar 12,9% hærri en þær voru á fyrri árshelmingi 2012. Lífeyrisþegum fjölgaði hins vegar um 7,3% á sama tíma. Þetta bendir til að meðalfjárhæð lífeyris á hvern lífeyrisþega hafi verið hærri á þessu ári, en 2012.

Iðgjaldagreiðslur sjóðfélaga á fyrri árshelmingi námu 8,9 milljörðum króna, sem er hækkun um 5,8% miðað við sama tímabil í fyrra. Sjóðfélagar sem greiddu iðgjöld voru samtals um 43 þúsund.

Þessar upplýsingar eru á meðal þeirra sem koma fram í yfirlitum til sjóðfélaga um stöðu þeirra hjá sjóðnum, en yfirlitin verða póstsend til þeirra innan skamms.