Um opnun vinnumarkaða - erlent

14. jún. 2013

„Þau ríki sem hafa staðið best af sér fjármálakreppuna eru þau sem tekist hefur best að sameina sveigjanleika á vinnumarkaði og starfsöryggi fólks.“ Í þessum orðum felst kjarni máls í grein sem Ben Noteboom skrifar í nýútkomna árbók OECD 2013. Noteboom er forstjóri næst stærsta vinnumiðlunarfyrirtækis heims, hins hollenska Randstad Holdings nv. Grein hans ber yfirskriftina „Making labour markets inclusive“ sem mætti þýða Opnun vinnumarkaða. Hér á eftir stiklum við á aðalatriðum í þessari athyglisverðu grein.

„Þau ríki sem hafa staðið best af sér fjármálakreppuna eru þau sem tekist hefur best að sameina sveigjanleika á vinnumarkaði og starfsöryggi fólks.“ Í þessum orðum felst kjarni máls í grein sem Ben Noteboom skrifar í nýútkomna árbók OECD 2013. Noteboom er forstjóri næst stærsta vinnumiðlunarfyrirtækis heims, hins hollenska Randstad Holdings nv. Grein hans ber yfirskriftina „Making labour markets inclusive“ sem mætti þýða Opnun vinnumarkaða. Hér á eftir stiklum við á aðalatriðum í þessari athyglisverðu grein.

Lýðfræðileg tímasprengja

„Á þessum tímum viðvarandi atvinnuleysis, er alltof auðvelt að missa sjónir af veigamesta einstaka þættinum í þróun vinnumarkaðarins til lengri tíma litið: Það er hin lýðfræðilega tímasprengja í hinum þróaðri ríkjum. Mest krefjandi viðfangsefnið á vinnumarkaðnum verður svo sannarlega ekki að fást við offramboð af vinnuafli, heldur skort á því,“ segir Ben Noteboom (BN).

Vantar 25 milljón manns

Hann bendir á að í Bandaríkjunum þurfi 25 milljónum fleiri starfsmenn en nú árið 2030 til þess að viðhalda vexti efnahagslífsins. Í Evrópu blasi við að árið 2050 vanti 35 milljónir manna á vinnumarkaðinn – það samsvari 15% af þörfinni fyrir vinnuafl. Auk þessa, segir BN, sjáum við fram á verulega fækkun starfa fyrir þann hluta vinnuaflsins, sem kalla má faglærða (þó ekki sérfræðinga, e.: „mid skilled labour segment“) um 2020 Þennan hluta vinnuaflsins kallar hann „aðþrengdu miðjuna.“ „Skortur og ofgnótt vinnuafls af þessari stærðargráðu munu augljóslega hafa alvarlegar afleiðingar fyrir efnahagsvöxt; þegar við höfum í huga kostnað við velferðarkerfið í samfélögum þar sem meðalaldur hækkar stöðugt, fer þetta ójafnvægi að líta út sem örugg uppskrift að efnahagslegum hamförum,“ segir Noteboom.

Aðlögunar þörf

Vinnumarkaðir verði augljóslega að laga sig að þessum breyttu aðstæðum, ef efnahagskerfin eigi áfram að vera samkeppnishæf. Óhjákvæmilegt sé að innleiða umbætur á lífeyriskerfum, auka verði hreyfanleika vinnuafls (á milli svæða, landa) og um leið framleiðni til að draga úr eftirspurn eftir vinnuafli. En eitt lykilatriði enn þarfnast skoðunar, fljótt og ítarlega, segir Noteboom, það er að opna vinnumarkaðinn enn frekar, gera hann einsleitari og fjarlægja hindranir.

Og hann skýrir nánar hvað hann á við með opnun vinnumarkaðarins. Opinn vinnumarkaður leyfi og hvetji til að fólk á vinnualdri taki að sér launuð störf og setji ramma um þróun markaðarins. Í samtímanum búi hópar eins og konur, ungt fólk, eldra starfsfólk og ófaglærðir við mikið atvinnuleysi í mörgum greinum og á mörgum svæðum. Markmiðið sé þess vegna að virkja hæfileika og krafta þessara vannýttu hópa þannig að þeir geti tekið þátt í og um leið notið góðs af að knýja efnahagslegan vöxt samfélagsins. Opnari vinnumarkaður sé eitt helsta markmiðið í stefnumótun Evrópusambandsins, Evrópa 2020, um að auka atvinnuþátttöku. Þessi markmið, um hindranalausari og sjálfbæran vöxt vinnumarkaðarins fela meðal annars í sér, segir Noteboom, að brottfall úr skólum minnki úr 13,5% (eins og nú er) niður fyrir 10% og að hækka hlutfall þeirra sem hafa lokið námi á háskólastigi á aldrinum 30-34 ára í 40% úr 34,6% nú. Markmiðið er, segir hann, að auka atvinnuþátttöku fólks á aldrinum 20-64 ára úr 68,6% eins og nú í 75% árið 2020.

Vantar sérhæft starfsfólk

En, segir Noteboom, aukin atvinnuþátttaka ein og sér dugir ekki til að tryggja opnun og sjálfbæran vöxt. Mikið framboð vinnuafls dugar ekki ef skortur er á þeirri menntun, þjálfun og sérhæfingu sem krafist er í vaxandi mæli. BN vísar svo til rannsóknar sem fyrirtæki hans gerði 2012 og sýndi að jafnvel í því mikla atvinnuleysi sem nú ríkir víða um heim eiga atvinnurekendur erfitt með að finna hæft starfsfólk á þeim sviðum sem þeir þurfa. Fólk er í miklum mæli menntað og þjálfað á sviðum sem ekki koma að notum. Á næstu árum fram til 2020 mun í vaxandi mæli verða vart við skort á sérhæfðu starfsfólki, jafnt í Evrópu sem Bandaríkjunum, segir BN, sérstaklega í heilbrigðisgreinum, raunvísindagreinum, verkfræði, byggingatækni, viðskiptum og viðhalds- og viðgerðagreinum. Samtímis er vaxandi vandi á höndum flestra þeirra 45 milljóna manna sem koma inn á vinnumarkaði heimsins – margt af þeim ófaglært og  óþjálfað fólk frá þróunarlöndunum – starfshæfni, eða skortur á henni, verður áfram risavaxinn vandi. Starfsfólk úr minnkandi hefðbundnum atvinnugreinum eins og verksmiðjuframleiðslu og landbúnaði stendur frammi fyrir sambærilegum hindrunum fyrir að flytjast til starfa í vaxandi nýjum greinum eins og upplýsingatækni og viðskiptum, greinum sem krefjast mikillar færni og þjálfunar.

Misræmi fylgir sóun

Ljóst er, segir Noteboom, að þetta mikla misræmi á framboði og eftirspurn vinnuafls er gríðarlega mikil sóun á mannauði og veruleg hindrun fyrir raunverulegan vöxt inn á við með opnun vinnumarkaðarins. Til að tryggja sjálfbæran efnahagslegan vöxt, verðum við því að opna leiðir til að jafna framboð og eftirspurn, jafnt vinnuaflsins sem slíks en einnig á milli greina þannig að fólk eigi auðveldara með að færa sig á milli greina og svæða og eigi auðveldara með að afla sér þjálfunar og menntunar við hæfi. Í því felst opnun vinnumarkaðarins, að ryðja hindrunum úr vegi og það sé algjörlega nauðsynlegt til að koma í veg fyrir alvarlega kreppu innan fárra ára. Kreppu sem stafi af samspili atvinnuleysis og skorts á hæfu vinnuafli.

Þessi grein er byggð á greininni „Making labour markets inclusive“ eftir Ben Noteboom, forstjóra Randstad Holding nv. Greinin birtist í árbók Efnahags- og framfarastofnunarinnar, OECD, fyrir árið 2013 og er nýkomin út. Lesa má greinina hér.  Randstad er vinnumiðlunarfyrirtæki með aðalstöðvar í Hollandi, en 4.700 starfsstöðvar í 40 löndum. Starfsmenn fyrirtækisins eru um 29 þúsund og fyrirtækið hefur á sínum snærum 576 þúsund manns í störfum fyrir hin ýmsu fyrirtæki og stofnanir víða um heiminn.

Þau viðhorf sem koma fram í greininni eru frá höfundinum, Ben Noteboom, komin og eru birt hér til fróðleiks, en endurspegla hvorki viðhorf né stefnu Lífeyrissjóðs verzlunarmanna.