FME birtir gagnsæistilkynningu um Lífeyrissjóð verzlunarmanna

6. jún. 2013

Fjármálaeftirlitið hefur lokið athugun á lánveitingum sjóðsins til einstaklinga og birt niðurstöðu sína á vef eftirlitsins. Þar segir: „Að mati Fjármálaeftirlitsins eru fyrrgreindar lánveitingar lífeyrissjóðsins í samræmi við gildandi lög og fjárfestingarheimildir lífeyrissjóða.“ Jafnframt er tekið fram að í ljós hafi komið að lánveitingarnar hafi í einstökum tilvikum ekki að öllu leyti verið í samræmi við lánareglur sjóðsins. Þá er tekið fram að Lífeyrissjóður verzlunarmanna hafi þegar gert Fjármálaeftirlitinu grein fyrir með hvaða hætti þeim ábendingum eftirlitsins verði mætt.

Fjármálaeftirlitið hefur lokið athugun á lánveitingum sjóðsins til einstaklinga og birt niðurstöðu sína á vef eftirlitsins. Þar segir: „Að mati Fjármálaeftirlitsins eru fyrrgreindar lánveitingar lífeyrissjóðsins í samræmi við gildandi lög og fjárfestingarheimildir lífeyrissjóða.“ Jafnframt er tekið fram að í ljós hafi komið að lánveitingarnar hafi í einstökum tilvikum ekki að öllu leyti verið í samræmi við lánareglur sjóðsins. Þá er tekið fram að Lífeyrissjóður verzlunarmanna hafi þegar gert Fjármálaeftirlitinu grein fyrir með hvaða hætti þeim ábendingum eftirlitsins verði mætt.

 Tilkynning Fjármálaeftirlitsins fer hér á eftir í heild.

„Fjármálaeftirlitið hefur framkvæmt athugun á lánveitingum Lífeyrissjóðs verzlunarmanna til einstaklinga, með vísan til 44. gr. laga nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða og 9. gr. laga nr. 87/1998, um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.

Athugunin var framkvæmd á fyrsta ársfjórðungi 2013 með öflun gagna vegna 20 stærstu útlána lífeyrissjóðsins til einstaklinga og fyrirspurnum í tengslum við þau gögn. Niðurstaða athugunarinnar er byggð á þeim upplýsingum sem aflað var og miðast við stöðuna á þeim tíma sem athugunin fór fram.

Að mati Fjármálaeftirlitsins eru fyrrgreindar lánveitingar lífeyrissjóðsins í samræmi við gildandi lög og fjárfestingarheimildir lífeyrissjóða.

Athugunin leiddi þó í ljós að lánveitingarnar voru í einstökum tilvikum ekki að öllu leyti í samræmi við lánareglur lífeyrissjóðsins. Ósamræmi reyndist vera á milli ákvæða í lánareglum lífeyrissjóðsins og heimilda til fjárfestinga í fasteignaveðtryggðum skuldabréfum samkvæmt fjárfestingarstefnu. Samkvæmt lánareglum mega áhvílandi uppreiknaðar veðskuldir að viðbættu láni sjóðsins ekki vera umfram 65% af markaðsverði þeirrar fasteignar sem lögð er að veði en samkvæmt fjárfestingarstefnu er hlutfallið 75%. Athugun Fjármálaeftirlitsins leiddi í ljós lán þar sem veðsetningarhlutfall var utan heimilda lánareglna en innan heimilda fjárfestingarstefnu. Fjármálaeftirlitið beindi því til sjóðsins að haga framkvæmd við lánveitingar ávallt í samræmi við settar lánareglur.

Lífeyrissjóður verzlunarmanna hefur nú þegar gert Fjármálaeftirlitinu grein fyrir með hvaða hætti ábendingum eftirlitsins verði mætt.

Í samræmi við 9. gr. a laga nr. 87/1998, um opinbert eftirliti með fjármálastarfsemi, og gagnsæisstefnu Fjármálaeftirlitsins birtir stofnunin hér með opinberlega niðurstöðu nefndrar athugunar.“

Sjá má frétt FME um málið hér.