Fleiri eða færri kosti til lántöku?

27. mar. 2013

Formenn stjórnmálaflokka hafa undanfarið í aðdraganda alþingiskosninga gefið ýmsar yfirlýsingar sem varða starfsemi lífeyrissjóðanna og hagsmuni sjóðfélaga þeirra. Þar á meðal eru fullyrðingar þess efnis að lífeyrissjóðirnir eigi ekki að vera á markaði fyrir lán til íbúðakaupa. Væntanlega er þá átt við lán, sem í daglegu tali nefnast lífeyrissjóðslán eða sjóðfélagalán. Af þessu tilefni vill Lífeyrissjóður verzlunarmanna koma eftirfarandi á framfæri.

Formenn stjórnmálaflokka hafa undanfarið í aðdraganda alþingiskosninga gefið ýmsar yfirlýsingar sem varða starfsemi lífeyrissjóðanna og hagsmuni sjóðfélaga þeirra. Þar á meðal eru fullyrðingar þess efnis að lífeyrissjóðirnir eigi ekki að vera á markaði fyrir lán til íbúðakaupa. Væntanlega er þá átt við lán, sem í daglegu tali nefnast lífeyrissjóðslán eða sjóðfélagalán. Af þessu tilefni vill Lífeyrissjóður verzlunarmanna koma eftirfarandi á framfæri.

Þjónusta um áratugi

Lífeyrissjóður verzlunarmanna hefur ásamt öðrum lífeyrissjóðum í landinu veitt sjóðfélögum sínum sjóðfélagalán í áratugi. Þær lánveitingar hafa notið vinsælda og hjálpað mörgum að fjármagna kaup á íbúðarhúsnæði. Af heildareignum LV um síðustu áramót voru um 9% sjóðfélagalán eða 39 milljarðar króna hjá 7,500 lántakendum.

Lágir vextir

Sjóðfélagar lífeyrissjóðanna, sem eru í reynd allir landsmenn 16 ára og eldri, hefðu vafalítið  þörf fyrir að vita hver hugsunin er á bak við yfirlýsingar stjórnmálamanna sem tala nú um að lífeyrissjóðirnir eigi ekki að vera á markaði fyrir lán til íbúðakaupa. Hingað til hefur verið talið til bóta að fólk hafi um fleiri kosti að velja en Íbúðalánasjóð og viðskiptabankana þegar kemur að lántökum til húsnæðiskaupa. Þar við bætist að lífeyrissjóðirnir hafa jafnan leitast við að bjóða samkeppnisfær lánskjör. Vextir hjá Lífeyrissjóði verzlunarmanna eru nú lægri en hjá Íbúðalánasjóði svo dæmi sé tekið.

Stjórnarskrárvarinn eignarréttur

Lífeyrissjóðirnir hafa einnig legið undir gagnrýni fyrir að “... hafa ekki sýnt samstarfsvilja vegna lækkunar á lánum þeirra sem eru í vandræðum.” Um þá gagnrýni er það að segja, sem raunar hefur margítrekað komið fram, að ástæðan er einfaldlega sú að sjóðirnir hafi ekki heimild til að ráðstafa eignum sjóðfélaganna með þeim hætti. Lífeyrissjóðir hafa það hlutverk að greiða fólki lífeyri sem það hefur áunnið sér yfir langan tíma og um réttindi sjóðfélaga til lífeyris gilda ákvæði um eignarrétt sem varin eru í stjórnarskrá. Þess vegna hefur ekki verið heimilt samkvæmt lögum að fella niður kröfur á hendur sjóðfélögum enda væri þá verið að ráðstafa lífeyrisréttindum sumra sjóðfélaga fyrir aðra.