Hlutabréfin gáfu vel af sér

23. mar. 2013

Eftirfarandi frétt birtist í Morgunblaðinu 22. mars 2013 um afkomu Lífeyrissjóðs verzlunarmanna, byggt á viðtali við Helga Magnússon stjórnarformann sjóðsins í framhaldi af ársfundi.

Eftirfarandi frétt birtist í Morgunblaðinu 22. mars 2013 um afkomu Lífeyrissjóðs verzlunarmanna, byggt á viðtali við Helga Magnússon stjórnarformann sjóðsins í framhaldi af ársfundi.

„Fyrir lífeyrissjóð er langtímaárangur það sem mestu varðar," segir Helgi Magnússon, formaður stjórnar Lífeyrissjóðs verzlunarmanna. Nýr samanburður á raunávöxtun innlendrar hlutabréfaeignar lífeyrissjóðsins leiðir í ljós að raunávöxtun af hlutafjáreign sjóðsins allt frá árinu 1980 til dagsins í dag var að meðaltali 8,7% á ári. Helgi greindi frá þessu í ræðu sinni á ársfundi sjóðsins sem haldinn var í vikunni. Hann segir í samtali við Morgunblaðið að því verði ekki á móti mælt að þetta sé gríðarlega góður árangur.

Eðli markaða að sveiflast

Lífeyrissjóður verzlunarmanna hóf kaup á hlutabréfum í íslenskum fyrirtækjum árið 1980 þó ekki væri um auðugan garð að gresja á þeim tíma. „Lífeyrissjóður verzlunarmanna hefur alltaf verið mjög áhugasamur og virkur þátttakandi í hlutabréfakaupum hér á landi,  bæði á tímum uppsveiflna og niðursveiflna. Þegar þetta er allt metið er niðurstaðan sú að raunávöxtunin er 8,7% að meðaltali á ári í 33 ár," segir Helgi.

Í ræðu sinni á ársfundinum sagði hann að mönnum væri Ijóst að í fjárfestingum fælist áhætta og að það væri eðli markaða að sveiflast. En fyrir lífeyrissjóð skipti langtímaárangur mestu máli. „Þess vegna er 8,7% raunávöxtun að meðaltali á ári yfir aldarþriðjungstímabil af íslenskum hlutabréfafjárfestingum mikilvæg staðreynd og góð hvatning."

Þessi árangur vekur ekki síst athygli í ljósi þess höggs sem lífeyrissjóðirnir urðu fyrir  í hruninu en skv. úttekt nefndar sem skipuð var að ósk Landssamtaka lífeyrissjóða, var heildartap íslensku lífeyrissjóðanna af innlendum hlutabréfum í hruninu um 198 milljarðar. Var þá mið tekið af markaðsvirði hlutabréfa í ársbyrjun 2008 og horft á tímabilið frá 2008 til 2010.

Helgi segir að nefndin hafi beint sjónum sínum að þröngu tímabili í kringum hrunið en það sem mönnum hafi mislíkað hafi verið fullyrðingar um að menn hefðu átt að sjá það fyrir að hér yrði hrun. „Það er auðvelt að vera vitur eftirá," segir hann. Helgi segir það  rétt að margir hafi lýst áhyggjum af fjárfestingum í þjóðfélagsumræðunni eftir hrunið og sagt lítið vit í að taka áhættu með hlutabréfakaupum en hann bendir á að lífeyrissjóður sé í eðli sínu langtímafjárfestir og árangurinn mældur á löngu tímabili. „Þá  verður hann að hafa vel markaða stefnu sem þolir sveiflur og áföll en þegar litið er yfir langan  tíma er aðalatriðið að góður árangur blasir við og hann verður okkur hvatning til dáða," segir Helgi.

Eins og fram hefur komið var afkoma lífeyrissjóðsins góð á seinasta ári og 8,5% raunávöxtun á eignasafninu. I árslok 2012 nam  innlend hlutabréfaeign sjóðsins 48,8 milljörðum kr. Fjárfest var fyrir 13,6 milljarða í innlendumhlutabréfum umfram sölu á árinu.

19% raunávöxtun 2012

Hlutabréf eru í dag um 12% af Eignum Lífeyrissjóðs verzlunarmanna og skiluðu góðri ávöxtun á seinasta ári. Nafnávöxtun skráðra hlutabréfa lífeyrissjóðsins var í fyrra 24,4% sem samsvarar 19% raunávöxtun. Helgi Magnússon nefnir sem dæmi að sjóðurinn greip tækifærið þegar honum bauðst að kaupa hlutabréf í lcelandair og á um 14% í félaginu í dag, sem hafa skilað góðri ávöxtun. Hið sama megi segja um kaup í Eimskip í fyrra, þar sem gengi hlutabréfa hefur hækkað um 30% frá þeim tíma. Hlutir í Marel og Össuri eru meðal stærstu eigna sjóðsins í skráðum hlutabréfum, sem hafa einnig reynst arðsamar. Helgi segir Ijóst af komu sjóðsins að mjög jákvætt sé á tímum gjaldeyrishaftanna að geta keypt í fyrirtækjum sem hafa erlent tekjustreymi, auk þess sem í því er fólgin áhættudreifing.