Afkoma sjóðsins 2012 mikið fagnaðarefni

23. mar. 2013

Afkoma Lífeyrissjóðs verzlunarmanna á síðasta ári er mikið fagnaðarefni fyrir okkur sjóðfélagana. 8,5% raunávöxtun á eignasafni sjóðsins er mikilvægur og góður árangur hvernig sem á það er litið. Íslenska lífeyrissjóðakerfið gekk vel á síðasta ári og fregnir herma að meðalraunávöxtun sjóðanna hafi orðið meira en 7% á árinu.

ÁRSFUNDUR LÍFEYRISSJÓÐS VERSLUNARMANNA

18. MARS 2013

RÆÐA HELGA MAGNÚSSONAR FORMANNS

Ágætu sjóðfélagar.

Afkoma Lífeyrissjóðs verslunarmanna á síðasta ári er mikið fagnaðarefni fyrir okkur sjóðfélagana. 8,5% raunávöxtun á eignasafni sjóðsins er mikilvægur og góður árangur hvernig sem á það er litið. Íslenska lífeyrissjóðakerfið gekk vel á síðasta ári og fregnir herma að meðalraunávöxtun sjóðanna hafi orðið meira en 7% á árinu.

Þetta er þeim mun betri árangur í ljósi þess að gjaldeyrishöftin bitna mjög á lífeyrissjóðunum og þrengja tækifæri þeirra til fjárfestinga. Sjóðirnir eru meðvitaðir um þetta og laga því starfsemi sína að þessum veruleika.

Eignasafn Lífeyrissjóðs verslunarmanna í árslok 2012 nam 402 milljörðum króna saman borið við 345 milljarða árið á undan. Á síðustu 4 árum hefur sjóðurinn vaxið úr 249 milljörðum í 402 milljarða króna eða um meira en 60% í krónum talið.

Góður árangur skiptir miklu máli því mikill fjöldi fólks á hagsmuna að gæta. Á liðnu ári greiddu 48 þúsund sjóðfélagar til Lífeyrissjóðs verslunarmanna og alls eiga 147 þúsund manns réttindi hjá sjóðnum. Mikill meirihluti sjóðfélaga er enn að byggja upp réttindi sín til lífeyris. Því eru inngreidd iðgjöld talsvert hærri fjárhæð en útgreiddur lífeyrir.

Á árinu 2012 greiddi sjóðurinn 11,330 sjóðfélögum lífeyri sem nam 8 milljörðum króna enda er það meginhlutverk sjóðsins að greiða lífeyri til sjóðfélaga á grundvelli réttinda sem þeir ávinna sér með greiðslu iðgjalda.

Í því sambandi skiptir tryggingarfræðileg staða sjóðsins meginmáli. Hún er sterk og batnaði á liðnu ári. Í árslok 2012 var tryggingarfræðileg staða Lífeyrissjóðs verslunarmanna metin – 0,4%, þ.e.a.s. nánast algjörlega í jafnvægi.

Góðir fundarmenn.

Við höfum orðið vör við mikla ánægju meðal sjóðfélaga og annarra með þá góðu ávöxtun sem Lífeyrissjóður verslunarmanna náði á síðasta ári og þá sterku stöðu sem sjóðurinn býr við. Fólki er léttir og menn fagna því að lífeyrissjóðirnir í landinu eru nú að ná sér verulega á strik og sækja fyrri styrk eftir þann mótbyr sem þeir mættu. Hlutverk sjóðanna hefur farið vaxandi á síðari árum og þeirra hlutverk er mikilvægt og verður áfram mikilvægt – fyrst og fremst til að tryggja sjóðfélögum lífeyri og einnig á sviði fjárfestinga í þjóðfélagi sem þarf að byggja upp að nýju og endurræsa með markvissum hætti.

Áhættudreifing eignasafns sjóðsins er góð og samsetning þess traust – þrátt fyrir þær hömlur sem gjaldeyrishöft setja okkur. Lífeyrissjóður verslunarmanna er með 28% af eignum sínum í erlendum verðbréfum. Þessi hluti af eignasafni sjóðsins gaf honum góða arðsemi á árinu 2012. Heildarfjárfestingartekjur sjóðsins á liðnu ári námu 47 milljörðum króna. Þar af voru 23 milljarðar vegna erlendu eignanna. Rúmur fjórðungur af tekjum af erlendu eignunum var vegna gengisbreytinga á íslensku krónunni en þrír-fjórðu hlutar afkomunnar vegna hækkunar á erlendum verðbréfum í erlendri mynt. Þetta sýnir mikilvægi þess að geta dreift áhættu sjóðsins og ávaxtað góðan hluta af eignasafninu erlendis. Við vildum auðvitað sjá stærra hlutfall eigna sjóðsins ávaxtað i öðrum hagkerfum en hinu íslenska – sem hefur reynst okkur Íslendingum svona og svona. En það er ekki í boði sem stendur. Gjaldeyrishöft eru örlög okkar og lífeyrissjóðir verða að laga sig að þeirri stöðu þar til – og ef – annað kemur á daginn.

Dreifing eigna Lífeyrissjóðs verslunarmanna um síðustu áramót var þannig að 29% voru í innlendum ríkistryggðum skuldabréfum, 10% í safni sjóðfélagalána, 9% í bankainnstæðum, önnur innlend skuldabréf námu 12%, erlend verðbréf 28% og innlend hlutabréf 12%. Þannig nam eign sjóðsins í innlendum hlutabréfum 49 milljörðum króna en þau gáfu af sér tekjur sem námu einnig 12% af fjárfestingartekjum sjóðsins á árinu 2012.

Vakin er athygli á þessu sérstaklega í ljósi þess að þeir sem velja að  gera ávalt lítið úr því sem vel tekst hjá lífeyrissjóðunum hafa svarað því til um góða arðsemi á síðasta ári að ástæðan sé einföld: Þessi góða raunávöxtun stafi einungis af veikingu krónunnar og óhóflegri gengishækkun íslenskra hlutafélaga - sem sé ekkert nema froða.

Af heildarfjárfestingartekjum Lífeyrissjóðs verslunarmanna árið 2012, sem nema 47 milljörðum króna, eru 6 milljarðar vegna gengisbreytingar krónunnar og 5,7 milljarðar króna af innlendum hlutabréfum. Þessar staðreyndir tala sínu máli og svara með afgerandi hætti ómaklegri gagnrýni um að góð arðsemi lífeyrissjóðanna sé ekkert nema froða.

Í ljósi þessa er einnig ánægjulegt að geta upplýst hér að Lífeyrissjóður verslunarmanna hefur látið taka saman yfirlit yfir RAUNÁVÖXTUN innlendrar hlutabréfaeignar sjóðsins AÐ MEÐALTALI Á ÁRI frá því sjóðurinn fór fyrst að fjárfesta í íslenskum hlutabréfum árið 1980 og til dagsins í dag. Þá er tekið tillit til alls sem gengið hefur á. Það hafa verið uppsveiflur og áföll og allt þar á milli. En niðurstaðna er sú að innlend hlutabréfafjárfesting Lífeyrissjóðs verslunarmanna frá árinu 1980 til dagsins í dag hefur skilað 8,7% RAUNÁVÖXTUN Á ÁRI AÐ MEÐALTALI.

Hér eru á ferðinni mikilvæg tíðindi sem sýna að þeir sem hafa mótað stefnu Lífeyrissjóðs verslunarmanna og stýrt honum síðustu áratugina hafa sýnt framsýni og fagmennsku.

Við þurfum að gera okkur þetta ljóst og þessar staðreyndir þurfa að hvetja okkur til dáða og hvetja lífeyrissjóðinn til þess að leita áfram arðsamra tækifæra til að fjárfesta í íslensku atvinnulífi með hagkvæmum hætti til hagsbóta fyrir sjóðfélagana. Við vitum að í fjárfestingum felst áhætta og við vitum að það er eðli markaða að sveiflast. En fyrir lífeyrissjóð er langtímaárangur það sem mestu varðar. Þess vegna er 8,7% raunávöxtun að meðaltali á ári yfir aldarþriðjungstímabil af íslenskum hlutabréfafjárfestingum mikilvæg staðreynd og góð hvatning.

Lífeyrissjóður verslunarmanna hefur gripið þau tækifæri hér á landi sem hafa boðist og reynst vænleg. Það er stefna núverandi stjórnar að halda áfram að fylgjast með og meta þau tækifæri sem upp kunna að koma.

En hvar liggja þessi tækifæri núna og til næstu ára litið?

Þau liggja sem betur fer víða í íslensku atvinnulífi. T.d. í orkuframleiðslu og margs konar iðnaði, í sjávarútvegi, umbótaverkefnum með opinberum aðilum og í bankakerfinu sem verður að komast í eigu íslendinga að hluta eða öllu leyti sem fyrst.

Það er ekki síst mikilvægt að lífeyrissjóðunum takist að fjárfesta í íslenskum atvinnufyrirtækjum sem hafa erlent tekjustreymi, einkum á meðan gjaldeyrishöft þrengja fjárfestingakosti þeirra. Lífeyrissjóður verslunarmanna hefur gert þetta með markvissum hætti eins og sjá má af því að um síðustu áramót var yfir 80% af verðmæti innlendra hlutabréfa sjóðsins í íslenskum fyrirtækjum með erlent tekjustreymi. Það á t.d. við um Össur, Marel, Icelandair, Eimskip, Granda og fyrirtæki í eigu Framtakssjóðs Íslands.

Þó að við trúum því mörg að lífeyrissjóðirnir hafi mikilvægu hlutverki að gegna í fjárfestingum íslenskra fyrirtækja, þá skulum við gera okkur ljóst að um það eru skiptar skoðanir í samfélaginu. Það á ekki síst við um það álitaefni hvort opinberir aðilar eigi að selja fyrirtæki í sinni eigu að hluta að öllu leyti. Þá er ég að tala um fyrirtæki sem hið opinbera þarf ekki nauðsynlega að eiga og gæti þess vegna selt til að létta á skuldum ríkis og sveitarfélaga.

Í þessu sambandi langar mig að vitna í það sem ég sagði um þetta á ársfundi Lífeyrissjóðs verslunarmanna fyrir einu ári en ég tel að það sé enn í fullu gildi:

„Það hlýtur að koma til alvarlegrar skoðunar að ríkissjóður selji hluta af öflugum fyrirtækjum í ríkiseigu, svo sem Landsvirkjun, Landsnet, Rarik, Fríhöfnina og Flugstöðina í Keflavík.

Hér er auðvitað verið að tala um að lífeyrissjóðir geti hugsanlega fjárfest í hlutabréfum í einhverjum þessara fyrirtækja með öðrum fjárfestum. Hugsunin er alls ekki sú að þeir eigi að eignast fyrirtækin eins og stundum er talað um þegar lífeyrissjóðir eru gagnrýndir fyrir að kaupa hluti í íslenskum fyrirtækjum.

Vissulega er vandlifað í smáu samfélagi hvað þetta varðar en sjóðirnir voru gagnrýndir fyrir að taka ekki þátt í að endurreisa samfélagið á sínum tíma en þegar þeir stíga fram og fjárfesta eru þeir einnig gagnrýndir fyrir að gerast þátttakendur.

Lífeyrissjóðirnir verða að hafa kjark til að fjárfesta þar sem tækifærin gefast ef þau eru vænleg til árangurs út frá hagsmunum sjóðfélaganna.“

Ágætu sjóðfélagar.

Íslensku bankarnir eru meðal þeirra fjárfestingarverkefna sem hljóta að koma til álita hjá lífeyrissjóðunum á næstunni. Mikilvægt er að Íslandsbanki og Arion Banki, sem eru nú að mestu í eigu erlendra kröfuhafa, komist fyrr en seinna í eigu Íslendinga. Verði af því má ætla að lífeyrissjóðir verði meðal fjárfesta. Landsbankinn er í eigu ríkissjóðs sem ætla má að muni selja stóran hlut í bankanum á næstu árum, nema honum verði ætlað annað hlutverk en nú er.

Verði forsendur réttar, gætu fjárfestingar lífeyrissjóða í bankakerfinu orðið áhugaverðar. Því má samt ekki gleyma að sporin hræða og það verður að fara að öllu með gát. Af hálfu Lífeyrissjóðs verslunarmanna stendur ekki annað til en að skoða alla kosti af fullri yfirvegun. Það er mörkuð stefna stjórnarinnar.

Við teljum að óráðlegt sé að breyta nú um eignarhald á þremur stóru bönkunum hér á landi án þess að samhliða fari fram uppstokkun í bankakerfinu. Ég hef haldið fram þeirri skoðun að það þurfi að hagræða og að Íslendingar þurfi 2 stóra banka en ekki 3 eftir að breytingar á eignarhaldi og nauðsynleg hagræðing hefur farið fram. Það er raunar í anda þeirrar merku skýrslu sem McKinsey birti um íslenskt atvinnulíf á síðasta ári þar sem lýst var þeim meginvanda að offjárfesting einkenndi flestar greinar viðskiptalífsins og að það þyrfti að verða forgangsverkefni okkar á næstu misserum og árum að vinda ofan af því. Þessi staðhæfing á ekki síður við um fjármálamarkaðinn en annað.

Fjármálakerfi landsins er of stórt og of dýrt. Um það sagði dr. Ásgeir Jónsson, lektor í hagfræði við Háskóla Íslands, í blaðaviðtali þann 12. mars sl.: „Í hnotskurn er vandinn sá að það er enn of mikið af fólki og fjármagni bundið í fjármálageiranum.“ Átti hann þá m.a. við að bankarnir hefðu yfir að ráða of miklu lausafé og hefðu of mikið eigið fé og að sú staða byði hættum heim.

Á vef Viðskiptablaðsins birtist í lok síðustu viku frétt um að Ingólfur Guðmundsson, fyrrum framkvæmdastjóri í Landsbankanum, hafi tekið saman skýrslu um íslenska bankakerfið þar sem hann hreyfir athyglisverðum hugmyndum. Hann er sammála Ásgeiri um að bankakerfið sé allt of stórt og dýrt og að nú vanti ráðdeild og hagræðingu. Hann telur einsýnt að framundan sé næsta skref í endurskipulagningu bankakerfisins og telur að brýnast sé að til takist með þeim hætti að „umfang bankakerfisins verði ekki áfram ofvaxið þörfum landsmanna“, eins og hann segir orðrétt í lok skýrslu sinnar.

Ingólfur talar í skýrslu sinni fyrir endurskipulagningu og segir m.a.: „Ef við ætlum að ná að byggja upp samkeppnishæft bankakerfi er nauðsynlegt að sameina einingar, koma á auknu samstarfi um rekstur upplýsingakerfa og fækka starfsfólki.“

Hann hreyfir þeirri hugmynd að Landsbankanum verði breytt í heildsölubanka sem seldi frá sér viðskiptabankastarfsemina og gerbreytti þannig um hlutverk. Hann gæti tekið yfir starfsemi Íbúðalánasjóðs, sem er ríkissjóði til mikillar íþyngingar, og einnig aðra sjóði á vegum ríkisins eins og Lánasjóð íslenskra námsmanna, Byggðastofnun o.fl. Ýmis fleiri hlutverk í endurskipulögðu bankakerfi mætti fela bankanum. Ingólfur telur að með réttum vinnubrögðum væri unnt að gera enn meira verðmæti úr eignastöðu ríkissjóðs í bankanum en yrði með hefðbundinni sölu hlutabréfa á markaði í óbreyttum Landsbanka.

Ég nefni þetta sem dæmi um það að við nauðsynlega uppstokkun bankakerfisins þarf að hugsa út fyrir rammann og hleypa að ferskum hugmyndum.

Endurskipulagðir bankar geta orðið vænlegir fjárfestingarkostir fyrir íslensku lífeyrissjóðina.

Ágætu sjóðsfélagar.

Ég vil að lokum nefna eftirfarandi.

Í þjóðfélagsumræðunni verður vart við hugmyndir um að banna verðtryggingu og halda ýmsir því fram að bann við verðtryggingu yrði mikið áfall fyrir lífeyrissjóðina. Ljóst er að verðtrygging verður ekki bönnuð eða hömlur reistar gegn henni nema þá fram á veginn. Útilokað er að sett verði afturvirk lög um afnám verðbóta á verðtryggðar kröfur. Það væri einfaldlega brot á eignarréttarákvæðum stjórnarskrárinnar. Fari svo að verðtrygging verði bönnuð, þá er ljóst að lífeyrissjóðir geta ekki verðtryggt lífeyri sjóðfélaga sem kæmi sér illa fyrir fólkið. Í þessu máli eru engir þættir einfaldir og ljóst er að umræða um þetta stóra mál verður að vera vönduð og málefnaleg en ekki í upphrópanastíl á kosningaári eins og við verðum nú vitni að. Hvað sem verður, munu lífeyrissjóðirnir aðlaga sig þeim reglum sem verða settar og eru í gildi hverju sinni.

Einnig hefur borið á því að lífeyrissjóðirnir hafa verið ásakaðir um að vilja ekki greiða götu heimila í vanda með niðurfellingum skulda. Því hefur verið svarað allan tímann þannig að sjóðunum sé óheimilt að fella niður skuldir. Lög heimila það ekki enda væri með niðurfellingu eða lækkun á skuldum sumra sjóðfélaga verið að ráðstafa lífeyri annarra og það er ekki heimilt. Lífeyrisréttindi eru eign sem varin er í stjórnarskrá landsins og því eru heimildir til leiðréttinga ekki fyrir hendi. Höfum í huga í þessu samhengi að hjá Lífeyrissjóði verslunarmanna eru 7.500 sjóðfélagar með sjóðfélagalán – en heildarfjöldi þeirra sem eiga réttindi er 147.000.

Góðir fundarmenn.

Íslenska lífeyrissjóðakerfið er í allra fremstu röð í heiminum. Stærð þess nemur nú um 140% af landsframleiðslu sem er heldur hærra hlutfall en Svisslendingar og Hollendingar státa af en þeir hafa verið fremstir allra þjóða að þessu leyti um árabil. Nú erum við að síga fram úr þeim bestu og segir það sína sögu.

Kostnaður við rekstur kerfisins hér á landi er lágur í alþjóðlegum samanburði þó enn sé rúm fyrir frekari hagræðingu sem gæti leitt af áframhaldandi sameiningum sjóða sem vonandi gerist með auknum þunga.

Lífeyrissjóðirnir eru kjölfesta í samfélagi okkar og þeir munu áfram gegna lykilhlutverki. Það er mikil gæfa að Íslendingar skuli hafa komið á þessu kerfi og eflt það með þeim hætti sem við þekkjum.

Við sjóðfélagar í Lífeyrissjóði verslunarmanna megum vera stolt af okkar sjóði og við skulum standa vörð um hann.

Takk fyrir.