8,7% raunávöxtun á ári í aldarþriðjung

18. mar. 2013

„Innlend hlutabréfafjárfesting Lífeyrissjóðs verslunarmanna frá árinu 1980 til dagsins í dag hefur skilað 8,7% raunávöxtun á ári að meðaltali". Þetta sagði Helgi Magnússon, formaður stjórnar Lífeyrissjóðs verzlunarmanna í ræðu sinni á ársfundi sjóðsins, sem haldinn var í dag á Grand Hótel Reykjavík.

„Innlend hlutabréfafjárfesting Lífeyrissjóðs verzlunarmanna frá árinu 1980 til dagsins í dag hefur skilað 8,7% raunávöxtun á ári að meðaltali". Þetta sagði Helgi Magnússon, formaður stjórnar Lífeyrissjóðs verzlunarmanna í ræðu sinni á ársfundi sjóðsins, sem haldinn var í dag á Grand Hótel Reykjavík.  
  Helgi hóf mál sitt með því að fagna sérstaklega góðri afkomu sjóðsins á liðnu ári. „8,5% raunávöxtun á eignasafni sjóðsins er mikilvægur og góður árangur hvernig sem á það er litið. Íslenska lífeyrissjóðakerfið gekk vel á síðasta ári og fregnir herma að meðalraunávöxtun sjóðanna hafi orðið meira en 7% á árinu“, sagði hann.

Traustar fjárfestingatekjur

Helgi rakti að af heildarfjárfestingatekjum Lífeyrissjóðs verzlunarmanna árið 2012, sem nema 47 milljörðum króna, séu 6 milljarðar vegna gengisbreytingar krónunnar og 5,7 milljarðar króna af innlendum hlutabréfum. „Þessar staðreyndir tala sínu máli og svara með afgerandi hætti ómaklegri gagnrýni um að góð arðsemi lífeyrissjóðanna sé ekkert nema froða,“ sagði hann.

8,7% á ári að meðaltali í 33 ár

„Í ljósi þessa er einnig ánægjulegt að geta upplýst hér,“ sagði Helgi, „að Lífeyrissjóður verzlunarmanna hefur látið taka saman yfirlit yfir raunávöxtun innlendrar hlutabréfaeignar sjóðsins að meðaltali á ári frá því sjóðurinn fór fyrst að fjárfesta í íslenskum hlutabréfum árið 1980 og til dagsins í dag. Þá er tekið tillit til alls sem gengið hefur á. Það hafa verið uppsveiflur og áföll og allt þar á milli. En niðurstaðan er sú að innlend hlutabréfafjárfesting Lífeyrissjóðs verzlunarmanna frá árinu 1980 til dagsins í dag hefur skilað 8,7% raunávöxtun á ári að meðaltali. Hér eru á ferðinni mikilvæg tíðindi sem sýna að þeir sem hafa mótað stefnu Lífeyrissjóðs verzlunarmanna og stýrt honum síðustu áratugina hafa sýnt framsýni og fagmennsku.“

Góð hvatning

„Við þurfum að gera okkur þetta ljóst og þessar staðreyndir þurfa að hvetja okkur til dáða og hvetja lífeyrissjóðinn til þess að leita áfram arðsamra tækifæra til að fjárfesta í íslensku atvinnulífi með hagkvæmum hætti til hagsbóta fyrir sjóðfélagana. Við vitum að í fjárfestingum felst áhætta og við vitum að það er eðli markaða að sveiflast. En fyrir lífeyrissjóð er langtímaárangur það sem mestu varðar. Þess vegna er 8,7% raunávöxtun að meðaltali á ári yfir aldarþriðjungstímabil af íslenskum hlutabréfafjárfestingum mikilvæg staðreynd og góð hvatning. Lífeyrissjóður verzlunarmanna hefur gripið þau tækifæri hér á landi sem hafa boðist og reynst vænleg. Það er stefna núverandi stjórnar að halda áfram að fylgjast með og meta þau tækifæri sem upp kunna að koma“ sagði Helgi Magnússon meðal annars í ræðu sinni á ársfundi sjóðsins.

Ársskýrsla 2012 á vefnum

Ársskýrsla Lífeyrissjóðs verzlunarmanna fyrir árið 2012 hefur verið birt á vef sjóðsins, þar er að finna greinargerðir um afkomuna á árinu ásamt ársreikningi sjóðsins.