Breytingar á samþykktum sjóðsins

16. maí 2006

Stjórn sjóðsins boðar til sjóðfélagafundar þriðjudaginn 20. júní kl. 17 á Grand Hóteli. Gerð verður grein fyrir breytingu á 9. gr. samþykkta sjóðsins.

Eftirfarandi breytingar verði á 9. gr. samþykktanna:

Grein 9.1. hljóði þannig:

Stjórn sjóðsins mótar fjárfestingarstefnu sjóðsins og sér um ráðstöfun á fjármagni hans og er henni skylt að ávaxta það með hliðsjón af þeim kjörum, sem best eru boðin á hverjum tíma, að teknu tilliti til áhættu og með hliðsjón af langtímaskuldbindingum sjóðsins.

Fjárfestingar sjóðsins og fjárfestingarstefna hans skulu vera í samræmi við heimildir laga og uppfylla allar þær kröfur um form og efni, sem gerðar eru í ófrávíkjanlegum ákvæðum laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nú VII. kafla l. nr. 129/1997, og bindandi stjórnvaldsfyrirmælum á hverjum tíma.

Breyting þessi taki gildi frá 1. júlí 2006.

Athugasemdir:

Fyrri málsgreinin er óbreytt 1. mgr. 9. gr. í núgildandi samþykktum sjóðsins að því undanskyldu að bætt hefur verið við málsgreinina að stjórnin móti fjárfestingarstefnu sjóðsins.

Í seinni málsgreininni er tekin upp almenn tilvísun til fjárfestingarheimilda lífeyrissjóða eins og hún kemur fram í ófrávíkjanlegum ákvæðum VII. kafla laga nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Í staðinn eru felldar brott greinar 9.1.1. til og með 9.1.11. í samþykktunum, þar sem teknar eru upp heimildir til ávöxtunar fjármuna lífeyrissjóðsins í einstökum tegundum fjárfestinga.

Breyting þessi er fyrst og fremst gerð af hagkvæmisástæðum til að stjórn sjóðsins þurfi ekki á hverjum tíma að standa að breytingum á samþykktum sjóðsins, ef gerðar verða breytingar á fjárfestingarheimildum lífeyrissjóða almennt samkvæmt lögum. Enda hlýtur sjóðurinn að vilja hafa í samþykktum sínum sömu heimildir til fjárfestinga og lög leyfa á hverjum tíma og ráðrúm innan þeirra heimilda til að marka fjárfestingarstefnu sína.

Þann 3. apríl s.l. samþykkti Alþingi breytingar á l. nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Með breytingunum var staðfest að lífeyrissjóði væri heimilt að stofna til samstarfs við þá aðila sem standa að sjóðnum um innheimtu iðgjalda fyrir þá samhliða innheimtu lífeyrissjóðsiðgjalda. Þá voru gerðar breytingar á nokkrum hlutfallstölum, sem fram koma í 36. gr. laganna, og varða fjárfestingarheimildir lífeyrissjóða í einstökum tegundum fjárfestinga. Almennt veðsetningarhlutfall fasteigna er hækkað úr 65% í 75% af metnu markaðsvirði fasteignar og eign lífeyrissjóðs í hlutabréfum fyrirtækja eða hlutabréfum og hlutdeildarskírteinum má vera allt að 60% af hreinni eign sjóðsins í stað 50% áður.

Í stað þess að leggja til breytingar á einstökum ákvæðum núgildandi gr. 9.1. í samþykktum sjóðsins er lögð til framangreind breyting um almenna tilvísun til ákvæða laganna eins og þau eru á hverjum tíma.