Alþjóðlegt átak til að auka fjármálalæsi - Erlent

20. des. 2012

Efnahags- og framfarastofnunin, OECD, hefur hrundið af stað viðamiklu fjölþjóðlegu átaksverkefni til að bæta fjármálalæsi almennings. Ástæðan er ekki síst sú, að skortur á fjármálalæsi er talinn veigamikill þáttur í að fjármálakreppur, ekki síst sú sem nú herjar á heiminn, verða dýpri en ella. Fyrsti hluti verkefnisins er ítarleg könnun á fjármálalæsi í 13 löndum. Ísland er á meðal þátttakenda í könnuninni og verða niðurstöður væntanlega birtar um miðjan janúar.

Efnahags- og framfarastofnunin, OECD, hefur hrundið af stað viðamiklu fjölþjóðlegu átaksverkefni til að bæta fjármálalæsi almennings. Ástæðan er ekki síst sú, að skortur á fjármálalæsi er talinn veigamikill þáttur í að fjármálakreppur, ekki síst sú sem nú herjar á heiminn, verða dýpri en ella. Fyrsti hluti verkefnisins er ítarleg könnun á fjármálalæsi í 13 löndum. Ísland er á meðal þátttakenda í könnuninni og verða niðurstöður væntanlega birtar um miðjan janúar.

Hvað er fjármálalæsi?

Fjármálalæsi er þýðing á hugtakinu „Financial literacy“ á ensku. Þetta orð er notað af Stofnun um fjármálalæsi (sjá fe.is) og þess vegna notað hér. Almennt orðuð skilgreining á fjármálalæsi gæti verið á þá leið, að gott fjármálalæsi auðveldi fólki að átta sig á gildi fjármálagerninga, eins og áhrifum skuldsetningar, áhrifum vaxta, þýðingu sparnaðar, tengsl afkomu og skulda, tengsl neyslu og sparnaðar, uppbyggingu og eðli mismunandi lífeyrisréttinda og svo mætti lengi telja. Þar með er fólk betur í stakk búið til að taka upplýstar og skynsamlegar ákvarðanir um fjárfestingar eða aðra fjármálagerninga og þar með bæta afkomu sína.

Fjármálalæsi hefur alloft verið kannað, þar á meðal hér á landi. Niðurstöðurnar eru margvíslegar og um leið misvísandi og hæpið að draga ályktun af þeim um getu almennings í hinum ýmsu löndum til að átta sig á atburðum og þróun mála á fjármálamörkuðum eða í eigin efnahag. Nýleg dæmi eru af rannsókn á fjármálalæsi Íslendinga annars vegar og hins vegar af rannsókn á fjármálalæsi í 11 Evrópulöndum.

Fjármálalæsi minnkar

Fréttavefurinn European Pensions sem er sérhæfður í umfjöllun um lífeyrismál sagði nýlega frá rannsókn ING Investment Management á fjármálalæsi í Evrópu. Rannsóknin náði til 5.500 manns og sýna niðurstöðurnar  að aðeins 14% Evrópumanna geta státað af „góðu“ eða „framúrskarandi“ fjármálalæsi, miðað við 21% í samskonar rannsókn árið 2010. Ennfremur kom í ljós að 20% svarenda nú búa yfir lítilli færni og 66% hafa aðeins grunnþekkingu.

Grikkir bestir?

Grikkir koma best út þeirra þjóða sem rannsakaðar voru, 24% þeirra með „framúrskarandi“ eða „gott“ fjármálalæsi, næst koma Bretar með 22%, Hollendingar með 22% og Ungverjar 15%. Lægstir voru Tyrkir með 6%. Athyglisvert er að þessi rannsókn leiðir í ljós að ungt fólk er mun betur statt hvað varðar fjármálalæsi en hinir eldri. Það er einkum rakið til mun meiri tölvufærni hinna yngri.

Ólíkar niðurstöður

Á Íslandi var fjármálalæsi rannsakað árið 2011 og greinir frá niðurstöðum á vef Stofnunar um fjármálalæsi, fe.is.  Þar eru afar ólíkar niðurstöður hvað varðar hlutfall þeirra sem státa af góðu fjármálalæsi, en sambærilegar að því leyti að fjármálalæsi hrakar frá næstu mælingu á undan. Rannsóknin var unnin í samstarfi við sálfræðisvið viðskiptadeildar Háskólans í Reykjavík. Um hana segir á vef Stofnunar um fjármálalæsi:

“Þekking, viðhorf og hegðun Íslendinga í fjármálum var rannsökuð og borin saman við rannsókn Stofnunar um fjármálalæsi frá 2008.

Meðal helstu niðurstaðna:

  • Þekkingu hrakar milli ára, 53% rétt svör árið 2008 en 47% árið 2011.
  • Færri halda heimilisbókhald nú en áður, en heimilisbókhald er einmitt vísbending um góða stjórnun á eigin fjármálum.
  • Tuttugu prósent færri nýta yfirdrátt og hann er að meðaltali þriðjungi lægri.
  • Fimmtánoghálft prósent ná ekki endum saman þriðja hvern mánuð eða oftar.
  • Jafnmargir hafa miklar áhyggjur af fjármálum sínum og áður.Tæplega helmingur þátttakenda vill ekki taka áhættu þegar kemur að sparnaði.”

Þessar íslensku niðurstöður eru gjörólíkar hinum evrópsku. Ástæðan er þó ekki sú, að Íslendingar séu svo miklu betur læsir á fjármál, heldur að spurningarnar sem lagðar voru fyrir í þessum rannsóknum voru ólíkar og mældu því ekki sömu þekkingu eða færni. Niðurstöðurnar eru því engan veginn samanburðarhæfar.

Fjármálalæsi er mikilvægt

Hvaða máli skiptir það þá hvort almenningur er sæmilega læs á fjármál? Til að svara því er gott að líta í skýrslu OECD um alþjóðlega rannsókn á fjármálalæsi í 12 löndum (Ísland gerðist aðili að þessari rannsókn á þessu ári, 2012). 

Þar segir að stjórnvöld um allan heim hafi látið í ljósi áhyggjur af því hve fjármálalæsi almennings ábótavant. Mögulegar afleiðingar takmarkaðs fjármálalæsi hafi komið enn skýrar en áður í ljós þegar fjármálakreppan reið yfir. Viðurkennt sé orðið að slakt fjármálalæsi almennings hafi haft áhrif til að auka á fjármálakreppuna. Um leið hafi komið vel í ljós hvert séu sameiginleg og alþjóðleg einkenni fjármálalæsis, sem geri mögulegt bæta þar úr á heimsvísu. Í því skyni hafi OECD stofnað samtökin International Network on Financial Education (INFE eða Alþjóðasamband um fjármálamenntun) miðli reynslu og þekkingu meðal sérfræðinga og koma á framfæri niðurstöðum greininga og rannsókna og tillögum um stefnumótun.

Þá segir í fyrrnefndri skýrslu OECD að rannsóknir á þekkingu almennings og skilningi hans og mat á hegðun með tilliti til fjármála sé grundvallaratriði til þess að greina megi mögulegar þarfir  og skort í tengslum við sérstaka þætti fjármálalæsis og einnig til að greina áhættuhópa.  Þegar tekist hafi að setja slík alþjóðleg viðmið um fjármálalæsi megi endurtaka mælingarnar (rannsóknirnar)  til að meta áhrif víðtækra aðgerða sem gripið verði til.

Ísland með í alþjóðlegri rannsókn

Ísland hefur gerst aðili að INFE verkefni OECD og er nú nýlokið fyrstu rannsókninni þar sem Íslendingar eru samanburðarhæfir við 12 aðrar þjóðir í OECD. Stofnun um fjármálalæsi annaðist rannsóknina. Þar voru samskonar spurningar lagðar fyrir fólk hér á landi og í 12 löndum OECD innan sama árs. Skýrsla um niðurstöður íslensku rannsóknarinnar verður kynnt um miðjan janúar næstkomandi.

Að lokum er hér listi yfir þau lönd sem taka þátt í INFE verkefninu og síðan listi yfir Evrópulöndin þar sem ING Investment Management rannsakaði fjármálalæsi.

INFE rannsóknin: Armenía, Eistland, Írland, Ísland, Malaysía, Noregur, Perú, Pólland, Stóra-Bretland, Suður Afríka, Tékkland, Ungverjaland, Þýskaland.

ING rannsóknin: Grikkland, Stóra-Bretland, Holland, Ungverjaland, Tékkland, Rúmenía, Búlgaría, Pólland, Spánn, Tyrkland.