Er markaðurinn tilbúinn fyrir bankana?

11. des. 2012

Helgi Magnússon, formaður stjórnar Lífeyrissjóðs verzlunarmanna, birtir grein í Morgunblaðinu í dag þar sem hann setur fram ákveðnar hugmyndir um framtíðareignarhald á stóru bönkunum þremur í landinu. Með greininni er hafin alvarleg umræða um brýnt mál, sem er fyrirkomulag eignarhalds á bönkunum og um leið um stefnu ríkisvaldsins í þeim efnum. Grein Helga fer hér á eftir.

Eitt af mikilvægustu og vandasömustu verkefnum næstu mánuða og missera á Íslandi er að koma stóru bönkunum þremur í framtíðareignarhald.

Það gengur ekki lengur að Arion banki og Íslandsbanki séu að langmestu leiti í eigu andlitslausra erlendra kröfuhafa sem væntanlega hafa takmarkaðan áhuga á Íslandi og hagsmunum Íslendinga til framtíðar litið. Þá er það ekki heldur hvetjandi framtíðarsýn að halda Landsbankanum of lengi í eigu ríkisins þar sem samkeppnishæfni bankans er raskað með íþyngjandi inngripi framkvæmdavaldsins og svonefndrar Bankasýslu ríkisins.

Þannig þarf bankinn að una því að Kjararáð ákvarði starfskjör bankastjóra í stað þess að stjórnir keppinauta bera ábyrgð á því í öðrum bönkum. Eins virðist upplýsingaskylda vera mun ríkari hjá ríkisbankanum en hjá keppinautum sem getur leitt til veikleika í samkeppni. Þannig er bankanum gert að skila gögnum til Þjóðskjalasafns og að veita Bankasýslu margháttaðar viðkvæmar upplýsingar.

Bankasýsla ríkisins er enn ein stofnunin sem hefur sprottið upp eftir hrun og hefur á sér ráðstjórnarlegt yfirbragð. Vafalaust hefur stofnun Bankasýslunnar markast af því andrúmslofti sem skapaðist eftir hrun og ber að virða þá ákvörðun á þeim tíma í ljósi þess. En þegar frá líður og ástandið færist í eðlilegra horf, getur það ekki verið viðunandi framtíðarsýn að viðhalda slíkum stofnunum. Því hlýtur að vera komið að því að endurmeta stöðu Bankasýslunnar og framtíð hennar þannig að tilvera hennar skaði ekki virði þeirra ríkiseigna sem hún vélar um. Spyrja má hvort tími Bankasýslu ríkisins sé ekki senn liðinn.

Ríkið vantar peninga

Ríkissjóð skortir fjármuni til að geta dregið úr skattheimtu og minnkað skuldir. Það hlýtur því að vera freistandi fyrir ríkisvaldið að selja ríkiseignir sem þurfa ekki að vera í eigu þess. Landsbankinn er eitt gleggsta dæmið um það.

Í ljósi þeirra alvarlegu atburða sem urðu hér á landi við bankahrunið árið 2008 er eðlilegt að stjórnmálamenn vilji fara varlega þegar kemur að ákvörðunum um framtíð Landsbankans sem er stærstur banka hér á landi. Margir hafa horft til þeirrar leiðar sem Norðmenn völdu sér á sínum tíma eftir þær hremmingar sem þeir gengu í gegnum varðandi rekstur bankanna þar í landi. Samstaða náðist t.d.  um það að norska ríkið héldi þriðjungs hlut í DnB bankanum og hefði þannig umtalsverð áhrif á rekstur bankans  í samstarfi við fjárfesta á markaði án þess að hann væri alfarið í ríkiseigu með þeim ókostum sem því fylgja.

Þriðjungur í ríkiseigu

Vel má hugsa sér að heppilegt væri fyrir Íslendinga að læra af þessari reynslu Norðmanna og setja sér þá stefnu að ríkið ætti ávalt 33% hlutafjár í Landsbankanum en 67% eignarhlutur yrði seldur hér innanlands í einu átaki til fagfjárfesta og einstaklinga með það að markmiði að bankinn yrði skráður á Kauphöll Íslands og lyti þar með öllum þeim aga sem því fylgir. Með því yrði aðkoma Bankasýslu óþörf í meginatriðum og þar með ætti bankinn að standa jafnfætis öðrum í samkeppni á markaði.

Nú liggur fyrir að allir þrír stóru bankanna vinna að leiðréttingum þúsunda lána vegna þeirra dóma sem gengið hafa. Sú vinna mun taka nokkra mánuði og þegar henni lýkur mun hafa farið fram mikil endurskipulagning á efnahagsreikningum bankanna. Takist þeim að tryggja sér viðunandi fjármögnun til næstu ára á erlendum mörkuðum, ætti ekkert að vera að vanbúnaði að hefja sölu á eignarhlutum ríkisins í bönkunum af fullum krafti.

Flest bendir til þess að hlutabréfum í bönkunum yrði tekið vel á markaði hér á landi – að því gefnu að verðlagning væri sanngjörn og vel rökstudd miðað við aðstæður og í eðlilegu samræmi við verðlagningu á bönkum í heiminum um þessar mundir. Reynslan af þeim hlutafjárútboðum sem nýlega hafa farið fram hér á landi sýnir að áhugi fyrir hlutabréfum í öflugum fyrirtækjum er nú hratt vaxandi. Samhliða því eflist Kauphöll Íslands sem er mjög mikilvægt.

Bankar verðlagðir undir bókfærðu verði

Brýnt er að horfast strax í augu við það að bankar um allan heim eru nú verðlagðir undir bókfærðu virði eigin fjár, t.d. á genginu 0.60 til 0.70. Sé ríkisvaldið tilbúið til að selja hlutabréf sín í bönkunum miðað við það sem nú er viðtekið á heimsmarkaði er ástæða til að ætla að íslenski markaðurinn gæti ráðið við þetta mikilvæga og risastóra verkefni.

Gera verður ráð fyrir því að íslenskir lífeyrissjóðir kæmu myndarlega að þessum fjárfestingum og sama ætti að gilda um aðra fagfjárfesta, framtakssjóði, sjóði í fjármálafyrirtækjum, vátryggingarfélög og svo breiðan hóp fjárfesta meðal fyrirtækja og einstaklinga. Alla þessa aðila skortir fjárfestingartækifæri og víst er að tíminn er núna til að ná árangri með sölu ríkiseigna af þessu tagi.

Til þess að árangur náist þarf að taka fullt tillit til markaðsaðstæðna. Enginn árangur mun nást ef ríkisvaldið markar einhliða stefnu um söluferli eignarhluta í bönkum sem vekur ekki áhuga hugsanlegra kaupenda. Það er nú einu sinni svo að það þarf bæði seljendur og kaupendur til að viðskipti geti orðið!

Á hvaða róli er Bankasýslan?

Þetta er sagt vegna þeirrar stefnumörkunar sem fram kemur í framtíðarstefnu Bankasýslunnar varðandi sölu þessara eignarhluta og birt er á heimasíðu stofnunarinnar. Þar segir m.a. um mögulega sölu á eignarhlutum í Landsbankanum: „...................þannig að tryggt sé að eignarhald ríkisins fari ekki niður fyrir 66-75% í nánustu framtíð.“ Mér er mjög til efs að einhverjir fjárfestar vilji kaupa hlutabréf í banka sem ríkið á mikinn meirihluta í. Eins er það mikil bjartsýni – eða skortur á raunsæi – hjá Bankasýslunni að gera ráð fyrir að fjárfestar vilji kaupa 13% hlut í Arion banka og 5% hlut í Íslandsbanka á meðan erlendir kröfuhafar eiga allt annað hlutafé í bönkunum og hafa ekki gefið upp áform sín um framhaldið.

Þá eru vangaveltur Bankasýslunnar í fyrrnefndri framtíðarstefnu um að skrá hlutabréf íslenskra banka á markaði erlendis afar óraunhæfar og nánast hlægilegar. Íslendingar verða að halda sig við raunveruleikann þegar kemur að umfjöllun um þessi mikilvægu mál. Útlendingar munu væntanlega ekki hafa mikinn áhuga á eignarhlutum í íslenskum bönkum sem starfa í landi gjaldeyrishafta. Á Vesturlöndum fást menn við erfiða skuldakreppu og væntanlega er fjárfestum í þeim löndum ekki efst í huga að fjárfesta á íslenskum fjármálamarkaði.

Þetta mikilvæga viðfangsefni verður einungis leyst af Íslendingum sjálfum með íslensku sparifé.

Markaðurinn er tilbúinn

Ef stjórnmálamenn okkar hafa víðsýni til að marka sem fyrst raunhæfa stefnu um sölu eignarhluta í Landsbankanum og sýni erlendir kröfuhafar á spil sín varðandi framtíð Íslandsbanka og Arion banka og reynist verðhugmyndir í samræmi við raunveruleikann, þá hef ég fulla trú á því að íslenski markaðurinn sé tilbúinn að takast á við verkefnið og muni leysa það í stóru sameiginlegu átaki. Það er alla vega persónuleg skoðun mín sem er ekki túlkun á stefnu þeirra stofnana og samtaka sem ég tengist.

Takist þetta, þá þyrfti að horfa til þess í framhaldinu að fram færi uppstokkun bankakerfisins með sameiningu banka til aukins hagræðis og sparnaðar. Það viðfangsefni er brýnt og hefur beðið allt of lengi. Slík uppstokkun hlyti að verða almenningi og atvinnulífinu til hagsbóta.

Tveir stórir bankar í stað þriggja er áhugaverð framtíðarsýn fyrir íslenskt bankakerfi og mjög í anda þeirrar merku skýrslu sem McKinsey tók saman um íslenskt atvinnulíf og birti nýlega. Ef við ætlum að gera eitthvað með niðurstöður hennar þá þarf að hefjast handa á ýmsum sviðum viðskiptalífsins – þar á meðal og ekki síst á bankamarkaðinum. En það mun ekki gerast fyrr en eignarhaldið hefur breyst og tekið á sig framtíðarmynd. Einnig má ætla að löggjafinn þurfi þá að gera einhverjar breytingar á samkeppnislögum.

Tækifærin eru framundan. Hefjumst handa enda ekki eftir neinu að bíða.