Ráðgjöf um upphaf lífeyristöku

30. okt. 2012

Sjóðfélagar, sem verða 65 ára í janúar næstkomandi, fá næstu daga bréf frá sjóðnum þar sem þeim er boðin fræðsla varðandi upphaf lífeyristöku. Ráðgjöfin er veitt einum sjóðfélaga í senn og sniðin að hans þörfum.

Sjóðfélagar, sem verða 65 ára í janúar næstkomandi, fá næstu daga bréf frá sjóðnum þar sem þeim er boðin fræðsla varðandi upphaf lífeyristöku. Ráðgjöfin er veitt einum sjóðfélaga í senn og sniðin að hans þörfum.

Almennur lífeyrisaldur hjá Lífeyrissjóði verzlunarmanna er við 67 ára aldur. Sjóðfélagar hafa þó val um að hefja lífeyristöku við 65 ára aldur, en geta jafnframt frestað upphafi lífeyristökunnar til 70 ára aldurs.  

Algengt er að spurningar vakni hjá sjóðfélögum varðandi upphaf lífeyristökunnar. Áður hefur lífeyrissjóður verzlunarmanna boðið væntanlegum lífeyrisþegum til fræðslufunda vor og haust. Nú hefur verið ákveðið að breyta til í því skyni að ná til fleiri og um leið að gera þjónustuna persónulegri.

Hver og einn sjóðfélagi fær því bréf með hvatningu til að hafa samband. Sjóðfélagarnir geta komið á skrifstofuna og fengið upplýsingar og leiðbeiningar hjá ráðgjafa, í þeim tilvikum er best að hafa samband með nokkurra daga fyrirvara og bóka tíma. Einnig er hægt að fá upplýsingar í síma eða með tölvupósti, allt eftir hentugleikum hvers og eins.

Þeir sjóðfélagar sem ná 65 ára aldri í febrúar fá síðan bréf í næsta mánuði og eftir það verða þessi bréf send til sjóðfélaganna þremur mánuðum áður en þeir ná lífeyrisaldri.

Það er einlæg von okkar hjá Lífeyrissjóði verzlunarmanna að þessi þjónusta komi að sem mestum notum og eru sjóðfélagar hvattir til að nýta sér hana og hafa samband.