30 milljarða hækkun eigna á fyrri hluta ársins

1. okt. 2012

Ágætis afkoma var hjá Lífeyrissjóði verzlunarmanna á fyrri hluta ársins. Eignir jukust um tæplega 30 milljarða króna og raunávöxtun sjóðsins var 3,3%. Ávöxtunartölur eru fyrir sex mánaða tímabil og hafa ekki verið færðar upp til ársávöxtunar.

Ágætis afkoma var hjá Lífeyrissjóði verzlunarmanna á fyrri hluta ársins. Eignir jukust um tæplega 30 milljarða króna og raunávöxtun sjóðsins var 3,3%. Ávöxtunartölur eru fyrir sex mánaða tímabil og hafa ekki verið færðar upp til ársávöxtunar.

Lífeyrissjóður verzlunarmanna náði að eflast vel á fyrri hluta þessa árs, þrátt fyrir takmarkaða fjárfestingarkosti innanlands og ólgu á erlendum mörkuðum. Eignir sjóðsins til greiðslu lífeyris námu um 375 milljörðum í lok júní samanborið við 346 milljarða í upphafi árs, höfðu aukist um nærri 30 milljarða á fyrri hluta ársins.

Erlendar og innlendar eignir hækka

Erlend verðbréf eru um 28% eigna sjóðsins. Á fyrri helmingi ársins hækkuðu erlendir hlutabréfamarkaðir og íslenska krónan veiktist örlítið gagnvart erlendum gjaldmiðlum. Það leiddi til hækkunar á erlenda eignasafni sjóðsins. Jafnframt skilaði innlenda eignasafn sjóðsins jákvæðri ávöxtun á tímabilinu.

Ávöxtun samtryggingardeildar sjóðsins og verðbréfaleiðar í séreignardeild á fyrri árshelmingi var 6,9% sem samsvarar 3,3% raunávöxtun. Ávöxtun innlánsleiðar í séreignardeild var 4,6% sem samsvarar 1,1% raunávöxtun á tímabilinu. Ávöxtunartölur eru fyrir sex mánaða tímabil og hafa ekki verið færðar upp til ársávöxtunar.

Hagstæður samanburður

Til samanburðar má benda á, að samkvæmt árlegri skýrslu Efnahags- og framfarastofnunarinnar, OECD, varð meðaltals raunávöxtun íslensku lífeyrissjóðanna 2,3% á árinu 2011, en meðaltal allra OECD ríkjanna var -1,7% raunávöxtun lífeyrissjóðanna, eins og sjá má í þessari frétt

Nánari upplýsingar um starfsemi sjóðsins hafa verið sendar sjóðfélögum í pósti með yfirliti um stöðu þeirra hjá sjóðnum.