Íslensku lífeyrissjóðirnir á meðal þeirra bestu í OECD

26. sep. 2012

Ísland er í hópi þeirra ríkja sem skiluðu bestri raunávöxtun lífeyrissjóða á árinu 2011. Þetta kemur fram í nýrri árlegri skýrslu Efnahags- og framfarastofnunarinnar, OECD. Raunávöxtun íslensku lífeyrissjóðanna var að meðaltali 2,3% í fyrra, en meðaltal OECD var -1,7% yfir árið.

Ísland er í hópi þeirra ríkja sem skiluðu bestri raunávöxtun lífeyrissjóða á árinu 2011. Þetta kemur fram í nýrri árlegri skýrslu Efnahags- og framfarastofnunarinnar, OECD. Raunávöxtun íslensku lífeyrissjóðanna var að meðaltali 2,3% í fyrra, en meðaltal OECD var -1,7% yfir árið.

 OECD gefur árlega út ítarlega skýrslu um lífeyrissjóði í heiminum, þar sem meðal annars er skoðuð afkoma þeirra á árinu á undan. Í skýrslunni fyrir árið 2011, sem er nýkomin, kemur í ljós að ísland er á meðal þeirra ríkja sem skiluðu bestri ávöxtun lífeyrissjóða á árinu. Í aðeins þremur ríkjum var ávöxtun lífeyrissjóða betri, það er í Danmörku, Hollandi og Ástralíu.

Ávöxtun lífeyrissjóða í heild innan OECD var neikvæð á árinu 2011 sem nam 1,7%. Sú laka niðurstaða kemur eftir tvö góð ár í kjölfar efnahagshrunsins haustið 2008, þegar meðaltalstjón lífeyrissjóða innan OECD var rúm 24% (tjón íslensku sjóðanna var um 23%, skv. skýrslu OECD). Á árinu 2010 var meðaltalsávöxtun lífeyrissjóða í OECD löndunum 6,6%, árið 2009 var ávöxtunin að meðaltali 3,5%.

Ísland í 4. sæti

Athygli vekur að ávöxtun dönsku sjóðanna er miklum mun betri en annarra á árinu 2011. Það er skýrt með hagnaði þeirra af skuldabréfaviðskiptum og með „vaxtavarnasamningum“ (interest hedging operations). Ávöxtun dönsku sjóðanna var 12,1%, næstir eru Hollendingar með 8,2%, þá Ástralir með 4,1% og síðan eru Ísland og Nýja Sjáland með 2,3%. Mynd 1.

Mynd1_sept12

            Raunávöxtun lífeyrissjóða í OECD ríkjunum á árinu 2011
            Heimild: OECD

Íslensku sjóðirnir náðu betri ávöxtun á síðasta ári en árin þar á undan, 2010 var raunávöxtun íslensku sjóðanna að meðaltali 1,3% og 1% á árinu 2009.

Ef skoðað er aftur í tímann kemur í ljós að frá ári til árs eru í flestum löndum afar miklar sveiflur á ávöxtun lífeyrissjóða, en ef horft er til áratuga jafnast sveiflurnar út og heildarniðurstaða er jákvæð. Taka má sem dæmi norsku og tyrknesku sjóðina. Árið 2009 var ávöxtun tyrknesku sjóðanna lang best, 17,6%, en í fyrra lang slökust, -10,8%. Norsku sjóðirnir skiluðu nærri 10% ávöxtun árið 2009, en í fyrra var ávöxtun þeirra neikvæð, -0,1%.

Vega þungt í hagkerfinu

Skýrsla OECD skoðar einnig mikilvægi lífeyrissjóðanna í hagkerfi hvers lands. Þar kemur í ljós að í Hollandi er vægi þeirra meira en í öðrum löndum, stærð sjóðanna nemur um 138% af landsframleiðslu. Næst í þeirri röð er Ísland, um 129% af landsframleiðslu, Þá Sviss um 111% og Ástralía um 93%. Mynd 2.

Mynd2_sept12

             Stærð lífeyrissjóða í OECD ríkjunum sem hlutfall af vergri landsframleiðslu hvers ríkis
             Heimild: OECD

Ávöxtunartölur í skýrslu OECD eru um raunávöxtun í heimagjaldmiðli hvers lands, að teknu tilliti til verðbólgu og að teknu tilliti til rekstrarkostnaðar sjóðanna.

Sjá má skýrslu OECD í heild hér.