Gegnumstreymi eða sjóðsöfnun

24. sep. 2012

Í eftirfarandi grein, sem birtist í Morgunblaðinu 24. september, skýrir Gunnar Baldvinsson, formaður Landssamtaka lífeyrissjóða, í stuttu máli hvað einkennir hvort kerfi um sig, gegnumstreymi og sjóðsöfnun, og hvernig íslenska lífeyriskerfið fellur að þessari flokkun.

Víðast hvar hefur verið litið svo á að það sé ein af skyldum þjóðfélagsins að tryggja öldruðum fjárhagslegt öryggi þegar ævistarfi þeirra lýkur. Þjóðir hafa farið ólíkar leiðir til þess og er algengast að flokka lífeyriskerfi þjóða í gegnum­streymiskerfi eða sjóðsöfnunarkerfi.

Í eftirfarandi grein, sem birtist í Morgunblaðinu 24. september, skýrir Gunnar Baldvinsson, formaður Landssamtaka lífeyrissjóða, í stuttu máli hvað einkennir hvort kerfi um sig, gegnumstreymi og sjóðsöfnun, og hvernig íslenska lífeyriskerfið fellur að þessari flokkun.

Víðast hvar hefur verið litið svo á að það sé ein af skyldum þjóðfélagsins að tryggja öldruðum fjárhagslegt öryggi þegar ævistarfi þeirra lýkur. Þjóðir hafa farið ólíkar leiðir til þess og er algengast að flokka lífeyriskerfi þjóða í gegnum­streymiskerfi eða sjóðsöfnunarkerfi.

Gegnumstreymi

Gegnumstreymiskerfi greiðir eftirlaunaþegum lífeyri beint af tekjum þeirra sem eru vinnandi. Kerfið gerir ráð fyrir að ein kynslóð greiði fyrir aðra eða að vinnandi menn greiði af sköttum fyrir foreldra sína og njóti svo í staðinn sambærilegra greiðslna frá börnum sínum eftir að sest er í helgan stein. Kosturinn við gegnumstreymiskerfi er að hægt er að greiða lífeyrisþegum góðan lífeyri strax við upptöku kerfisins. Gallinn er hins vegar að lífeyrisbyrði leggst mismunandi þungt á kynslóðir. Margar þjóðir komu á gegnumstreymiskerfi þegar hlutfall aldraðra var tiltölulega lágt og standa nú frammi fyrir miklum vanda vegna fyrirsjáanlegra breytinga á aldurssamsetningu og  aukins hlutfalls aldraðra á næstu áratugum.

Sjóðsöfnun

Sjóðsöfnunarkerfi byggist hins vegar á að hver kynslóð sparar og safnar upp sjóði til að standa undir eftirlaunum þegar hún hættir að vinna. Kosturinn við sjóðsöfnunarkerfi er að hver kynslóð sér um sig og leggur ekki byrðar á næstu kynslóðir. Gallinn er hins vegar að það tekur mjög langan tíma að byggja upp sjóð sem greiðir góð eftirlaun.

Blandað kerfi

Lífeyriskerfi þjóða eru þó sjaldnast annað hvort gegnumstreymiskerfi eða sjóðsöfnunarkerfi. Yfirleitt eru kerfin blönduð þannig að hluti af lífeyrisgreiðslum er greiddur af sköttum og hluti úr lífeyrissparnaði sem byggir á sjóðsöfnun. Lífeyriskerfi í heiminum eru víða í endurskoðun vegna fyrirsjáanlegra breytinga á aldurssamsetningu flestra þjóða vegna minni frjósemi og aukins langlífis. Um aldamót voru að meðaltali 3,5 einstaklingar á vinnualdri á móti hverjum lífeyrisþega í Evrópu en búist er við að hlutfallið lækki í 2,5 árið 2020. Þessi þróun er mjög óhagstæð fyrir þjóðir sem byggja lífeyriskerfi sitt að mestu leyti á gegnumstreymiskerfi.

Ísland í góðum málum

Íslenska lífeyriskerfið er blandað en byggir þó að mestu á sjóðsöfnun lífeyrissjóða og viðbótarlífeyrissparnaði. Sá hluti sem er gegnumstreymiskerfi eru almannatryggingar sem greiða lágmarkslífeyri frá 67 ára aldri. Vægi almannatrygginga hefur hins vegar farið minnkandi á síðustu árum vegna vaxandi lífeyrisgreiðslna lífeyrissjóðanna og aukinnar tekjutengingar við lífeyrisgreiðslur og aðrar tekjur. Áður var hluti af ellilífeyri almannatrygginga óháður tekjum og var sama fjárhæð greidd til allra. Þetta hefur breyst og falla ellilífeyrisgreiðslur niður ef aðrar tekjur fara yfir ákveðin mörk. Ellilífeyrir lífeyrissjóða vegur þyngst í ellilífeyrisgreiðslum einstaklinga. Sjóðirnir byggja á sjóðsöfnun og ráðast lífeyrisgreiðslur af iðgjaldagreiðslum á starfsævinni. Einstaklingar geta bætt við eftirlaunin með viðbótarlífeyrissparnaði.

Eignir-lifeyrissjoda

Íslenska lífeyriskerfið er sterkt vegna þess að Íslendingar báru gæfu til þess að stofna lífeyrissjóði sem allir vinnandi landsmenn greiða í. Ísland er því betur í stakk búið en margar aðrar þjóðir til að mæta fjölgun eftirlaunaþega. Þetta sést best með því að bera saman eignir lífeyrissjóða sem hlutfall af landsframleiðslu en eins og sjá má á meðfylgjandi mynd þá er hlutfallið hér á landi með því hæsta sem þekkist í heiminum.  Hagstofan spáir því að hlutfall einstaklinga á vinnualdri og lífeyrisþega á Íslandi lækki á næstu áratugum. Í dag eru 5,3 einstaklingar á vinnualdri  á móti hverjum lífeyrisþega en því er spáð að þeir verði 3,2 árið 2030 og 2,5 árið 2050. Gangi þessi spá eftir kemur sér vel að eiga góða lífeyrissjóði. Mikilvægt er að standa vörð um starfsemi þeirra.