Lífeyrissjóðir fjárfesta í vindorkuverum - Erlent

27. ágú. 2012

Lífeyrissjóðir í Evrópu leita nú á ný mið til að tryggja að eignir dugi fyrir lífeyrisskuldbindingum. Þeir beina nú sjónum sínum í auknum mæli að vindorkuverum, sólarorkuverum og virkjunum á öðrum endurnýjanlegum orkugjöfum sem vænlegum langtímafjárfestingum og betri kostum en ríkisskuldabréf eða hlutabréf eru.

Lífeyrissjóðir í Evrópu leita nú á ný mið til að tryggja að eignir dugi fyrir lífeyrisskuldbindingum. Þeir beina nú sjónum sínum í auknum mæli að vindorkuverum, sólarorkuverum og virkjunum á öðrum endurnýjanlegum orkugjöfum sem vænlegum langtímafjárfestingum og betri kostum en ríkisskuldabréf eða hlutabréf eru.

Grein um þetta efni birtist nýlega á fagvefnum www.europeanpensions.net þar sem fjallað er um málefni lífeyrissjóða. Höfundur er Amanda Leek. Eftirfarandi er byggt á þessari grein.

Seðlabanki Evrópu og aðrir seðlabankar halda stýrivöxtum áfram lægri en áður í því skyni að forðast aðra kreppu og verðhjöðnun um leið og efnahagsaðstoð þeirra við ríki hafi fylgt miklar fjárfestingar í ríkisskuldabréfum á evrusvæðinu. Þetta hefur kollvarpað hinni hingaðtil öruggu fjárfestingu í ríkispappírum þannig að nú eru aðrir valkostir fáir – þeirra á meðal eru vindorkuver við strendurnar.

David Jones, framkvæmdastjóri Allianz Specialized Investment [Sérhæfður Fjárfestingarsjóður Allianz], segir að ávöxtun fjárfestingar í vindorkuverum sé um sjö prósent – meiri en af mörgum öðrum eignaflokkum – og ónæm fyrir sveiflum á fjármálamörkuðunum.  Að auki séu vind- og sólarorkuver einnig áhugaverð fyrir lífeyrissjóði, sem þoli í sumum tilvikum lægri ávöxtunarkröfu en margir aðrir fjárfestar og fjárfesti til lengri tíma.

Á neikvæðu hliðinni er hins vegar, að vindorkuver eru dýr í byggingu og viðhaldi og að þau standa frammi fyrir ýmsum vanda við að koma raforkunni til kaupenda, aðallega varðandi flutningskerfin. Erfitt er að áætla arðsemina, en lífeyrissjóðir sjá fyrir sér tekjustreymi í 20 til 30 ár eftir að verin eru komin í gagnið og fjárfesta þannig til langs tíma.

Hingað til hafa lífeyrissjóðir haldið að sér höndum varðandi fjárfestingar í vindorkuverum þar sem áhættan hefur verið talin of mikil vegna óstöðugleika í laga- og reglusetningum og vegna þess að takmörkuð þekking á þessu sviði hefur verið innan sjóðanna. OECD áætlar að einungis um eitt prósent lífeyrissjóða heimsins fjárfesti í innviðum samfélagsins á borð við orkukerfi, veitukerfi o.þ.h. En, þörfin er mikil fyrir fjárfestingar á þessum sviðum eftir að Evrópusambandið setti markið um orku frá endurnýjanlegum orkugjöfum hærra, í 20% árið 2020 og fyrirtæki á því sviði þurfa fjármögnun til að skipta úr olíu- og kolaknúinni orkuframleiðslu.

Danir eru í fararbroddi þessarar þróunar, enda í forystu þjóða heims með um fjórðung allrar framleiðslu raforku með vindorkuverum í heiminum. Danska olíu, gas og raforkufyrirtækið DONG Energy DOENRY.UL, sem er í ríkiseign, hefur fengið nokkra fjárfesta í lið með sér að koma upp vindorkuverum við strendur Danmerkur, Bretlands og Þýskalands.

Dönsku lífeyrissjóðirnir PensjonDanmark og PKA, hollenski sjóðaklasinn PGGM og ýmsir fjárfestar í iðnaði eins og hinn japanski Marubeni, eru á meðal þeirra fjárfesta sem hafa verið fengnir til að fjármagna verkefnið.

Heildarfjárfesting PensjonDanmark í DONG vindorkuverkefnunum er 4,5 milljarðar danskra króna (um 90 milljarðar íslenskra króna) og eru áætlanir um að auka fjárfestinguna í um 10 prósent eigna í orku úr um sex prósentum nú.

Torben Moger, framkvæmdastjóri PensjonDanmark, segir: „Ég held að þróunin verði sú að fjárfestingar á þessu sviði verði reglan hjá mörgum lífeyrissjóðum vegna þess að valkosturinn að fjárfesta í ríkisskuldabréfum gefur svo lága ávöxtun að menn eru tilneyddir að finna aðra fjárfestingarkosti.“

Stærsta tryggingasamsteypa Evrópu, hið þýska Allianz, hefur fjárfest meira en 1,3 milljarða evra (195 milljarða íslenskra króna) í vindorkuverum í Þýskalandi og Frakklandi og sólarorkuverum í Frakklandi og á Ítalíu frá árinu 2005.

Grein Amanda Leek má sjá í upphaflegri útgáfu hér