Lífeyrissjóður verzlunarmanna kaupir 14% hlut í Eimskip

16. júl. 2012

Stærstu hluthafar Eimskips, Landsbanki Íslands og bandaríska fjárfestingafélagið Yucaipa,  hafa hvor um sig selt 14 milljónir bréfa til Lífeyrissjóðs verzlunarmanna, sem samtals kaupir því 28 milljónir bréfa eða 14% hlut í félaginu. Kaupverðið nemur samtals tæpum 5,7 milljörðum króna

Breytingar á eignarhaldi Eimskipafélags Íslands hf.

  • Lífeyrissjóður verzlunarmanna kaupir 14% hlut í Eimskip
  • Landsbanki Íslands og Yucaipa selja hvor um sig 7% hlut
  • Viðskiptin falla vel að áformum Eimskips um skráningu í kauphöll

Stærstu hluthafar Eimskips, Landsbanki Íslands og bandaríska fjárfestingafélagið Yucaipa, hafa tilkynnt félaginu um viðskipti með bréf í Eimskip. Hvor aðili um sig hefur selt 14 milljónir bréfa til Lífeyrissjóðs verzlunarmanna, sem samtals kaupir því 28 milljónir bréfa eða 14% hlut í félaginu. Kaupverðið nemur samtals tæpum 5,7 milljörðum króna.

Straumur fjárfestingabanki hafði milligöngu um viðskiptin sem fara fram í undanfara að mögulegri skráningu Eimskips í kauphöll. Viðskiptin falla vel að þeim áformum félagsins og með þeim breikkar hluthafahópur Eimskips. Eftir viðskiptin á Lífeyrissjóður verzlunarmanna samtals 14,6% hlut og er þriðji stærsti hluthafi Eimskips á eftir Yucaipa sem samtals á 25,3% hlut og Landsbanka Íslands sem á um 30,3% hlutafjár.

Undirbúningur að mögulegri skráningu Eimskips á NASDAQ OMX Iceland gengur vel. Gert er ráð fyrir því að fram fari almennt hlutafjárútboð samhliða skráningu þar sem fjárfestum og almenningi gefst kostur á að eignast hlut í félaginu. Fyrirhugað er að skráning fari fram á síðasta ársfjórðungi þessa árs.

Um Eimskipafélag Íslands hf.

Eimskipafélag Íslands var stofnað þann 17. janúar 1914. Stofnhluthafar voru um 14 þúsund sem samsvaraði um 15% þjóðarinnar á þeim tíma. Eimskip býður upp á alhliða flutningsþjónustu um allan heim. Eimskip er með eigin starfsemi í 17 löndum, með 17 skip í rekstri og hefur á að skipa 1260 starfsmönnum, þar af vinna um 730 starfsmenn á Íslandi. Stefna félagsins er að veita öfluga flutningaþjónustu á heimamarkaði á Norður Atlantshafi ásamt því að bjóða víðtæka alþjóðlega frystiflutningsmiðlun um heim allan.