Góð ávöxtun á fyrri árshelmingi

23. nóv. 2005

Fyrri árshelmingur 2005 einkenndist af verulegum hækkunum á innlendum hlutabréfamarkaði.

Ágæti sjóðfélagi!

Fyrri árshelmingur 2005 einkenndist af verulegum hækkunum á innlendum hlutabréfamarkaði. Þannig hækkaði innlent hlutabréfasafn lífeyrissjóðsins um 27,6% á tímabilinu en til samanburðar hækkaði Úrvalsvísitala Kauphallarinnar um 23,0%. Þessi þróun átti mestan þátt í að skila sjóðnum 8,3% nafnávöxtun á fyrri hluta ársins eða sem samsvarar 17,3% nafnávöxtun á heilu ári. Ólíklegt verður að telja að fjármunatekjur hlutabréfa verði jafn miklar á síðari helmingi ársins og hinum fyrri. Eignir sjóðsins námu 167,0 milljörðum í lok júní sl. samanborið við 150,7 milljarða í upphafi árs sem er hækkun um rúma 16 milljarða.

Meginþættir úr starfsemi á fyrri árshelmingi 2005

Sjóðfélögum fjölgaði um 6,1% á fyrstu 6 mánuðum ársins miðað við sama tímabil á fyrra ári og greiddu að meðaltali tæplega 30 þúsund sjóðfélagar iðgjald til sjóðsins.

Iðgjaldagreiðslur námu 4.861 milljón á fyrstu 6 mánuðum ársins sem er hækkun um 20,8% miðað við sama tímabil á fyrra ári. Hækkunin skýrist að hluta af hækkun kjarasamningsbundins mótframlags um síðustu áramót úr 6% í 7%. Innborganir í séreignardeild námu 252 milljónum á fyrstu 6 mánuðum ársins samanborið við 356 milljónir á sama tímabili 2004, en frá síðustu áramótum féll niður skylda atvinnurekenda til að greiða 1% framlag í séreignarsjóð fyrir þá starfsmenn sem ekki leggja til hliðar í séreign.

Lífeyrisgreiðslur námu 1.437 milljónum til 7.245 lífeyrisþega á fyrri árshelmingi og hefur lífeyrisþegum fjölgað um 8,5% frá miðju síðasta ári og heildarfjárhæð lífeyris hækkað um 13,2% miðað við sama tímabil á fyrra ári. Útgreiddur lífeyrir skiptist með eftirfarandi hætti: Ellilífeyrir 59%, örorkulífeyrir 28%, makalífeyrir 10% og barnalífeyrir 3%.

Lánveitingar til sjóðfélaga námu 4.929 milljónum á fyrstu 6 mánuðum ársins en 1.738 milljónum á sama tímabili 2004 sem er 184% hækkun milli ára.

Ráðstöfunarfé til fjárfestinga nam 20,6 milljörðum á fyrri árshelmingi. Fjárfest var í innlendum og erlendum hlutabréfum sem nemur 43% af ráðstöfunarfé, í skuldabréfum 36% og 21% var ráðstafað til lánveitinga til sjóðfélaga..

Innlenda hlutabréfasafnið hækkaði á fyrri helmingi ársins um 27,6%, þar af námu arðgreiðslur 1,3%. Á sama tíma hækkaði Úrvalsvísitala Kauphallarinnar um 23,0%. Árleg raunávöxtun innlendu hlutabréfaeignarinnar er 19,0% yfir rúmlega 25 ára tímabil, þ.e. frá ársbyrjun 1980 til miðs árs 2005.

Nafnávöxtun á fyrri árshelmingi var 8,3% sem samsvarar 17,3% nafnávöxtun á heilu ári og veldur þar mestu góð afkoma innlendrar hlutabréfaeignar sjóðsins. Ólíklegt er að fjármunatekjur hlutabréfa verði jafn miklar á síðari helmingi ársins og hinum fyrri.

Verðbréfasafn lífeyrissjóðsins sjóðsins í lok júní s.l. skiptist í skuldabréf 53,7%, innlend hlutabréf 19,2% og erlend verðbréf 27,1%.

Upptaka aldurstengdrar réttindaávinnslu

Að undanförnu hafa lífeyrissjóðirnir almennt verið að færa sig yfir í réttindaávinnslukerfi sem felur í sér að iðgjöld skapa mismunandi mikil lífeyrisréttindi eftir því hvenær starfsævinnar þau eru greidd. Það er í svokallað aldursháð réttindakerfi. Þannig skapa iðgjöld sem greidd eru framan af starfsævinni meiri réttindi en iðgjöld sem greidd eru síðar. Útilokað er við þær kringumstæður að halda úti réttindakerfi jafnrar ávinnslu sem Lífeyrissjóður verzlunarmanna hefur boðið sjóðfélögum sínum. Ástæða þess er sú að hætta skapast á að einstaklingar notfæri sér kosti aldurstengdrar réttindaávinnslu á fyrri hluta starfsævinnar og færi sig síðan yfir í jafna réttindaávinnslu á seinni hluta starfsævinnar. Það fyrirkomulag gengur augljóslega ekki upp. Því hefur sú stefna verið mörkuð af stjórn sjóðsins að stefna að upptöku aldurstengdrar ávinnslu frá næstu áramótum.

Mikilvægt verður að tryggja hagsmuni núverandi sjóðfélaga við breytinguna yfir í aldurstengt kerfi. Að þeir sjóðfélagar sem uppfylla tiltekin skilyrði geti haldið áfram að mynda réttindi í jafnri ávinnslu. Útfærsla breytingarinnar verður væntanlega með þeim hætti að þeir sem þegar hafa áunnið sér réttindi framan af í jafnri ávinnslu geti haldið því áfram upp að tilteknu hámarki. Þeir sem eru ungir fara aftur á móti að ávinna sér réttindi miðað við aldurstengda ávinnslu. Þannig verður reynt að haga reglunum með þeim hætti að breytingin hafi sem minnst áhrif á sjóðfélagana þegar horft er til réttindaávinnslunnar yfir alla starfsævina.

Upplýsingavefur sjóðsins

Sjóðfélagar hafa um nokkurt skeið haft beinan aðgang að upplýsingum um lífeyrisréttindi sín og stöðu lána á upplýsingavef á heimasíðu sjóðsins www.live.is

Efst í sjóðfélagabréfinu er notandanafn og lykilorð sem þú getur notað til að tengjast upplýsingavefnum og kynnt þér réttindi þín.

Ársfundur 2005

Ársfundur sjóðsins var haldinn 11. apríl sl. á Grand Hótel. Á fundinum flutti Víglundur Þorsteinsson formaður sjóðsins, skýrslu stjórnar um starfsemi á liðnu ári og Þorgeir Eyjólfsson forstjóri gerði grein fyrir ársreikningi fyrir árið 2004, tryggingafræðilegri athugun og fjárfestingastefnu sjóðsins fyrir árið 2005.

Nálgast má fundargerð ársfundar og ársskýrslu lífeyrissjóðsins á heimasíðu sjóðsins.

Yfirlit yfir móttekin iðgjöld

Yfirlit eru send sjóðfélögum tvisvar á ári, í febrúar og ágúst og sýnir þau iðgjöld sem borist hafa sjóðnum frá því síðasta yfirlit var sent. Einnig koma fram þau réttindi sem sjóðfélaginn hefur áunnið sér. Mikilvægt er að fullvissa sig um að yfirlitið sé í samræmi við launaseðla. Þannig tryggir sjóðfélaginn að hann sé ekki að glata lífeyrisréttindum.

Ekki er óeðlilegt að greiðslur fyrir mánuðina maí og júní 2005 vanti á yfirlitið. Vanti frekari greiðslur eða hafir þú einhverjar athugasemdir, þá vinsamlegast hafðu samband við viðkomandi fyrirtæki og/eða innheimtudeild sjóðsins og leitaðu skýringa.


Með kveðju,
Þorgeir Eyjólfsson forstjóri