Frumvarp um jöfnun lífeyrisréttinda

15. jún. 2012

Magnús M. Norðdahl, lögfræðingur Alþýðusambands Íslands, hefur á vordögum setið á Alþingi sem varaþingmaður fyrir Samfylkinguna. Hann hefur lagt fram frumvarp til laga um jöfnun lífeyrisréttar, en Alþýðusambandið hefur löngum lagt áherslu á þetta mál í viðræðum við stjórnvöld. Í athugasemdum með frumvarpinu segir að tilgangur þess sé að jafna réttindi með einni einfaldri lagasetningu og efna þannig fyrirheit sem stjórnvöld hafi ítrekað lofað, án tillits til flokka eða samsetningar á ríkisstjórn.

Magnús M. Norðdahl, lögfræðingur Alþýðusambands Íslands, hefur á vordögum setið á Alþingi sem varaþingmaður fyrir Samfylkinguna. Hann hefur lagt fram frumvarp til laga um jöfnun lífeyrisréttar, en Alþýðusambandið hefur löngum lagt áherslu á þetta mál í viðræðum við stjórnvöld. Í athugasemdum með frumvarpinu segir að tilgangur þess sé að jafna réttindi með einni einfaldri lagasetningu og efna þannig fyrirheit sem stjórnvöld hafi ítrekað lofað, án tillits til flokka eða samsetningar á ríkisstjórn.

Frumvarpið er fimm stuttar efnisgreinar, auk gildistökuákvæðis. Í fyrstu grein segir að lágmarkslífeyrisréttindi launafólks, sem er skyldutryggt samkvæmt lögum um lífeyrissjóði (nr. 129/1997) skuli vera hin sömu og ákveðin eru í A-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins, þó aldrei lægri en kjarasamningar kveði á um.

Ríkissjóður greiði það sem á vantar

Þá segir í 2. grein, að ríkissjóður skuli greiða það sem á vantar að hinir almennu sjóðir geti staðið undir lífeyrisskuldbindingum sínum að þessum breytingum gerðum og skuli tryggingafræðilegt mat segja til um það. Ennfremur að taka skuli tillit til hver sé hrein eign lífeyrissjóðs samkvæmt nánari ákvæðum.

Jöfnun sem ítrekað hefur verið lofað

Í almennum athugasemdum með frumvarpinu segir Magnús: „Óviðunandi mismunun viðgengst þegar borin eru saman lífeyriskjör launafólks sem aðild á að stéttarfélögum sem gera kjarasamninga samkvæmt lögum nr. 80/1938, um stéttarfélög og vinnudeilur (almenn stéttarfélög), og sem aðild á að lífeyrissjóðum sem starfa samkvæmt lögum nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða (almennir lífeyrissjóðir), og þess launafólks sem á aðild að stéttarfélögum sem gera kjarasamninga samkvæmt lögum nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna (opinber stéttarfélög), og sem aðild á að lífeyrissjóðum sem starfa samkvæmt lögum nr. 1/1997, um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, og lífeyrissjóðum sveitarfélaganna (opinberir lífeyrissjóðir). Tilgangur þessa frumvarps er að jafna þessi réttindi með einni einfaldri lagasetningu og efna þannig fyrirheit sem stjórnvöld hafa ítrekað lofað, án tillits til flokka eða samsetningar á ríkisstjórn.”

Enn er ekki ljóst hvort frumvarpið verður tekið á dagskrá Alþingis fyrir þinglok, enda óvíst hvenær þau verða, þegar þetta er ritað.

Frumvarpið í heild er að finna hér