Rýnt í framtíðina

30. apr. 2012

Það er alltaf erfitt að spá, sérstaklega um framtíðina, er stundum sagt í hálfkæringi. Mikil sannindi eru vissulega í þessum orðum, en – í sumum tilvikum er ekki völ á öðru en að freista þess að sjá framtíðina fyrir með svo mikilli nákvæmni sem kostur er. Það á einmitt við lífeyrissjóði, sem verða, samkvæmt lögum, að áætla á trúverðugan hátt og með mestu mögulegri nákvæmni hversu vel þeir eru í stakk búnir til að standa við skuldbindingar sínar um greiðslu lífeyris í framtíðinni. Til þess eru fengnir sérfræðingar á því sviði, tryggingastærðfræðingar. Í eftirfarandi grein er fjallað um tryggingafræðilega athugun á Lífeyrissjóði verzlunarmanna og helstu forsendur hennar.

Um tryggingafræðilega athugun

Árlega er gerð tryggingafræðileg athugun á lífeyrissjóðnum í samræmi við ákvæði laga. Megintilgangurinn er að tryggja ákveðið jafnvægi í eignum og skuldbindingum sjóðsins. Við mat á tryggingafræðilegri stöðu sjóðsins er tekið tillit til núverandi eigna og framtíðariðgjalda þeirra sjóðfélaga sem eru í sjóðnum. Þessir tveir liðir mynda heildareignir á móti áföllnum- og framtíðarskuldbindingum sem mynda heildarskuldir.

Þar sem eignir og skuldir í framtíðinni falla ekki til á sama tíma þarf að núvirða þessar stærðir m.v. ákveðna ávöxtunarkröfu. Ávöxtunarkrafa sem tryggingastærðfræðingar notast við, sbr. ákvæði reglugerðar þar um, er 3,5% umfram vísitölu neysluverðs til verðtryggingar hjá lífeyrissjóðum sem ekki hafa bakábyrgð launagreiðenda. Viðmið við 3,5% ávöxtunarkröfu á sér áralanga sögu og var á sínum tíma m.a. horft til vaxta á ríkistryggðum skuldabréfum og langtímahagvaxtar.

Niðurstaða í tryggingafræðilegu uppgjöri er jafnan sett fram í hlutfalli af heildarskuldbindingum, sjá sex ára yfirlit um stöðu lífeyrissjóðsins.

 Ár  2011  2010 2009
 2008 2007  2006
 Staða
 -2,3%  -3,4%  -10,8%  -7,2%  4,7%  7,9%

Í lögum um lífeyrissjóði nr. 129/1997, er kveðið á um að fari tryggingafræðileg staða lífeyrissjóðs umfram +/- 10% eða +/- 5% samfellt fimm ár í röð beri að lagfæra stöðu sjóðsins með því eftir atvikum að lækka eða hækka lífeyrisréttindi.

Ákvæði laganna á að tryggja að lífeyrissjóðurinn sé hverju sinni að greiða út lífeyri til lífeyrisþega og lofa ávinnslu lífeyrisréttinda til greiðandi sjóðfélaga sem næst raunverulegri getu sjóðsins til lengri tíma litið. Með þessu er verið að laga réttindi að stöðu sjóðsins og tryggja það að færa ekki fjármuni milli kynslóða, lífeyrisþega og greiðandi sjóðfélaga, enda byggist fyrirkomulag samtryggingardeildar í lífeyrissjóði á sátt milli kynslóða

Nánar um forsendur tryggingafræðilegrar athugunar

Tryggingafræðileg athugun á sjóðnum miðað við árslok 2011 var gerð af Vigfúsi Ásgeirssyni tryggingastærðfræðingi hjá Talnakönnun hf. Athugunin var gerð í samræmi við ákvæði laga um lífeyrissjóði nr. 129/1997, ákvæði reglugerðar nr. 391/1998, leiðbeinandi reglur Félags íslenskra tryggingastærðfræðinga um framkvæmd tryggingafræðilegra athugana og í samræmi við ákvæði samþykkta sjóðsins.

Notast er við svokallaðar staðalforsendur í þeim tilgangi að tryggja samræmi í aðferðum og til þess að hægt sé að bera saman niðurstöður tryggingafræðilegra athugana milli lífeyrissjóða. Þó getur tryggingastærðfræðingur, samkvæmt heimild í reglugerð nr. 391/1998, vikið frá staðalforsendum ef hann telur að sérstakar aðstæður í viðkomandi lífeyrissjóði geri það að verkum að það gefi réttari mynd af stöðu hans.

Fjölmennur lífeyrissjóður – minni óvissa

Það skal tekið fram að tryggingafræðilegt mat á lífeyrisskuldbindingum er óhjákvæmilega háð óvissu. Í fyrsta lagi er byggt á ákveðnum forsendum um vexti, dánarlíkur o.s.frv. í marga áratugi til framtíðar og í öðru lagi má búast við tilviljanasveiflum, sem eru þeim mun minni sem fleiri sjóðfélagar eru í hlutaðeigandi sjóði. Lífeyrissjóður verzlunarmanna er því vel settur hvað þessar sveiflur áhrærir.