Hinn „Nýi stíll“ að vinna lengur

13. apr. 2012

Öldrun er að sliga samfélagið. Taka verður upp ný viðhorf til eldri borgara á vinnumarkaði. Þetta segir Harry Smorenberg, sem er sjálfstætt starfandi ráðgjafi í fjármálaþjónustu og viðskiptum og forseti World Pension Summit, árlegrar alþjóðaráðstefnu um stjórnun og stefnumótun lífeyrissjóða. Greinin hér á eftir er byggð á grein um þetta efni eftir Smorenberg, sem hann birti á fagvefnum Investments & Pensions Europe, www.ipe.com 

„Starfshæfnivísitala* í mörgum Evrópulöndum nálgast nú 75. Það gerist ekki í öllum greinum að vísu, en stórir hópar fólks ráða auðveldlega við að halda áfram störfum til 75 ára aldurs. Lífslíkur halda áfram að aukast hratt og um næstu aldamót, árið 2100, hafa ævilíkurnar örugglega færst nær 100 ára markinu. Krabbameini, sem nú er banvænt, verður unnt að halda í skefjum og greining á byrjunarstigi eða snemma leiðir til þess að hægt verður að lækna mörg tilvik sem nú eru ill- eða ólæknandi.

Og það gerir okkur lífsnauðsynlegt að finna leið sem við getum orðið sátt um til að fjármagna „velferð“ okkar. Frekari umbætur í heilsugæslu samhliða átaki til að hvetja til heilbrigðari lífsstíls og draga úr áhættu munu bæta skilvirkni heilbrigðiskerfisins. Þetta er nauðsynlegt þar sem forvarnir, eða meðferð áður en ástandið verður óviðráðanlegt, eru ávallt mun ódýrari en að leita lækningar.

Núverandi lífeyriskerfi okkar á rætur að rekja til síðustu aldar og byggist enn á að fólk fari á eftirlaun 65 ára og að líkleg meðalævi sé um 68 ár. Af því leiðir að það er fullkomlega rökrétt að reyna nú að koma aftur á jafnvægi og aðlaga starfsævi okkar þessum staðreyndum. Ýmis lönd eiga nú í erfiðleikum með að koma því á, í áföngum, að eftirlaunaaldur hækki í 67 eða 68 ár, en í rauninni ættum við nú þegar að vera að ræða um að hækka eftirlaunaaldurinn upp fyrir 70 ár. Stéttarfélög leggja áherslu á „rétt og skuldbindingar“ til eldri starfsmanna, en vinnuveitendur horfa fyrst og fremst á kostnað við þessa eldri starfsmenn.

Kjarni málsins er að um leið og þessar staðreyndir eru að renna upp fyrir okkur, halda allir hagsmunaaðilar dauðahaldi í réttindi sem komið var á í fortíðinni. Það er í rauninni mjög krefjandi að hækka vinnualdur yfir 65 ár, sérstaklega með tilliti til skatta.** Og víst er að í starfsmannastefnu margra fyrirtækja er ekki gert ráð fyrir þessu þar sem sveigjanlegur vinnutími og breytanlegt vinnuumhverfi eru einfaldlega óhugsandi. Launaþróun byggir enn að miklu leyti á stöðuhækkunum að tilteknu hámarki og ljúki síðan snögglega þegar farið er á eftirlaun. Hvorki launþegum né launagreiðendum hefur tekist að undirbúa aðlögun að breytilegum framaferlum, að skipuleggja endurmenntun eða endurþjálfun starfsfólks í ný störf, né að hagnýta þau miklu verðmæti sem felast í reynslu og þekkingu eldra starfsfólks á vinnustaðnum.

Nú fleygjum við frá okkur gríðarlega miklum fjármunum og þekkingu þegar fólk nær 65 ára aldri, á hinn bóginn veldur hækkandi aldur fólks því að sífellt mikilvægara er að viðhalda virkni þess á vinnumarkaði og þekkingu, þó ekki sé til annars en að tryggja miðlun til yngri kynslóða. Samfélag okkar einblínir hins vegar á að losa sig umsvifalaust við þessa verðmætu reynslu og þekkingu með því að setja fólkið á eftirlaun. Verðmætt starfsfólk er kvatt með blómvendi eða úri. Þá leggur það af stað á húsbílum sínum í ferðir sem það gat aldrei áður látið sig dreyma um. Oft á fólkið afar ánægjulegan tíma í nokkur ár. Og, svo allrar sanngirni sé gætt, hættir margt fólk að vinna fyrir 65 ára aldur af því er ofaukið eða á rétt á einhvers konar aðlögunartíma. Þessu fólki fer að leiðast, jafnvel áður en það nær 65 ára aldri.

Margir eldri borgarar finna sér sjálfboðastörf eða tómstundaiðju til að hafa eitthvað að gera. Aðrir hins vegar hefja einskonar nýjan feril, finna sér hlutastarf eða gera „hitt og þetta.“ Nú eru um 20 ár frá því fólk hættir störfum þar til tjaldið fellur, en lífeyrir er rýrari en við höfum nokkurn tíma talið mögulegt. Með þessu erum við að búa til nýjan hóp tiltölulega fátækra eldri borgara sem þó eru enn fullkomlega færir um að gegna áfram hlutverki sem virkir og fjölhæfir samfélagsþegnar.

Orðið „pension“ (ellilaun, eftirlaun, lífeyrir, ellilífeyrir) ætti í rauninni að afmá úr orðabókinni. Fólk þarf að læra að verða hinir virku gerendur hvað varðar sína eigin fjárhagslegu afkomu. Til þess þarf að læra og temja sér að gera fjárhagsáætlanir og hafa þannig stjórn á fjárhag sínum á ýmsum æviskeiðum – þar á meðal sínu „fjórða æviskeiði“ – þegar ekki er víst að það hafi atvinnu eða tekjur.

Ríkisstjórnir og atvinnurekendur þurfa tímanlega að gera sérstakar ráðstafanir til að í boði verði sveigjanleg störf og framboð af þeim þarf að vera stöðugt. Í því þarf að felast þjálfun og endurmenntunarnámskeið sem tryggi möguleika á framþróun í starfi og einnig endurþjálfun eldra starfsfólks svo það geti orðið að sem mestu gagni á vinnustaðnum. Augljóslega þarf einnig einhvers konar starfslokafyrirkomulag, sem byggðist á sátt um framkvæmdina. Nú þurfum við að laga okkur að „hinum nýja stíl“ í lífi okkar og starfi. Tímabært er fyrir hina hefðbundnu hagsmunaaðila (stjórnmálaflokka, aðila vinnumarkaðarins, hagsmunasamtök) að fara að hugsa „út fyrir rammann“ og grípa til aðgerða þannig að við getum öll haldið áfram að þroska okkur í samfélagi sem hefur getu og vilja til að gera okkur kleift að þróast eins og geta okkar leyfir."

*Starfshæfnivísitala, e.: Work Ability Index, segir til um hve lengi megi búast við að einstaklingar í samfélagi, t.d. einni þjóð eða ríkjasambandi eins og ESB, haldi fullri starfsgetu sinni. Í greininni hér að ofan er talað um starfshæfnivísitöluna 75, þ.e. að búast megi við að fólk haldi óskertri starfsgetu eða hæfni til þátttöku í atvinnulífinu til 75 ára aldurs.“


** Þarna vísar greinarhöfundur til þeirrar fjármögnunar lífeyris/eftirlauna sem algeng er víða erlendis, þar sem er svonefnt gegnumstreymiskerfi fjármagnað með almennum sköttum.

 

Greinin hér að ofan endurspeglar ekki stefnu, skoðanir né viðhorf stjórnar eða stjórnenda Lífeyrissjóðs verzlunarmanna, en er birt hér til upplýsingar og sem dæmi um þá umræðu sem á sér stað með vaxandi þunga í mörgum ríkjum heims, ekki síst í ríkjum Evrópu, þar sem við blasa æ þyngri byrðar á skattgreiðendur vegna lífeyrisgreiðslna, samfara þeirri þróun að sífellt færri vinnandi bera uppi lífeyrisgreiðslur til sífellt fjölgandi lífeyrisþega.