Varnarsigur í erfiðu umhverfi

27. mar. 2012

„Góður árangur 2011 hlýtur að teljast varnarsigur í því umhverfi sem okkur er skapað“, sagði Helgi Magnússon, stjórnarformaður Lífeyrissjóðs verzlunarmanna við setningu ársfundar sjóðsins í dag. Helgi lýsti í ræðu sinni áhuga á að lífeyrissjóðirnir tækju virkan þátt í uppbyggingu hlutabréfamarkaðar hér á landi og gerðust meðal annars hluthafar í fyrirtækjum á borð við bankana, Eimskip, TM auk opinberra fyrirtækja eins og Landsvirkjunar, Landsnets og Fríhafnarinnar. Hann gagnrýndi einnig úttektarnefnd Landssamtaka lífeyrissjóða fyrir að reyna að gera tjón lífeyrissjóðanna í hruninu verra en það var.

Ársfundur Lífeyrissjóðs verzlunarmanna var haldinn á Grand Hótel Reykjavík í dag kl. 18:00. Guðmundur Þ. Þórhallsson, framkvæmdastjóri sjóðsins, gerði grein fyrir því að tryggingafræðileg stað sjóðsins hefði batnað á árinu og sé með þeim hætti að lífeyrisréttindi sjóðfélaga verði ekki skert, en þau séu að fullu verðtryggð. Tryggingafræðileg úttekt sýni að miðað við lok árs 2011 nemi heildarskuldbindingar sjóðsins umfram eignir 14,5 milljörðum króna, eða um 2,3% af heildarskuldbindingum. Tiltölulega lítill munur sé á milli áfallinnar stöðu og framtíðastöðu, þannig sé tryggt að ávinnsla lífeyrisréttinda greiðandi sjóðsfélaga og lífeyrisgreiðslur til lífeyrisþega endurspegli sem best tryggingafræðilega stöðu sjóðsins.

Hrein raunávöxtun Lífeyrissjóðs verzlunarmanna á árinu 2011 var 2,8% og hrein nafnávöxtun nam 8,2%. Ítarlegar upplýsingar um starfsemi sjóðsins og stöðu er að finna í Ársskýrslu 2011 á vef sjóðsins.

Umbóta þörf

„Þrátt fyrir erfiðar aðstæður hér á landi teljum við að árangur Lífeyrissjóðs verslunarmanna á árinu 2011 sé góður og hljóti að teljast varnarsigur í því umhverfi sem okkur er skapað. Árangurinn gefur okkur tækifæri til að horfa fram á veginn af nokkurri bjartsýni,“ sagði Helgi Magnússon í ræðu sinni.

Hann sagði efni standa til að í framtíðinni geti 3,5% ávöxtunarviðmið lífeyrissjóðanna náðst ef vel verði á málum haldið og fjárfestingartækifærum á Íslandi fjölgi og hlutabréfamarkaðurinn eflist til muna. „Ef tekst að rýmka verulega um gjaldeyrishöftin og ef engin frekari stóráföll dynja yfir hér á landi eða í heiminum kringum okkur.“

Helgi gagnrýndi úttektarnefnd Landssamtaka lífeyrissjóða fyrir vinnubrögð við gerð skýrslu sinnar, sem nefndin skilaði í byrjun febrúar. „Tjón lífeyrissjóðanna af hruninu nam 380 milljörðum króna, sem var um 1/5 af heildareignum þeirra á þeim tíma. Það var mikið högg og sárt fyrir okkur sjóðfélagana. Þess vegna er óskiljanlegt að nefndin hafi valið að færa hrunið til 1. janúar árið 2008 og koma með þá niðurstöðu að „tapið“, eins og þeir velja að kalla það, hafi verið 480 milljarðar króna. Þetta skiptir máli vegna þess að það er engin þörf á að sverta dökka mynd með þessu hætti. Þessari nefnd var ekki falið annað en setja staðreyndir fram með réttum hætti. Það fól henni enginn að endurskilgreina hrunsdaginn í byrjun október. Um hann hefur ekki verið deilt til þessa en nefndin færði hann fram til 1. janúar 2008 án skýringa eða rökstuðnings.“

Helgi benti á að möguleikar Lífeyrissjóðs verzlunarmanna á því að ná 3,5% raunávöxtun til lengri tíma felist ekki síst í því að næg tækifæri gefist til arðsamra hlutabréfafjárfestinga hér á landi. „Í ljósi þessa er mikilvægt að halda til haga þeirri staðreynd að þegar litið er á raunávöxtun LV af allri íslenskri hlutabréfafjárfestingu sjóðsins frá upphafi þeirra árið 1980 og til ársloka - 2009 eftir að öll áhrif hrunsins voru komin fram – þá nemur raunávöxtun vegna íslenskra hlutabréfa 6.5% á ári.“

Þá vék Helgi að störfum ráðgjafarnefndar VR um skýrslu úttektarnefndarinnar og benti á að engin önnur launþegasamtök hefðu látið vinna slíka úttekt og enginn sjóður verið jafn ítarlega rannsakaður og Lífeyrissjóður verzlunarmanna.

Forysta um vaxtalækkanir

„Nýlega lækkaði Lífeyrissjóður verzlunarmanna verðtryggða fasta vexti niður í 3,90% úr 4,50% eða um 60 punkta. Með því býður sjóðurinn lægstu fasta vexti af lánum allra lífeyrissjóða og mun lægri vexti en Íbúðalánasjóður sem er með 4,70% fasta vexti um þessar mundir. Þá er LV einnig með lægstu breytilegu vextina sem eru nú 2,88% á verðtryggð lán. LV býður því best í báðum flokkum. Það skiptir okkur máli og við viljum að sjóðsfélagar í LV geti gengið að því vísu að þeir njóti bestu vaxtakjara lífeyrissjóðanna hjá okkur og fái góða þjónustu hjá sjóðnum.

Ég verð þó að viðurkenna að það hefur valdið nokkrum vonbrigðum að þessi vaxtalækkun skuli ekki hafa vakið meiri athygli en raun ber vitni,“ sagði Helgi.

Áhugi stjórnmálamanna ills viti

Þá vék hann að umtali, meðal annars stjórnmálamanna, um að lífeyrissjóðirnir hafi verið tregir til þátttöku í úrræðum fyrir fólk í greiðsluvanda. Hann benti á að lög bindi hendur þeirra í þeim efnum.  „Þá er rétt að minna á að stjórnmálamenn hafa sýnt lífeyrissjóðunum sífellt aukinn áhuga eftir hrun. Það er ills viti. Hvers vegna skyldi það vera? Jú, flestar fjármálastofnanir hrundu til grunna en 80% af lífeyrissjóðakerfinu stóð eftir og hefur verið að ná fyrri styrk jafnt og þétt. Þess vegna er jafnan litið til lífeyrissjóðanna þegar vantar fjármuni til framkvæmda eða fjárfestinga því þeir eru vandfundnir hjá öðrum. Þetta getur auðvitað verið í lagi ef lífeyrissjóðirnir geta komið að málum með eðlilegum hætti og átt þess kost að ná viðunandi arðsemi án þess að áhætta sé óforsvaranleg. Þá getur það verið allra hagur og þannig hefur verið unnið að ýmsum verkefnum. Marga stjórnmálamenn – bæði í stjórn og stjórnarandstöðu – dreymir um að komast yfir fjármuni lífeyrissjóðanna.“

Gjaldeyrishöft verður að afnema

Helgi kvaðst vænta þess að gjaldeyrishöft verði afnumin í áföngum og að tilslakanir gagnvart fjárfestingum lífeyrissjóða erlendis hefjist sem fyrst. Tækifærin liggi ekki síst í því að unnt verði að fjárfesta í öflugum innlendum fyrirtækjum sem koma á markað og verði mörg hver skráð í Kauphöllinni. „Nefna má allmörg fyrirtæki sem LV mun fylgjast með og gætu komið á markað á næstu mánuðum og misserum: TM, Eimskip, Advania, N-1 olíufélag, Grandi, VÍS, Vodafone, bankarnir, fasteignafélög, Síminn, auk annarra fyrirtækja í sjávarútvegi, almennum iðnaði, stóriðju, verslun og ferðaþjónustu. Og það hlýtur að koma til alvarlegrar skoðunar að ríkissjóður selji hluta af öflugum fyrirtækjum í ríkiseign, svo sem Landsvirkjun, Landsnet, Rarik, Fríhöfnina og Flugstöðina í Keflavík.

Hér er auðvitað verið að tala um að lífeyrissjóðir geti hugsanlega fjárfest í hlutabréfum í einhverjum þessara fyrirtækja með öðrum fjárfestum. Hugsunin er alls ekki sú að þeir eigi að eignast fyrirtækin eins og stundum er talað um þegar lífeyrissjóðir eru gagnrýndir fyrir að kaupa hluti í íslenskum fyrirtækjum,“ sagði Helgi Magnússon stjórnarformaður Lífeyrissjóðs verzlunarmanna.

Ræða Guðmundar Þ. Þórhallssonar framkvæmdastjóra

Ræða Helga Magnússonar stjórnarformanns

Ársskýrsla 2011