Vextir af nýjum lánum lækka

2. mar. 2012

Stjórn Lífeyrissjóðs verzlunarmanna hefur ákveðið að lækka fasta vexti á nýjum sjóðfélagalánum úr 4,50% í 3,90%. Breytilegir vextir verða áfram 2,98%.

Stjórn Lífeyrissjóðs verzlunarmanna hefur ákveðið að lækka fasta vexti á nýjum sjóðfélagalánum úr 4,50% í 3,90%. Breytilegir vextir verða áfram 2,98%.

Lífeyrissjóður verzlunarmanna hefur um áratugaskeið boðið sjóðfélögum lánafyrirgreiðslu, svokölluð sjóðfélagalán. Þessi lán hafa gegnt lykilhlutverki hjá fjölda sjóðfélaga, einkum þegar þeir hafa þurft að fjármagna íbúðakaup. Á hverjum tíma hefur Lífeyrissjóður verzlunarmanna leitast við að bjóða sanngjörn og samkeppnisfær lánskjör og er þessi lækkun vaxta ákveðin með það í huga að veita sjóðfélögum aukna og góða þjónustu á þessu sviði.

Ennfremur hefur Lífeyrissjóður verzlunarmanna í áratugi, ásamt fleiri lífeyrissjóðum, tekið þátt í að fjármagna íbúðalán allra landsmanna með skuldabréfakaupum af  Íbúðalánasjóði, áður Húsnæðisstofnun ríkisins.

Eftir efnahagshrunið haustið 2008 hefur þrengt mjög að lífeyrissjóðum landsins hvað varðar möguleika til að ávaxta fé sjóðfélaganna. Þannig hafa lífeyrissjóðirnir geymt stórar fjárhæðir á innlánsreikningum banka, með lítilli ávöxtun. Lífeyrissjóður verzlunarmanna er þar engin undantekning.

Stjórn Lífeyrissjóðs verzlunarmanna hefur í þessu ljósi tekið þá afstöðu, að farsælla sé að bjóða sjóðfélögum lán á bestu mögulegu kjörum, heldur en að geyma féð áfram á bankareikningum, sem ekki eru lengur samkeppnisfærir hvað ávöxtun varðar.

Um er að ræða hefðbundin sjóðfélagalán, verðtryggð með föstum vöxtum, það er vextir eru óbreytanlegir allan lánstímann. Þessir vextir verða nú 3,90%.

Hægt er að velja að taka lán með breytilegum vöxtum. Þeir hafa undanfarið verið 2,98% og breytast ekki nú.

Nánari upplýsingar um lánaskilmála og kjör er að finna á vef sjóðsins, www.live.is og á skrifstofunni, Kringlunni 7, síminn er 580 4000.