Dæmi um makalífeyri

2. mar. 2012

Upplýsingar um réttindi sjóðfélaga til maka- og barnalífeyris hafa verið settar á forsíðu vefsins og er að finna hér að ofan undir fyrirsögninni Makalífeyrir. Þar er einnig dæmi um verðmæti réttindanna. Þessar upplýsingar er einnig að finna hér.

Upplýsingar um réttindi sjóðfélaga til maka- og barnalífeyris hafa verið settar á forsíðu vefsins og er að finna hér að ofan undir fyrirsögninni Makalífeyrir. Þar er einnig dæmi um verðmæti réttindanna. Þessar upplýsingar er einnig að finna hér.

Makalífeyrir

Við fráfall sjóðfélaga nýtur maki ávallt makalífeyris í a.m.k. þrjú ár. Ef um börn er að ræða er makalífeyrir greiddur til 23ja ára aldurs yngsta barns.

Heildargreiðsla makalífeyris hjá Lífeyrissjóði verzlunarmanna nemur þó aldrei lægri fjárhæð en sem nemur verðbættum inngreiddum iðgjöldum hins látna maka. Í mörgum tilfellum dugar sú fjárhæð fyrir greiðslu makalífeyris í 5 til 10 ár.

Fjárhæð makalífeyris: Makalífeyrir er 60% af réttindum sjóðfélaga eins og þau hefðu verið ef hann hefði greitt til sjóðsins til 65 ára aldurs, þ.e. lífeyririnn er framreiknaður. Í því felst verðmæt trygging.

Barnalífeyrir

Jafnframt rétti til makalífeyris er greiddur barnalífeyrir með börnum  til 20 ára aldurs þeirra. Mánaðarlegur barnalífeyrir er nú um 17.000 kr. og fylgir þróun verðlags.

Hvað þýðir þetta í krónum talið?

Til að setja réttindin í samhengi er hægt að taka dæmi af sjóðfélaga sem greitt hefur af föstum 400.000 kr. mánaðarlaunum frá 25 ára aldri. Ef hann félli frá við 35 ára aldur og léti eftir sig maka og tvö börn, 2ja og 5 ára, yrðu greiðslur til maka og barna eftirfarandi.

  • Makalífeyrir til eftirlifandi maka kr. 136.773 á mánuði til ársins 2033.
  • Barnalífeyrir til tveggja barna, 17.000 kr. á mánuði í 18 ár vegna yngra barnsins en í 15 ár vegna eldra barnsins.

Reiknað heildarverðmæti maka og barnalífeyris

 24.383.617 kr.  er núvirði makalífeyris                                               
   4.999.297 kr.  er núvirði barnalífeyrisins
29.382.914
kr. er núvirði maka- og barnalífeyris ef hann væri greiddur í eingreiðslu

Til samanburðar nema verðbætt iðgjöld sjóðfélagans samtals 6.336.000 kr. Dæmið sýnir okkur að verðmæti maka- og barnalífeyrisins er rúmlega 20 milljón kr. umfram verðtryggðar iðgjaldagreiðslur.

Núvirðing: Með núvirðingu í dæminu hér að ofan er átt við hvaða fjárhæð þyrfti að leggja til hliðar svo hún standi undir hinni mánaðarlegu greiðslu maka- og barnalífeyris.

Forsendur

  • Aðrar tekjur hafa ekki áhrif á ellilífeyri, makalífeyri og barnalífeyri. Lífeyrisgreiðslur geta hins vegar haft áhrif á rétt til tryggingabóta frá tryggingarfélögum eða úr almannatryggingarkerfinu.
  • Í öllum útreikningum er miðað við 3,5% vexti umfram verðlag.
  • Miðað er við núverandi tryggingafræðilegar forsendur Lífeyrissjóðs verzlunarmanna.
  • Áunnin réttindi og vænt réttindi eru verðtryggð.
  • Áunnin réttindi og vænt réttindi geta tekið breytingum vegna breyttra lýðfræðilegra forsendna, ávöxtunar eigna eða öðrum ytri þáttum.
  • Aðstæður hvers og eins einstaklings þarf að skoða sérstaklega. Þar koma til skoðunar ákvæði í samþykktum lífeyrissjóðsins, ákvæði laga, greiðslur frá almannatryggingum og aðrar tekjur