Lífeyrissjóðir: Fjárfestingarstefna, áhættustýring og eftirlit

28. feb. 2012

Athyglisverð og ítarleg samantekt Hagdeildar Samtaka atvinnulífsins um lífeyrissjóðina og íslenska lífeyriskerfið hefur verið birt er á vef samtakanna. Þar kemur m.a. fram að raunávöxtun íslensku lífeyrissjóðanna á árinu 2008 var hin sama og að meðaltali í OECD ríkjunum. Við birtum fyrri hluta greinarinnar hér að neðan með góðfúslegu leyfi SA. 

Árið 2008 var raunávöxtun íslenskra lífeyrissjóða sú sama og að meðaltali í OECD. Meginástæða neikvæðrar ávöxtunar lífeyrissjóða í heiminum var verðfall hlutabréfa en þau lækkuðu um 50% að meðaltali það ár. Verðlækkun hlutabréfa var hvergi meira en á Íslandi þar sem hlutabréfavísitalan lækkaði um 90%. Lífeyrissjóðir í ríkjum með hátt hlutfall hlutabréfa í eignasafni sínu urðu þar af leiðandi fyrir mesta áfallinu. Lífeyrissjóðir í ríkjum þar sem saman fór að hlutur hlutabréfa í eignasafninu var stór og verðfall þeirra var mikið voru með lökustu ávöxtunina. Það á einkum við um Írland, Ástralíu og Bandaríkin. Lífeyrissjóðir með litla hlutdeild hlutabréfa í eignasafni sínu í ríkjum þar sem verð hlutabréfa lækkaði lítið komu best út úr efnahagskreppunni 2008. Það átti einkum við um Mexíkó, Tékkland og Slóvakíu, en lífeyrissjóðir í þessum ríkjum eru tiltölulega litlir, eða á bilinu 4-12% af landsframleiðslu.

Fjárfestingarstefna íslensku lífeyrissjóðanna á Íslandi á árunum fyrir efnahagskreppuna var svipuð og hjá lífeyrissjóðum í öðrum ríkjum. Í samanburði við Norðurlöndin var fjárfestingarstefnan á Íslandi nánast sú sama, þar sem hlutdeild skuldabréfa í eignasafninu var 49% á Norðurlöndum en 46% á Íslandi og hlutdeild hlutabréfa á Norðurlöndum var 35% en 34% á Íslandi.

Eignir norska ríkislífeyrissjóðsins (olíusjóðsins) eru svipaðar að stærð í hlutfalli við landsframleiðslu og eignir íslensku lífeyrissjóðanna. Eignir norska sjóðsins voru 125% af landsframleiðslu Noregs á árinu 2011 og hrein eign íslensku lífeyrissjóðanna til greiðslu lífeyris í árslok 2011 námu 128% af landsframleiðslunni 2011. Ávöxtun norska sjóðsins var neikvæð um 23% árið 2008 en það snérist við á árinu 2009 í takt við þróun hlutabréfamarkaða þegar hún var jákvæð um 26%. Helsta markmið norska sjóðsins er að ná sem bestri ávöxtun að teknu tilliti til stýrðrar áhættu. Stefnt er að því að ávöxtun hans sé hærri en að meðaltali í ákveðnu viðmiðunarsafni verðbréfa. Helstu atriði stefnunnar er að sjóðurinn má einungis fjárfesta erlendis, 60% skal fjárfesta í hlutabréfum, 35-40% í skuldabréfum með fasta vexti og allt að 5% í fasteignum. Helmingi eignanna skal ráðstafa í Evrópu, 35% í Ameríku, Afríku og Mið-Austurlöndum og 15% í Asíu og Ástralíu. Sjóðnum er heimilt að eiga allt að 10% í skráðu hlutafélagi. Ekki er heimilt að fjárfesta meira en 3% af eignum sjóðsins í skuldabréfum með lægri einkunn en Baa3/BBB-.

Í lífeyrissjóðalögunum segir að fé lífeyrissjóðs skuli ávaxta með hliðsjón af þeim kjörum sem best eru boðin á hverjum tíma með tilliti til ávöxtunar og áhættu. Þetta er nákvæmlega sama markmið og norska ríkislífeyrissjóðnum er sett.

Löggjafinn hefur gengið býsna langt í þeirri viðleitni að tryggja dreift eignasafn og dreifa áhættu lífeyrissjóða. Í ljósi þess sem gerðist í efnahagshruninu hefur þó t.d. takmörkun fjárfestinga erlendis ekki verið sjóðunum til hagsbóta. Við núverandi aðstæður á Íslandi, gjaldeyrishöft, örsmáan hlutabréfamarkað og fáa fjárfestingarkosti, takmarka þó lögin ekki svigrúm sjóðanna til ráðstöfunar fjármuna. Helsta hindrunin er að reynt getur á hámark óskráðra verðbréfa við 20% af hreinni eign sem getur takmarkað svigrúm sjóðanna til fjárfestinga.

Fjárfestingarstefna lífeyrissjóðanna felst í því að gætt er varfærni í fjárfestingum og að eingöngu er litið til hagsmuna lífeyrisþega. Eðlilegt er að löggjöfin þróist með tilliti til breyttra aðstæðna og nýrra fjárfestingarkosta. Farsælast er að breytingar á löggjöfinni séu vel ígrundaðar og grundvallist á þeim langtímasjónarmiðum sem sjóðirnir byggja á. Þegar að endurskoðun löggjafarinnar kemur mun 3,5% ávöxtunarviðmiðið eflaust koma til ítarlegrar umfjöllunar en breyting á því hefur gríðarleg áhrif. Sem dæmi má nefna að ef ávöxtunarviðmiðið væri 3,0% þyrfti að koma til 2% hækkun á iðgjaldi, úr 12% í 14%, ef lífeyrisréttindi ættu að haldast óbreytt.

Eftirlit Fjármálaeftirlitsins (FME) með lífeyrissjóðunum hefur aukist mikið á undanförnum árum. Einn mælikvarði á aukið eftirlit FME er fjölgun starfsmanna þess í eftirliti með lífeyrissjóðum. Ársstörfum í eftirliti með lífeyrissjóðum fjölgaði úr 5,7 í 14,4 eða um 150% milli áranna 2008 og 2011.

Því verður ekki með sanngirni haldið fram að eftirlit með lífeyrissjóðum sé ábótavant. Mjög vafasamt er að hægt sé að réttlæta aukinn kostnað við enn aukið eftirlit, því það er ærið nú þegar, og aukning þess gæti hugsanlega unnið gegn hagsmunum lífeyrisþega vegna aukins kostnaðar og þunglamalegri starfsemi. Sem dæmi um hversu umfangsmiklir eftirlitsþættir í rekstri lífeyrissjóða eru þá hefur því verið haldið fram að allt að þriðjungur tíma framkvæmdastjóra og lykilstarfsmanna lífeyrissjóða fari í að sinna eftirlitsaðilum.

FME er ekki eitt um það að hafa eftirlit með lífeyrissjóðunum. Umfangsmikið eftirlit felst einnig í störfum ytri og innri endurskoðenda og endurskoðunarnefnda. Tveir síðarnefndu aðilarnir hafa eftirlit með því að innra eftirlit og áhættustýring séu virk. Ríkari kröfur en áður eru nú gerðar til lífeyrissjóða hvað varðar fagmennsku, þekkingu og áhættustýringu. Hæfispróf FME á stjórnarmönnum og framkvæmdastjórum lífeyrissjóða eru til marks um fyrrnefndu þættina. Nýlega tóku gildi leiðbeinandi tilmæli FME um áhættustýringu (eftirlitskerfi) lífeyrissjóða í desember 2011. Þær reglur sem sjóðunum ber að lúta samkvæmt þeim eru afar ítarlegar og eru fyrirmyndar sóttar í það sem best þykir gerast erlendis í þessu efni.