Áhættudreifing í eignasafni Lífeyrissjóðs verzlunarmanna

10. feb. 2012

Dreifing áhættu við fjárfestingar er grunnþáttur í starfsemi lífeyrissjóða. Það er að setja ekki öll eggin í sömu körfu: Að fjárfesta í mörgum ólíkum eignum, einnig í mörgum löndum. Með því dreifa þeir áhættu við fjárfestingarnar þannig, að þótt tap verði á einni tegund eigna eru líkur á að það vinnist upp í hagnaði af öðrum.

Dreifing áhættu við fjárfestingar er grunnþáttur í starfsemi lífeyrissjóða. Það er að setja ekki öll eggin í sömu körfu: Að fjárfesta í mörgum ólíkum eignum, einnig í mörgum löndum. Með því dreifa þeir áhættu við fjárfestingarnar þannig, að þótt tap verði á einni tegund eigna eru líkur á að það vinnist upp í hagnaði af öðrum. Eftir útkomu skýrslu úttektarnefndar Landssamtaka lífeyrissjóða hefur umræðan mjög snúist um að lífeyrissjóðirnir hafi tekið mikla áhættu og ekki dreift fjárfestingum sínum sem skyldi til þess að draga úr hættu á tapi. Sumir ganga svo langt að fullyrða að öll eggin hafi verið sett í sömu körfuna. Hér á eftir er fjallað um áhættudreifingu í eignasafni Lífeyrissjóðs verzlunarmanna og um grein eftir Valdimar Ármann hagfræðing um áhættudreifingu lífeyrissjóðanna.

Valdimar Ármann er hagfræðingur og fjármálaverkfræðingur, menntaður í London, New York og á Íslandi. Hann hefur starfað hjá ABN AMRO banka í London og New York og starfar nú hjá Gamma Management hf, sem er rekstrarfélag verðbréfasjóða í Reykjavík. Valdimar skrifaði grein, sem birtist á vefmiðlinum visir.is miðvikudaginn 8. febrúar 2012 undir fyrirsögninni „ Umræða um tap lífeyrissjóða á villigötum.“ 

Ekki má aðeins horfa á tap

Í greininni vísar Valdimar til þeirrar niðurstöðu úttektarnefndarinnar að lífeyrissjóðirnir hafi tapað 480 milljörðum króna á árunum 2008-2009. Mjög mikilvægt sé að greina afleiðingar og lærdóm hrunsins með réttum og sanngjörnum hætti. Síðan segir hann: „Þeir sem stunda eignastýringu verða að taka margar ákvarðanir sem sumar hverjar munu reynast rangar. Raunar er það svo að kenningar  og fræði um eignastýringu gera einmitt ráð fyrir röngum fjárfestingarákvörðunum  vegna óvissu og skort[s] á upplýsingum. Grunnmarkmiðið er áhættudreifing og sígilda sögnin að setja ekki öll eggin í sömu körfuna er gulls ígildi. En þó einhver eggin brotni engu síður, er ekki sjálfgefið að fjárfestingarstefnan í heild hafi verið ámælisverð þar sem önnur egg eru heil og bæta upp fyrir þau brotnu.  Ekki má einungis horfa á tap einstakra eigna óháð hagnaði annarra eigna.“

Þessi grunnregla um dreifingu eigna, sem Valdimar nefnir, er lýsandi fyrir starfsemi Lífeyrissjóðs verzlunarmanna. Það sést glöggt á myndinni hér að neðan, þar sem eignasafni sjóðsins er skipt í fjóra meginflokka (sem hver og einn skiptist í nokkra undirflokka) og sýnd skipting þeirra í lok árs 2007 og lok árs 2008.

Skipting-verdbrefaeignar

Á myndinni má sjá að einn eignaflokkur minnkaði á árinu 2008, bæði hlutfallslega og að krónutölu.  Rétt er að taka fram að sala umfram kaup með innlend hlutabréf nam  rúmum 6 milljörðum kr.  á árinu 2008. Aðrir eignaflokkar jukust bæði að krónutölu og hlutfalli.

Ekki séríslenskt fyrirbrigði

Mjög hefur skort á það í opinberri umræðu um skýrslu úttektarnefndarinnar að lífeyrissjóðirnir hafi haft fjárfestingartekjur á árinu 2008, og reyndar ekki síður árin fyrir og eftir það. Staðreyndin er aftur á móti að þeir fengu miklar tekjur af öðrum eignarflokkum en innlendum hlutabréfum og skuldabréfum fyrirtækja. Þá hefur ekki síður skort á það í fréttaflutningi og opinberri umræðu að Ísland var ekki sér á báti hvað varðar efnahagsáföllin sem dundu yfir haustið 2008, þau voru í raun og veru alþjóðleg. Valdimar segir í grein sinni:

„Árið 2008 var ekki bara stórviðrasamt á Íslandi. Upphaf hrunsins á heimsvísu má rekja til falls bandaríska fjárfestingabankans Bear Stearns sem var svo seldur til JP Morgan í lok mars 2008. Var þá farið að hrikta í stoðum fjármálaveldis Bandaríkjanna sem leiddi svo til gjaldþrots Lehman Brothers þann 15. september 2008, sem var þá fjórði stærsti fjárfestingarbanki í heimi, ásamt fjölda annarra smærri viðskiptabanka í Bandaríkjunum á árunum 2008-2011.“

Efnahagsþrengingarnar haustið 2008 eru því ekki séríslensk fyrirbrigði.  Alheimskreppa skall á þetta haust.

Mikil áhættudreifing

„Staðreyndin er sú að eignasafn íslensku lífeyrissjóðanna var fjölbreytt og áhættudreift og í byrjun árs 2008 var m.a. um 27% af safni þeirra í erlendum eignum,“ segir Valdimar Ármann. Hlutfall eigna Lífeyrissjóðs verzlunarmanna í erlendum verðbréfum var 32% í árslok 2007. Þrátt fyrir miklar  verðlækkanir á árinu 2008 hélt safnið velli og hrundi ekki eins og innlendi hlutabréfamarkaðurinn.  Miklar hækkanir urðu á erlenda verðbréfasafninu  árið 2009 en það ár voru fjármunatekjur sjóðsins yfir 25 milljarðar króna. Megin uppistaðan var tekjur af erlendum verðbréfum. 

Sumt í skýrslu úttektarnefndar er í raun afar jákvætt fyrir Lífeyrissjóð verzlunarmanna og er athyglisvert að þess hefur lítt eða ekki verið getið í umfjöllun fjölmiðla um skýrsluna. Það á t.d. við um áhættudreifingu sjóðsins. Í kaflanum um Lífeyrissjóð verzlunarmanna, 4. hefti, bls. 37, segir undir fyrirsögninni „Verðbréfaeign og raunávöxtun“:

„Töflurnar hér að neðan sýna annars vegar sundurliðun á verðbréfaeign LV eftir árum á verðlagi hvers árs og hins vegar hreina raunávöxtun hvers eignasafns fyrir sig. Erlend verðbréf voru áberandi í verðbréfasafni sjóðsins eða á bilinu 30–35%. Verðbréf með ríkisábyrgð voru um 17% á árunum fyrir bankahrunið en þá fóru þau í 21,7% í árslok 2008 og 25,1% í árslok 2009. Innlend hlutabréf voru að jafnaði um 21-23% árin 2005-2007. Við fall bankanna fór hlutfallið niður í 1,4% í árslok 2008. Veðskuldabréf sjóðfélaga eru jafnan um 12-15% af eignum sjóðsins sem er óvenjuhátt og skýrist af markvissri markaðssetningu stjórnenda sjóðsins á lánum til sjóðfélaga um langt árabil og fjölda sjóðfélaga. Skuldabréf banka og sparisjóða eru á bilinu 6-8% en fóru niður í 3,4% árið 2009. Þá voru fyrirtækjaskuldabréf á bilinu 5-7%. Aðrar eignir sjóðsins voru hlutfallslega lægri."

Ahaettudreifing

Hér er mynd að ofan sem unnin er úr töflu 4, á bls. 38 í skýrslunni, sem textinn úr skýrslunni vísar til, sett fram á lýsandi myndrænan hátt. Þar sést glöggt hvar helstu breytingar verða: Innlend hlutabréf nánast hverfa í lok árs 2008, fyrirtækjaskuldabréf minnka nokkuð, bankainnstæður vaxa mikið en sjóðfélagalán taka litlum breytingum.

Tap af pappírshagnaði?

Að lokum er hér gripið niður í grein Valdimars Ármann, þar sem hann spyr hvort tap lífeyrissjóðanna, sem svo mjög er rætt um, hafi verið tap af pappírshagnaði. „Loks verður að hafa  í huga að lífeyrissjóðirnir fjárfestu í rauninni mjög lítið í íslenskum hlutabréfum árið 2008 og var heildareign þeirra í hlutabréfum aðeins um 15% af heildareignum þeirra. Raunar fjárfestu þeir mjög lítið af nýjum fjárfestingum í hlutabréfum frá árinu 2006 þó hins vegar hækkanir á markaðsvirði hlutabréfa leiddu til þess að vægi þeirra í eignasafninu jókst. Það er þannig verið að reikna tap af pappírshagnaði,“ segir þar.  Eins og áður hefur komið fram seldi lífeyrissjóðurinn á árunum 2007 og 2008 innlend hlutabréf umfram kaup fyrir rúma 8 milljarða. 

Grein Valdimars Ármann

Skýrsla úttektarnefndar, kaflinn um Lífeyrissjóð verzlunarmanna (bls. 37-38)