Raunávöxtun hlutabréfa 6,5% á ári frá upphafi

8. feb. 2012

Raunávöxtun Lífeyrissjóðs verzlunarmanna af allri íslenskri hlutabréfafjárfestingu sjóðsins frá upphafi árið 1980 og til ársloka 2009 – þ.e. fram yfir hrun og fram yfir áföllin af hruninu - nemur 6,5% á ári. Þetta kemur fram í grein eftir Helga Magnússon, formann stjórnar Lífeyrissjóðs verzlunarmanna, sem birtist í Morgunblaðinu í dag. Þar bendir hann einnig á að tjón lífeyrissjóðanna í landinu vegna hrunsins hafi verið 380 milljarðar króna, ekki 480 milljarðar eins og fullyrt er í skýrslu úttektarnefndarinnar, sem kynnt var sl. Föstudag 3. febrúar. Grein Helga fer hér á eftir.

Tjón lífeyrissjóðanna af hruninu var 380 milljarðar – ekki 480

eftir Helga Magnússon

Tjón íslensku lífeyrissjóðanna af hruninu var um 380 milljarðar króna en ekki 480 milljarðar eins og fram kemur í skýrslu úttektarnefndar. Nefndin mælir tjónið frá 1. janúar 2008 en ekki frá byrjun hrunsins sem hófst í október 2008 eins og flestum ætti að vera ljóst. Í stað þess að meta áhrif hrunsins frá því að hrunið hófst, en reikna það þess í stað frá ársbyrjun 2008, er sýnd 95 milljörðum hærri tala en hið raunverulega tjón er. Það stafar af gengisþróun hlutabréfa á mörkuðum á fyrstu 9 mánuðum ársins sem öll var niður á við á innlendum sem alþjóðlegum mörkuðum. Ekki hafa verið kynnt nein rök fyrir þessari framsetningu nefndarinnar og því er óhjákvæmilegt að leiðrétta þetta þannig að umræðan um skýrsluna verði ekki á frekari villigötum vegna þessa.

Hjá Lífeyrissjóði verzlunarmanna nam tjón vegna hrunsins um 50 milljörðum króna, sem var fimmtungur eigna sjóðsins á þeim tíma. Þessar upplýsingar hafa legið fyrir í 3 ár og um þær hefur verið fjallað opinberlega af hálfu sjóðsins, m.a. á ársfundum. Sjóðurinn hefur því leiðrétt þær tölur sem nefndin heldur fram um tjón sjóðsins og fram koma í skýrslunni. Í því sambandi er vakin athygli á fréttatilkynningu á vef sjóðsins, live.is, frá því 3. febrúar sl. Þar er einnig gerð grein fyrir margháttuðum umbótum sem gerðar hafa verið á verklagi hjá sjóðnum bæði fyrir og eftir hrun.

Það ber ekki að skilja orð mín þannig að tjón sjóðanna sé ekki tilfinnanlegt og sárt þó gerð sé athugasemd við þá framsetningu sem sýnir það meira með því að færa hrunið til í tíma. Hrunið hófst í byrjun október 2008 og það er eini tíminn sem rökrétt er að miða við þegar afleiðingar þess eru metnar. Þá tel ég afar brýnt að tjón íslenskra lífeyrissjóða sé sett í samhengi við annað sem gerðist í heiminum þegar lagt er mat á umfang þess.

Sambærilegt við OECD-ríkin

Það má ekki gleymast að á Íslandi varð bankahrun. Um allan hinn vestræna heim varð fjármálakreppa. Trúlega sú versta frá hruninu mikla árið 1929. Það þarf því enginn að búast við því að lífeyrissjóðir komist gegnum slíka atburði án þess að verða fyrir alvarlegum skakkaföllum. Á Íslandi varð hrun banka og fjölda fyrirtækja en á öðrum Vesturlöndum urðu bankar og atvinnulíf fyrir höggum í kreppunni en ekki hruni eins og hér varð. Í ljósi þess er það athyglisvert að tjón íslensku lífeyrissjóðanna skyldi ekki verða meira en varð að meðaltali innan OECD.

Í skýrslu sem Capacent ráðgjöf gerði fyrir Lífeyrissjóð verslunarmanna árið 2009 kemur m.a. fram að meðalávöxtun lífeyrissjóða í OECD-ríkjunum hafi verið neikvæð um 23% á árinu 2008 sem er svipuð fjárhæð og tjón íslensku lífeyrissjóðanna varð af hruninu. Fram kemur í skýrslunni að gengi lífeyrissjóða í heiminum hafi verið ákaflega slæmt árið 2008 og það versta í sögu þeirra flestra. M.a. kemur fram  að eftirlaunasjóður norska ríkisins hafi tapað 27,8% eigna og erlenda deildin, norski olíusjóðurinn, hafi tapað 23,3% af nafnvirði. Þessir sjóðir voru þó allir með eignasöfn sín í löndum sem þurftu ekki að horfast í augu við bankahrun eins og við Íslendingar.

Þegar horft er á tilfinnanlegt tjón íslensku lífeyrissjóðanna af hruninu, sem nam rúmum 20% af eignum þeirra, er óhjákvæmilegt að setja þessar tölur í alþjóðlegt samhengi. Við megum ekki láta eins og áföllin hafi einungis orðið á Íslandi – alþjóðleg kreppa gekk yfir og afleiðingar hennar bitnuðu á Íslandi af enn meiri þunga vegna bankahrunsins sem átti sér margháttaðar orsakir, m.a. í kerfi sem hafði vaxið samfélagi okkar yfir höfuð.

Fjármálastofnanir hrundu – lífeyrissjóðir fengu högg

Flestar fjármálastofnanir á Íslandi hrundu til grunna. Stóru bankarnir urðu gjaldþrota, sparisjóðakerfið fór að stórum hluta sömu leið, einnig margar af smærri bankastofnunum og vátryggingarstarfsemin féll að miklu leyti. Lífeyrissjóðirnir misstu fimmtung af eignum sínum í hruninu – sem var óskaplega sárt.

En 80% af eignum sjóðanna stóðu eftir í vel dreifðu eignasafni innan lands og erlendis og lífeyrissjóðirnir hafa náð sér á strik og eflst að nýju.

Réttindi sjóðfélaga óbreytt

Sjóðsfélagar lífeyrissjóða á almennum markaði hafa þurft að taka á sig skerðingu lífeyrisréttinda. Hjá Lífeyrissjóði verslunarmanna voru réttindi okkar sjóðsfélaganna skert um 10% árið 2010 til að mæta áhrifum hrunsins. Vert er að undirstrika að ekkert af því sem fram kemur í skýrslu úttektarnefndarinnar leiðir til frekari skerðingar réttinda. Þetta er afar mikilvægt og hefur því miður orðið útundan í þeirri umræðu sem orðið hefur í kjölfar útkomu skýrslunnar.

Lífeyrissjóður verslunarmanna jók réttindi sjóðsfélaga á árunum 1997 til 2007 um rúm 24%. Eftir skerðingu ársins 2010 hafa réttindi sjóðsfélaga engu að síður aukist um 12% nettó frá árinu 1997. Lífeyrisréttindin eru verðtryggð og taka verðlagsbreytingum í hverjum mánuði.

Í skýrslu úttektarnefndarinnar er fjallað ítarlega um tjón lífeyrissjóðanna vegna taps af hlutabréfaeign í íslenskum bönkum og öðrum fyrirtækjum. Þar er að sjálfsögðu um að ræða uppistöðuna í hinu mikla tjóni sem varð við hrunið. Vegna þessa hafa menn látið að því liggja að það sé glannaleg og óábyrg fjárfestingarstefna að fjárfesta í hlutabréfum.

Þegar fjárfest er í hlutabréfum – eins og ávalt er gert í góðri trú og í hagnaðarskyni – getur fjárfestir tæpast gert ráð fyrir bankahruni í áhættugreiningu sinni.

Raunávöxtun 6,5%

Það er merkileg staðreynd að þegar litið er á raunávöxtun Lífeyrissjóðs verzlunarmanna af allri íslenskri hlutabréfafjárfestingu sjóðsins frá upphafi árið 1980 og til ársloka 2009 – þ.e. fram yfir hrun og fram yfir áföllin af hruninu, þá nemur raunávöxtunin 6,5% á ári.

Það hlýtur að teljast óvæntur og merkilegur árangur í ljósi alls þess sem sagt hefur verið með niðrandi hætti um „glannalegar og óábyrgar“ fjárfestingar lífeyrissjóða í hlutabréfum.

Veruleiki hlutabréfafjárfestinga markast af skini og skúrum. Það er aldrei á vísan að róa. En heildarárangur verður metinn þegar litið er yfir langan tíma og í ljósi þess hlýtur 6,5% raunávöxtun af fjárfestingum sjóðsins í íslenskum hlutabréfum frá upphafi og fram yfir hrun að teljast góð og mjög í þágu hagsmuna sjóðfélaganna.

Allir sáu það fyrir

Þeim er mikill vandi á höndum sem taka að sér að leggja mat á liðna atburði og kveða upp úr um það hvort margra ára gamlar ákvarðanir hafi verið réttar eða rangar þegar þær voru teknar. Jafnan er það þannig að þeir sem tóku umdeildar ákvarðanir  voru ekki í stöðu til að vita úrslitin eins og rannsakendur hins vegar eru. Það er mun auðveldara að hafa réttu svörin á reiðum höndum þegar öll spilin snúa upp á borðinu.

Þess vegna er full ástæða til að hvetja þá sem dæma til að fara fram af varkárni.

Nýútkomin skýrsla úttektarnefndarinnar breytir ekki fyrri skoðun minni á því að enginn hefur gert skarpari grein fyrir íslenska hruninu árið 2008 en rithöfundurinn Þórarinn Eldjárn. Hann sagði í bók sinni, Alltaf sama sagan:

„Það var ekki fyrr en eftir hrunið sem allir sáu það fyrir“.