Aðrir eignaflokkar skiluðu góðum tekjum

6. feb. 2012

Í framhaldi af skýrslu úttektarnefndar Landssamtaka lífeyrissjóða sem kynnt var sl. föstudag, 3. febrúar er rétt að gera grein fyrir fjárfestingartekjum lífeyrissjóðanna af þeim eignaflokkum, sem skiluðu jákvæðri afkomu árin 2006-2009. Nefndin gerði m.a. grein fyrir tapi sjóðanna af hlutabréfum og skuldabréfum banka, sparisjóða og ýmissa fyrirtækja á árunum 2006 til og með 2009. Af þessari framsetningu nefndarinnar mætti ráða að lífeyrissjóðirnir hafi einungis tapað fé á þessu tímabili, en reyndin er önnur. Aðrir eignaflokkar skiluðu góðum tekjum.

Uppsafnaðar fjárfestingartekjur Lífeyrissjóðs verzlunarmanna á árunum 2005 til og með 2010 eru liðlega 102 milljarðar króna, eins og sjá má á meðfylgjandi mynd. Tap það, sem nefndin tíundar, varð á hlutabréfum og skuldabréfum banka, sparisjóða og ýmissa fyrirtækja. Önnur innlend skuldabréf  svo sem ríkistryggð bréf, skuldabréf sveitarfélaga, einstaklinga og ýmissa fyrirtækja sem og erlend verðbréf auk bankainnstæðna gáfu góðar tekjur á þessu tímabili, en tilgangurinn með því að fjárfesta í ólíkum eignaflokkum er einmitt að dreifa áhættunni. Þá má búast við því að eignaflokkar skili misgóðri ávöxtun.

Á myndinni sést að árið 2005 voru heildar fjárfestingartekjur um 32,5 milljarðar króna. Hver súla sýnir uppsafnaðar tekjur frá og með 2005. Þá sést að á árinu 2008 lækkar fjárhæðin um tæpa 32 milljarða, hækkar síðan á ný og 2010 hafa safnast upp 102 milljarðar frá ársbyrjun 2005. Þetta gefur umtalsvert aðra mynd af afkomu sjóðsins, heldur en ráða má af fréttaflutningi af skýrslu nefndarinnar, þar sem einungis er talið tap, en ekki greint frá tekjum.

 Fjarfestingartekjur


Taflan hér að neðan sýnir svo tekjur hvers árs á þessu sama tímabili.

Árlegar fjárfestingartekjur LV í mkr.

2005 2006 2007 2008 2009 2010 Samtals
Fjárfestingartekjur 32.552 40.395 17.513 -31.994 25.472 18.124 102.062

Heildarniðurstaðan er sú, að þrátt fyrir tjónið af hruninu heldur Lífeyrissjóður verzlunarmanna áfram að vaxa. Með framsetningu þessara upplýsinga vill lífeyrissjóðurinn leitast við að gefa sjóðfélögum greinargóða mynd af þróun mála.

Tölur eru úr ársreikningum sjóðsins.