Breytt lög um séreignarsparnað – Framlag launþega lækkar úr 4% í 2%

20. des. 2011

Alþingi samþykkti rétt fyrir jólahlé þingsins breytingu á lögum um séreignarsparnað. Heimild til að draga iðgjöld launþega frá tekjuskattstofni er nú 2% í stað 4% áður. Breytingin er tímabundin næstu þrjú ár, til loka árs 2014.

Alþingi samþykkti rétt fyrir jólahlé þingsins breytingu á lögum um séreignarsparnað. Heimild til að draga iðgjöld launþega frá tekjuskattstofni er nú 2% í stað 4% áður. Breytingin er tímabundin næstu þrjú ár, til loka árs 2014.

Þessi lagabreyting er hluti af svonefndum „bandormi,“ það er frumvarpi til breytinga á ýmsum lögum í tengslum við fjárlög. Breytingin var samþykkt þrátt fyrir eindregin mótmæli Landssamtaka lífeyrissjóða fyrir hönd lífeyrissjóðanna í landinu og sjóðfélaga þeirra.

Áhrif breytinganna

Breytingin hefur í för með sér að hámark á framlagi launþega í séreignarsparnað er lækkað úr 4% í 2%, en eins og áður ber launagreiðanda að greiða 2% mótframlag skv. kjarasamningi. Möguleiki á sjóðmyndun í séreign hefur því minnkað um þriðjung, úr 6% af tekjum í 4%. Áfram nýtur þó launþegi góðs af þeim mikilvæga ávinningi að launagreiðandi leggur fram 2%, sem jafngildir viðbótarlaunum.

Lagasetningin kallar ekki á að breyta þurfi núgildandi samningum um séreignarsparnað, heldur ber launagreiðanda að tryggja að frjálst framlag launafólks í séreignarsparnað verði ekki umfram 2% af iðgjaldastofni, nema launþeginn óski sjálfur eftir því. Það er þó almennt ekki ráðlegt vegna tvísköttunar. Iðgjöld umfram 2% eru þá skattlögð áður en þau eru lögð inn í séreignarsjóð og eru síðan skattlögð aftur þegar þau eru tekin út.

Gildir til ársloka 2014

Að óbreyttum þessum nýsamþykktu lögum verður heimildin til frádráttar iðgjalda í séreignarsparnað frá tekjuskattstofni hækkuð á ný frá og með árinu 2015. Launagreiðandi á þá sömuleiðis að eigin frumkvæði að hækka framlag launþegans aftur í 4% frá og með janúarlaunum 2015, nema launþeginn óski annars.

Að hverju þarf launþegi að huga

Til að tryggja rétta framkvæmd og til að forðast tvískattlagningu er eðlilegt að hver og einn launþegi skoði vel sinn launaseðil og gæti að því að frádrátturinn lækki sem þessu nemur. Ef  út af bregður er rétt að hafa beint samband við launagreiðanda.

Þegar lögin falla úr gildi, í árslok 2014, er ráðlegt fyrir hvern og einn að gæta að því að framlag hans hækki örugglega aftur í 4%, nema launþeginn óski annars.

Nánari upplýsingar

Starfsfólk lífeyrissjóðsins veitir fúslega nánari upplýsingar í síma 580 4000.

Eins er velkomið að koma við á skrifstofu sjóðsins í Kringlunni 7 eða að senda fyrirspurn með tölvupósti á: skrifstofa@live.is.

Nálgast má ítarlegri upplýsingar um málið á þessum vefslóðum:

  • Tilkynning Landssamtaka lífeyrissjóða 
  • Auglýsing Landssamtaka lífeyrissjóða 
  • Einnig grein um efnið í VR blaðinu.